02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í C-deild Alþingistíðinda. (1318)

26. mál, sparisjóðir

Stefán Stefánsson:

Eg vildi minnast á einstök atriði, sem mér falla sízt í geð. Eg efast ekki um, að frumv. er fram komið fyrir þá sök, að stjórnin Vilji tryggja betur hag þessara sjóða eða þeirra manna, sem þar eiga fé sitt, en hingað til hefir verið. En það geta orðið skiftar skoðanir um, hvort henni hefir í öllum atriðum tekist það fyllilega. Eg vil þá fyrst leyfa mér að benda á 2. málsgrein 13. greinar; hún hljóðar svo: »Eigi má samanlögð upphæð lána, þeirra er sparisjóður veitir eingöngu gegn sjálfskuldarábyrgð einstakra manna, nokkru sinni nema meiru en helmingi af Sparisjóðsinnstæðufénu öllu«.

Þetta ákvæði get eg ekki felt mig við. Mér er kunnugt um einn sparisjóð, sem mundi verða að heimta inn hátt á annan tug þúsunda króna, sem hann á útiatandandi í sjálfskuldarábyrgðarlánam, ef þetta yrði að lögum. Og eg vil segja, að þau lán eru ekki áhættumeiri en mörg hinna, sem lánuð eru út á annan eða þriðja veðrétt í jörðum, og það ef til vill í fjarlægum sveitum, þar sem stjórn sparisjóðsins er ókunnug og mundi í ýmsum tilfellum veitast erfitt að fá skýrar eða ljósar upplýsingar um, því að það er ekki nóg, að lána fé út á einhverja tiltekna jarðeign, það þarf líka að hafa eftirlit með því, að veðið rýrni ekki að verðgildi, eins og áður hefir verið bent á hér í deildinni. Þetta er því varhugavert ákvæði, því auk þess, sem það kæmi sér mjög illa og yrði til stór óþæginda meðan verið væri að breyta til um fyrirkomulag sjóðanna þessu samkvæmt, þá yrði fyrirkomulagið engu tryggara eftir en áður. Mér er kunnugt um það, að ábyrgðarmenn fyrir mjög mörgum lánveitingum, eru jarðeigendur, og hafa einmitt þessvegna verið fengnir í ábyrgð fyrir aðra, til þess að þeirra skuldir séu trygðar. Það er líka talsvert öðru máli að gegna um sparisjóði, en banka. Bankarnir lána mönnum um alt land, en sparisjóðirnir, ef til vill eingöngu innsveitis, þar sem hver þekkir annars efnahag, svo að vanskilahættan verður miklu minni.

Af þessum ástæðum hefi eg hugsað mér, ef þetta verður samþykt breytingarlaust nú, að koma með brtill. Við 3. umr. Eg álít öldungis hættulaust þó að 2/3 af veltufénu og víxillánum.

Eg er þakklátur háttv. nefnd fyrir það, að hún fylgist öll að við brtill. við 17. gr. Eg álít með öllu óhæfilegt að hefta svo —veltuféð, sem gert er ráð fyrir í þeirri grein frumvarpsins, og það er tilfinnanleg eg óþörf byrði fyrir sjóðina að verða að liggja með þetta tryggingarfé og eg álit það alveg hættulaust, sem nefndin leggur til, að það sé lækkað um helming.

Þá vildi eg minnast á 22. gr., þar sem nefndin hefir klofnað, og þar fylgi eg minni hlutanum. Eg hefi ekki þá tröllatrú á þekkingu þessa eina manns, sem á að ferðast um og engin náin kynni getur haft af lánunum. Hann getur ekki haft aðra þekkingu, en þá sem forgöngumenn sjóðanna veita honum sjálfir. En af eigin þekkingu getur hann ekki vitað, hvernig hagurinn stendur. En hvað viðvíkur breytingartillögunum, þá álít eg að það sé misskilningur, að þessa eftirlitamenn, er þar um ræðir, eigi héraðsbúar að kjósa. Það á stjórnarráðið að gera, eins og líka bæði meiri og minni hluti nefndarinnar leggur til.

Eg hygg að sú umsjón, sem minni hlutinn gerir ráð fyrir, verði ekki einasta tryggari og betri en hin, heldur einnig kostnaðarminni, því þó að þessi maður eigi að hafa umsjón allra sparisjóða á landinu fyrir 1200 kr. á ári, þá álít eg það ekki sæmileg laun fyrir þann starfa og hygg að eftir tvö eða þrjú þing, mundu þau verða komin upp í svo sem 2500–3000 krónur. Auk þess mundi ekki lítið ganga til ferðakostnaðar samkvæmt undangenginni reynslu. Hins vegar hygg eg að hægt sé að fá menn í hverju héraði, sem sem hefðu nóg vit og þekkingu til þess, að gefa stjórnarráðinu skýrslur um allan hag sjóðanna.

Eg hefi svo ekki fleira að segja að sinni, en mun greiða málinu atkv. til 3. umr. og með þessari breyt.till. minni hlutans.