03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í C-deild Alþingistíðinda. (1376)

105. mál, jarðirnir Bústaðir og Skildingarnes lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Framsögum. (Kristján Jónsson):

Eg tók það einmitt fram áðan, að þessu hefði verið mótmælt af hreppsnefnd og sýslunefnd. En eg get ekki séð, að það eigi að hafa mikið að þýða, úr því að fult endurgjald kemur fyrir. Þess er engin von fyrir hreppinn, að fá nokkrar verulegar tekjur af Bústöðum eftirleiðis, því mér er kunnugt um, að búskapur verður lagður þar niður og býlið gert að tómthúsi. Það getur því að eins verið um Skildinganes að ræða í þessu efni. En eg hygg, að framtíðarmöguleikar þeir, sem þar er verið að hampa, séu alt of vafasamir til þess, að hægt sé að taka tillit til þeirra, eða að rétt sé að gera það.

Hér er verið að tala um anda sveitastjórnalaganna og að frv. komi í bága við hann; en þau lög eiga ekki að ráða úrslitum þessa máls, því að þau gilda ekki fyrir Reykjavík, sem er annar málsaðilinn.

Eg get ekki séð, að það hafi við nein rök að styðjast, að hreppurinn verði máttvana við þennan missi, því eg hefi margtekið það fram, að hann á að fá fult endurgjald fyrir þennan skaða, sem talað er um, að hann verði fyrir.

Hér er sömuleiðis verið að tala um þvingunarlög. En það má kalla öll lög svo. Spurningin á að eins að vera um það, hvort lögin styðjast við réttmætar ástæður og það ætla eg að þessi lög geri.

Þetta mál hefir stöðugt verið vakandi í bæjarstjórn Reykjavíkur frá því um aldamótin síðustu, þó ekki hafi því verið komið í framkvæmd fyr en nú. Mig minnir, að það jafnvel fyrir aldamótin hafi verið samþykt af nýju í bæjarstjórninni að sækja um, að Skildinganes yrði lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur eftir að mál þetta hafði fallið á þingi 1893. En eigi skal eg þó fullyrða það. Eg held ekki, að með þessu sé hreppnum sýnd nein kúgun, eða á nokkurn hátt gengið á rétt hans. Og eg hygg eftir þekkingu minni á Seltirningum að mótmæli þeirra byggist meira á kappgirni og þráa, en nákvæmri íhugun málsins.