16.07.1913
Efri deild: 10. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

37. mál, hagstofa Íslands

Guðm. Björnsson, framsögumaður:

Það má segja um þetta, sem margt annað, að sínum augum lítur hver á silfrið“. Sumir háttv. þingdeildarmenn hafa tekið breytingum nefndarinnar vel. Aðrir ætla, að hún hafi verið of íhaldsöm, er hún hefur viljað spara fje, sem stjórnin lagði til að veita til þessarar stofnunar, og ekki viljað stofna nema eitt embætti, í stað þess, að frumv. stjórnarinnar setur tvö á stofn.

Um húsnæði handa stofnun þessari, sem háttv. 1. kgk. þm. (J. H.) mintist á, mun það ráðlegast, að setja engin ákvæði í frv., en fela stjórnarráðinu, að ráða fram úr því, á sem hagkvæmastan hátt.

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) taldi ekki ástæðu til að heimta þau kunnáttu-skilyrði af hagstofustjóra, sem farið er fram á í breyttill. nefndarinnar að krafizt verði. Jeg hygg, að allir sjái, hve fráleitt það er, ef þetta embætti yrði skipað manni, er brysti þekking til að gegna því. Hjer er um svo vandasama vinnu að ræða, að það er lífsnauðsyn, að sá einn fáist við hana, er hefir næga kunnáttu til að bera. Og nefndin vill tryggja það með því ákvæði, er hjer er deilt um, að hagstofustjórinn fullnægi þeim kunnáttuskilyrðum, er nauðsynleg eru til þess að leysa starfið vel af hendi.

Þá hjelt háttv. þm. V.- Skf. (S. E.), að það veitti ekki af tveimur föstum starfsmönnum á hagstofunni og háttv. þm. Skgf. (Jósef Bj:) tók í sama streng. Það getur vel verið, að þar hafi nefndinni missýnzt. Jeg skal ekki deila við þá um það.

Það er rjett, sem háttv: þm. Barðst. (H. Kr.) tók fram, að tvær eru hliðar á þessu máli, eins og á flestum málum, og það sáum við nefndarmenn vel. Hinn háttv, þm. leit sjálfur að eins á aðra hlið þess. Hann kvað þetta alt óþarfa (Hákon Kristofferson: rangfærsla). Hinn háttv. þm. talaði á þá leið, að stjórnarráðið gæti haft þetta starf á höndum án þess að bæta starfskröftum við sig. Er þetta rangfærsla? Hann sagði, að tilætlun stjórnarinnar væri ekki önnur en sú, að skapa embætti handa mönnum, er gengju iðjulausir á gðtum Reykjavíkur. Þetta eru þungar sakargiftir í garð stjórnarinnar, sem hjer er ekki viðstödd. Að svo miklu leyti, sem þeim er ætlað að lenda á nefndinni, getur hún látið sjer þær í ljettu rúmi liggja. Hann sagði og, að hjer væri verið að smeygja inn litla fingrinum ofan í fjáhirzluna, en sá langi kæmi síðar. Hitt mun sannara, að háttv. þm. hafi ekki stungið litla fingrinum í þetta mál og því síður þeim lengri. Ef hann hefði gert það, hefði hann talað öðru vísi.

Hv. sami þm. sagði, að hjer ætti að svíkjast aftan að þjóðinni. En það hefir oft verið minzt á það ólag, sem hjer á nú að laga, og að nauðsyn sje að ráða bót á þvi. Það eru 33 ár síðan fyrst var talað um stofnun hagstofu, og það gerði einn háttv, þingmaður, er nú á sæti í hinni deildinni.

Þá fór háttv. þm. Barðstr. (H. Kr.) óhæfilegum orðum um það, að jeg hefði skýrt þinginu rangt frá um gjald fyrir samning á hagskýrslunum, og sagði, að það hefði verið greitt meira en 40 kr. fyrir örkina. Þann fróðleik hefur háttv. þm. haft frá nefndinni, svo að erfitt er að halda því fram, að jeg eða við nefndarmenn höfum viljað dylja deildina hins sanna í þessu efni.

Jeg vil minna á, að við ráðum ekki málum til lykta með gífuryrðum og orðafumi. Háttv. þm. (H. Kr.) talaði um að sumir menn mættu vel sitja kyrrir á rassinum. Það er alveg rjett, sumir, menn mættu sitja kyrrir á rassinum, heima í hjeraði sínu.