09.07.1913
Neðri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (134)

21. mál, íslenskur sérfáni

Magnús Kristjánsson:

Það hafa nú bæði lærðir menn og lögfróðir rætt um þetta mál, og það kaun að virðast nokkuð djarft af mér, að vera að minnast á það. — En það vill nú svo til, að ekki eru allir Sammála, og geta því ekki allir haft rétt fyrir sér. Máske hafa einhverjir það, en eg hefi ekki getað komist að raun um að svo sé. Ég held helzt að þeir allir hafi að nokkru leyti rangt fyrir sér.

Mér finst lítil ástæða til, að vera að gera þetta mál að löggjafarmáli, því eg sé ekki annað en að okkur sé heimilt að nota hvern þann fána heima fyrir, sem okkur þóknast, án löggjafarsamþyktar. Get eg eigi séð ástæðu til að vera að gera þetta að lögum, fyr en vissa er komin fyrir því, að þjóðinni sé innilegt áhugamál að fá þennan fána löggiltan.

Mér finst vera líklegasti vegurinn, að samþykkja þingsályktunartillögu um, að skora á stjórnina, að láta listamenn koma fram með tillögur um þá fánagerð, sem þeir álitu hentugasta. Síðan væru fánagerðirnar bornar undir kjósendur, og þeir greiddu svo atkvæði um, hverja fánagerð þeir vildu hafa.

Það er með þetta mál, sem önnur, að það hefir meira en eina hlið. Eg álít varhugavert að samþykkja lög, sem gætu stuðlað að því, að við yrðum álitnir pólitískir afglapar. Það þykir mér hætt við, að gæti komið fyrir, ef þingið færi nú að setja lög um siglingarfána, eins og sambandinu milli landanna nú er háttað.

Mér finst töluvert óviðfeldið að samþykkja vissa gerð á flagginu, fyr en Vissa er fyrir, að þjóðin muni sætta sig við þá gerð.

Hvernig aðrir líta á þetta mál, er mér ómögulegt að segja, en eg fyrir mitt leyti hefi þá skoðun, að ánægjulegt væri, ef mikill meiri hluti þjóðarinnar gæti orðið ásáttur um eina gerð.

Háttv. þm. Dal. (B. J.), sem að sjálfs sín dómi mun vera sé bezti Íslendingur, er nokkurn tíma hefir uppi verið, eða muni verða, lét í ljós, að sérfáni væri ekki mikils virði. Er eg honum fyllilega samdóma í því, og fer svo ekki fleiri orðum um þetta mál að þessu sinni.