09.07.1913
Neðri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (130)

21. mál, íslenskur sérfáni

Bjarni Jónsson:

Eg skal geta þess í upphafi, að eg er samdóma hv. flutningam. (L. H. B.) um það, að það mun vera almenn ósk allra eða flestra Íslendinga að eignast sinn eigin fána. Hann skýrði rétt og skörulega frá því, að þetta væri vilji og ásetningur innar íslenzku þjóðar, svo að eg þarf ekki að endurtaka það. Þar sem hann enn fremur talaði um réttmæti þessarar óskar, skýrði hann líka rétt frá.

En þegar hann komst út í það, að tala um, hvað framkvæmanlegt væri í þessu efni, þá býst eg Við að þar sé talsverður meiningarmunur.

Háttv. þm. skifti málinu þannig, að hann spurði, hvort vér hefðum lagaheimild til þess að hafa íslenzkan fána og þykir mér gott að njóta lagavizku hana í því efni og heyra, að þessar dönsku tilskipanir, sem því gætu verið til fyrirstöðu, hafi ekki verið birtar hér, En þó er það ekkert höfuðatriði. Þær hefði mátt nema úr gildi sem hver önnur lög. Að við getum lögleitt sérfána, ef okkur þykir nokkuð gaman að því, þar er eg honum alveg samdóma, en meiningamunur okkar held eg að liggi aðallega í því, sem háttv. þm. sagði í niðurlagi ræðu sinnar, þar sem hann áleit, að vér gætum ekki lögleitt sér stakan íslenzkan siglingafána. Þar get eg ekki verið honum sammála. Eg tel okkur hafa fulla heimild til þess. Og eg hygg, að það mætti jafnvel sanna út frá hans eigin orðum, þar sem hann var að tala um, að hann gæti ekki stöðu sinnar vegna neitað því að Ísland og Danmörk væri ein ríkiseining, kæmi fram sem ein heild út á við. En það geta bæði löndin fult eins vel, þótt þau hafi sinn fánann hvort.

Skal eg þessu til sönnunar benda hv. þm. á það, að Noregur og Svíþjóð komu fram sem ein ríkisheild út á við, meðan þau voru í sambandi, jafnvel þótt þau hefðu sinn fánann hvort. Ríkiseiningin þarf alls ekki að bresta fyrir því. Það er hægt að sýna og sanna, jafnvel þótt maður hafi sömu skoðun um ríkiseininguna og hv. þm. En svo er þar að auki þess að gæta, að þessi ríkiseining er ekki svo til komin, að hún sé lögum samkvæm. Því að við samningana í Kiel 1814, sem allir kannast við, sátu alls ekki lögleg öfl að starfi. Þar voru gerðir samningar milli tveggja málsaðila, sem ekki komu Íslandi neitt við. Þeir gátu ekki fremur skuldbundið Íslendinga heldur en Norðmenn, sem líka gripu til vopna gegn rangindunum, sem þeir voru beittir þá.

Þetta nefni eg að eins til þess að sýna fram á, að þessi ríkiseining byggist ekki á löglegum grundvelli. Það er að eins af valdboði og venju, sem haldist hefir í 99 ár.

En annars er það ekki þetta, sem eg byggi á, og hefi aldrei bygt á — enda býst eg við því, að við viljum allir fúslega hafa sama konung og Danir, ef þeir að eins vilja kannast við jafnrétti okkar gagnvart þeim bæði í fánamálinu og öðrum efnum. Eg nefni þetta til þess að sýna, að það er ekki að eins á því þrönga sviði, sem hv. þm. hefir markað, sem spurningin um íslenzkan fána fær sitt svar.

Hitt blandast mér ekki hugur um, að hvort sem Danir fara með utanríkismál okkar eftir samningi eða samningslaust, þá getum við haft okkar sérstaka siglingarfána og bæði löndin komið fram sem eitt samt gagnvart öðrum þjóðum.

Heldur er eg ekki hræddur um það, að vandræði verði úr því að fá viðurkenningu annara ríkja á okkar siglingafána. Þegar Danir segja: þessar tvær þjóðir, sem koma fram sem ein heild, hafa sitt þjóðernistáknið hvor, þá hygg eg, að málið muni auðsótt.

Hitt er eg ekki eins viss um, að Danir verði svo fljótir að viðurkenna þenna rétt okkar.

Svo kemur aðalspurningin. Hvað erum við bættari með staðarfána, sérfána eða heimafána. Hann getur í sjálfu sér ekki verið annað en feitt svart stryk undir það, að við þorum ekki að heimta þann fána, sem tákni fullveldi okkar. Og jafnvel þótt eg vissi, að þessi siglingarfáni yrði aldrei annað en krafan ein, þá áliti eg samt mikið unnið með því. En með sérfána get eg ekki séð að við stöndum betur að vígi með að fá, fullveldi okkar viðurkent, nema verr sé, því að á þinginu 1911 var hér í þessari deild, af meiri hluta þjóðkjörinna fulltrúa þjóðarinnar, samþykt lög um íslenzkan siglingarfána og skipum bannað að nota annan fána. Mér virðist því rangt að fara að sveigja til núna. Sérstaklega finst mér varhugavert að draga úr réttmætum kröfum okkar nú, eftir 12. Júní, þegar yfirforingi varðskipsins danska braut lög á okkur.

Eg get því ekki fallist á frumvarpið, eins og það kemur fram. Við 2. umr. mun eg því leyfa mér að bera fram og tala fyrir þeim brtill., sem eg og fleiri þm. hafa látið prenta og útbýtt hefir verið hér í deildinni.

Vona eg þá að samkomulag geti orðið milli okkar og hv. fl.manna og frumvarpinu verði breytt. Það sem eg frekar vildi sagt hafa, mun eg geyma mér þangað til fleiri hafa talað. Eg vildi helzt hlusta á sem flesta, þar sem eg hefi ekki rétt til að tala nema einu sinni enn þá.