01.09.1913
Neðri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í C-deild Alþingistíðinda. (1275)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögum. meiri hl. (Jón Magnússon):

Meiri hluti nefndarinnar hefir komið með nokkurar breyt.till., flestar nauðsynlegar sem afleiðing breytinga þeirra, sem á frumv. voru gerðar við 2. umr., og skal eg ekki eyða orðum að þeim brtill.

Aðalbrtill. meiri hl. nefndarinnar er fólgin í því, að kosnir skuli hlutbundnum kosningum um land alt 8 menn til Ed., í stað allrar Ed., eins og meiri hl. lagði til við 2. umr. Þessi breyting er sjálfsögð samkv. skoðun meiri hl. Þar með er fengin nokkur trygging fyrir nokkurri festu í þinginu, þótt ekki sé svo mikil trygging, sem meiri hlutinn óskar. Ef 8 eru kosnir hlutbundnum kosningum til Ed , eru þeir þó meiri hluti þar, þótt ekki sé öflugur. Nefndin þykist hafa orðið þess vör, að deildin vilji ógjarna fækka þeim, sem kosnir eru í sérstökum kjördæmum; því leggur nefndin til að fjölga tölu þingmanna um 2 til þess að haldist tala þeirra þingmanna, sem kosnir eru í einstökum kjördæmum. Meiri hluti nefndarinnar gat ekki hugsað sér að þessi litla, fjölgun mundi mæta mótspyrnu; hún hefir ekki í för með sér svo mikinn kostnaðarauka. Fjölgunin kynni að geta leitt til þess að málin gengju fljótara. Eg hefi orðið var við það, sérstaklega á þessu þingi, að störfin hafa verið meiri en nóg fyrir þá tölu þingmanna, sem nú er.

Meiri hluti nefndarinnar hefir fallist á fyrri till. á þgskj. 577, að þingmenn kosnir hlutbundnum kosningum séu kosnir til 12 ára, og fari helmingur þeirra frá 6. hvert ár; þessa brt. hefir meiri hl. tekið upp í brtill sínar.

Að öðru leyti eru brtill. nefndarinnar afleiðingar af þessari breytingu eða þá lagfæringar á frumv. í samræmi við atkvgr. við 2. umr. Skal eg ekki að svo stöddu fara frekara út í breyt.till. meiri hlutans.

Eg vil lítillega minnast á fram komnar brtill. frá einstökum háttv. þm. Eg gat þess, að meiri hluti nefndarinnar hefði fallist á fyrri brtill. á þgskj. 577. Aftur hefir nefndin ekki getað fallist á síðari brtill., um að fella burtu síðari hluta 19. gr., að þeir, sem ekki eru í þjóðkirkjunni né öðrum viðurkendum trúbragðaflokki, greiði til háskólans gjöld þau sem ella gyldu þeir til kirkju. Þessi brtill. meiri hl. Var allmikið rædd við 2. umr. og kom meiningamunurinn þá greinilega í ljós. Eg tel enga þörf þess, að fara að taka upp aftur nú umræðurnar um þetta atriði.

Þá skal eg drepa á brtill. á þgskj. 578 frá háttv. þm. Sfjk. (V.G.). Þær eru einna veigamestar af brtill., sem fram hafa komið. Þær fela í sér miklar breytingar á frumv., og það í aðalatriðum. Þær eru yfirleitt þannig lagaðar, að engin tiltök eru að þær nái fram að ganga.

Fyrsta brt. er við 5. gr., um að engan megi skipa embættismann á Íslandi nema hann hafi rétt innborinna og kunni íslenzku. Eg álít enga ástæðu til að gera það að skilyrði fyrir því, að menn geti orðið embættismenn hér, að þeir hafi rétt innborinna manna. Það er að vísu sumstaðar gert ráð fyrir því, að embættismenn hafi rétt innborinna manna. Eg hygg samt, að víðast sé það ekki skilyrði fyrir embættaveitingum, og jafnvel ekki heldur fyrir kosningarrétti og kjörgengi, að hlutaðeigandi hafi fullkominn rétt innborinna manna. Sízt tel eg þetta ákvæði heppilegt, eina og hér hagar. Eg býst við að flutningsm. tillögunnar hafi það fyrir augum, að þeir einir skuli teljast embættismenn, sem konungur veitir embætti, en þetta getur ekki staðist. Þeir verða taldir embættismenn, sem ráðherra veitir embætti eða stöðu í landsins þjónustu, en hingað til hygg eg ekki að talið hafi verið nauðsynlegt, að hver sá er stöðu hefir í landsins þjónustu, hafi rétt innborinna manna.

Upp hitt atriðið, að embættismenn hér skuli kunna íslenzka tungu, er það að segja, að þess er ekki nokkur þörf að taka slíkt ákvæði upp í stjórnarskrána. Þetta er ákveðið í mörgum konungsúrskurðum, útgefnum um miðja 19. öld. Ef nauðsynlegt þykir að taka það betur fram, má gera það með einföldum lögum.

2. brtill. á sama þgskj. fer fram á það, að flytja megi embættismenn úr einu embætti í annað. Ef eftirlaun verða aftekin, þá er ekki ástæða til að heimila stjórninni það að geta flutt embættismenn úr einu embætti í annað móti vilja þeirra. Það er mikill munur nú, þar sem eftirlaun eru lögmælt. Till. strandar annars á því, að það er óhætt að segja, að meiri hluti þingmanna vill ekki gera ráð fyrir eftirlaunum í stjórnarskránni.

Á 3. brtill. á sama þgskj. var minst við 2. umr.; skal eg því ekki orðlengja um hana. Meiri hl. nefndarinnar leggur á móti henni, eins og öllum brtill. á þessu þgskj.

Í 4. brtill. á sama þgskj. vill háttv. þm. breyta því gamla nafni á deildunum í málstofur, efri og neðri. Það sýnist vera óþörf tillaga. Aðalefni tillögunnar er að fækka kjördæmunum; eg býst við, að það sæti sömu meðferð sem tillögur meiri hl. við 2. umr. Deildin hefir ljóslega sýnt það við 2. umr., að hún vill með engu móti fallast á fækkun kjördæma. Skal eg ekki frekara minnast á hana.

Það var að vísu samþykt í nefndiuni að greiða atkvæði gegn öllum brtill. á þgskj. 578; 6. brtill. þar, um lengd kjörtímabilsins, gæti þó komið til mála svolítið breytt.

7. brt., sbr. og 8. brt., fer fram á, að innborinna réttur sé skilyrði fyrir kosningarétti og kjörgengi. Samkv. frumv. er kosningarrétturinn bundinn við sumpart, að kjósandi sé hér fæddur eða hafi átt landavist tiltekinn tíma. Þetta er ekki einsdæmi. Í Noregi er kosningarréttur bundinn við, að menn séu norskir borgarar, en í engum lögum þar er ákveðið, hvað til þess þurfi að vera norskur borgari, en venjan er sú að skilja það svo, að norskur borgari sé sá, sem fæddur er í landinu eða hafi haft þar landvist 5 ár og unnið eið að stjórnarskránni. gjörgengi er þar bundin við 10 ára landsvist.

Fleiri lönd mætti telja, þar sem ekki eru heimtuð réttindi innborinna manna til kosningarréttar. Það er eðlilegt, að vér Íslendingar, sem vantar svo mjög fólk, viljum, að útlendingar setjist hér að og landsmönnum fjölgi, og séum því greiðari að veita útlendingum réttindi, heldur en t.d. Danir.

9. brt. gildir sama um, sem áður er tekið fram.

10. brtill. fer fram á það, að nefnd manna skuli dæma um það, hvort þingmenn séu löglega kosnir eða hafi mist kjörgengi. Þessa brt. hefir nefndin ekki heldur getað fallist á. Þykir henni engin ástæða til að svifta — Alþingi þeim rétti, sem það hefir í þessu efni. Eg veit ekki, hverja fyrirmynd háttv. þm. hefir haft fyrir sér í þessu. Eg vil gjarnan heyra ástæður háttv. þm. fyrir þessu ákvæði. Eg get ekki hugsað mér neina réttmæta ástæðu fyrir þessu ákvæði. Auðvitað má segja, að þá sé síður hætt við, að meiri hluti þingsins heiti rangindum; en ef á að draga úr því, að meiri hl. þingsins misbeiti valdi sínu, þá þyrfti að lagfæra margt. Nefndin vill ekki gera þingið ómyndugt í þessu atriði fyrir það.

Nefndin sér enga ástæðu til að heimila ráðherra, að láta annan mann mæta á Alþingi við hlið sér, eins og farið er fram á í 11. brt.

Sama er að segja um 12. brt., sem fer fram á að fella burt úr 22. grein ákvæðið um það, að ef Alþingi samþykkir breytingu á sambandinu milli Íslands og Danmerkur, skuli það mál borið undir þjóðaratkvæði. Nefndin álítur ekki rétt, að hverfa frá þessu ákvæði. Eg veit ekki, hverjar ástæður háttv. þm. eru, en eg býst ekki við, að þær séu þannig, að taka þurfi till. til greina.

Um 13. brtill. skal eg geta þess, að nefndin álftur ekki þörf á, að nýjar kosningar fari fram í inum sérstöku kjördæmum þegar væntanleg stjórnarskrárbreyting nær gildi, enda veit nefndin ekki, hverjar ástæður eru fyrir þessari tillögu. Væntanlega koma þær fram hjá háttv. flutnm. En skyldi svo fara, að brt. meiri hl. um fjölgun þm. yrði feld, þá álit eg rétt, að samþykkja brt. á þgskj. 614.

Um brt. háttv. minni hl. þarf eg ekki að tala. Það er ekki annað, sem nú ber okkur á milli, en var við 2. umræðu. Hann vill gera sem minst úr þeim, ákvæðum, sem miða að því að skapa meiri festu í þinginu. Að eins skal eg geta þess, að meiri hlutinn er nú eina og áður mótfallinn því, að stytt verði 15 ára tímabilið þangað til allir kjósendur, sem rýmkun kosningarréttarins nær til, fái hann. Við greiðum því atkvæði á móti brt , sem vili færa aldurinn niður í 35 eða 30 ár. Þetta tímabil má ekki styttra vera.

Eg man ekki til, að eg hafi nokkuð frekara að segja nú. Hafi eg gleymt einhverju, gefst mér tækifæri til að geta þess síðar.