02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í C-deild Alþingistíðinda. (1307)

26. mál, sparisjóðir

Framsögum. minni hlutans (Ólafur Briem):

Það var ekki alveg nákvæmt hjá háttv. framaögumanni meiri hlutans, þar sem hann Sagði, að ágreiningurinn um 22. og 23. gr. hefði ekki komið fram fyr en á seinasta augnabliki. Þessar breyt.till., sem hv. þm. G.-K. (Kr. D.) og eg berum fram nú, lagði eg fram á fyrsta nefndarfundi. Þær voru, sem eðlilegt var, látnar liggja á milli hluta meðan frumvarpið var lesið yfir. Annars er aðalatriðið það, hvort hentugra sé að fylgja ákvæðum stjórnarfrumvarpsins eða tillögu okkar minni hlutans. Auðvitað er það ekki okkar að fella neinn dóm um þetta, en að eins gera grein fyrir því, hvað fyrir okkur vakti.

Það hefir ekki, að því er mér er kunnugt um, alt fram til þessa tíma komið fyrir, að illa hafi verið farið með það fé, sem sparisjóðum hefir verið trúað fyrir. Það er hvorttveggja, að vel hefir verið séð fyrir því, að nægilegar tryggingar væru fyrir útlánum, svo að féð færi ekki forgörðum og stjórnendur hafa verið vægir í kröfum um borgun fyrir ómak sitt.

Það vakti fyrir minni hlutanum, að gera sem minsta breytingu, sem hægt væri, á núverandi fyrirkomulagi Þó er nauðsynlegt að verða strangari í kröfum í einstökum atriðum. Og það er ekki ófyrirsynju, því að fjármagn sjóðanna hefir aukist stórum á síðustu árum, svo að jafnvel nokkrir þeirra hafa nú innistæðufé sem nemur meira en 100 þús. kr.

Sérstaklega er það sparisjóður Árnesinga, sem mun hafa yfir 400 þús. kr. eða alt að 1/2 milíón króna innstæðufé. Fyrir okkur vakti það, að eftirlit með hverjum sparisjóði væri falið manni, er hefði sem bezta þekkingu á veðgildi fasteigna og efnahag þeirra manna, er mest nota sjóðinn. Þetta er vel framkvæmanlegt og mundi ekki baka mikinn kostnað. Hitt hlýtur að verða mikið dýrara, að hafa einn mann til að hafa eftirlit með öllum sparisjóðum á landinu. Og þótt tilætlunin sé, að hann byrji með lágum launum, þá er það sjálfgefið, að þau mundu aukast fljótlega. Og þá mundi ekki koma til mála, að landssjóður greiddi allan þann kostnað, heldur yrði lagður sérstakur skattur á sparisjóðina, eins og líka er farið fram á í frumvarpinu, eins og það kom frá stjórninni. Kostnaður til eftirlitsmanna heima fyrir yrði aftur á móti ekki nema fáeinar krónur og yrði það ekki tilfinnanlegt.

Annars leggjum við það alveg á vald deildarinnar, hvort fyrirkomulagið hún telur haganlegra. Okkar tillögur eru nær því fyrirkomulagi, sem nú er. Og sýni reynslan, að það sé ekki fullnægjandi, þá er alt af hægt að breyta því. Og þótt það drægist í nokkur ár, þá álit eg ekki, að mikið sé í húfi.

Fyrir utan þetta þá er eitt atriði í tillögum meiri hlutans, sem eg raunar hefi ekki gert ágreining um, en er þó nokkuð hikandi við að samþykkja. Það er 39. liður við 13. gr., sem leggur til, að orðin mega þau aldrei vera eldri en 10 ára falli burt. Þetta á við sjálfskuldarábyrgðarlán, og ef það er numið burtu, eru engin takmörk fyrir því, hve oft og lengi má framlengja þau. Eg er hræddur um að þetta hafi gagnstæða verkun við það, sem meiri hlutinn hefir ætlað sér. Hann hefir ætlast til, að það drægi úr framlengingu, en eg býst við, að ákvæðið verði svo skilið í framkvæmdinni, að það rýmki til og að lán þessi verði stundum framlengd meir en góðu hófi gegnir, ef ekkert tímatakmark er tiltekið. Fyrir því nöfum við minni hluta menn komið með breytingartillögu í þá átt, að innheimta sjálfskuldarábyrgðarlána megi aldrei dragast lengur en 10 ár. En þó þessi ágreiningur hafi verið, þá fer því fjarri, að nefndin hafi ekki unnið saman í bróðerni, og eg er viss um það, að hvorki meiri né minni hlutinn gerir þennan ógreining að sérlegu kappsmáli.