19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Jósef Björnsson, framsögumaður:

Mál þetta kom fyrst fram á aukaþ 1912, og var þá flutt af h. þm. Ak. (Guðl. Guðm.) og 1. þm. Eyf. (St. St.). Í framsögu málsins telur aðalflutningsmaður málsins tilefni frv. það, að alltiðar breytingar á mannanöfnum hafi á síðari árum leitt til slíks glundroða í viðskiftalífinu, að vandræði hafi stafað af fyrir banka, póststjórn, fátækrastjórnir og lögreglustjóra. Á aukaþinginu komst málið ekki lengra en gegn um 1 umr.; var þá skipuð nefnd í því, en hún kom ekki fram með neitt nefndarálit, og sofnaði það þannig. Við umræðuna kom sú skoðun fram, að rjettast mundi, að vísa málinu til stjórnarinnar, því að nauðsynlegt væri, að það væri rækilega undirbúið, áður en það væri leitt til lykta; þó var það eigi gert beinlínis. Stjórnin hefur nú fundið ástæðu til að taka málið upp að nýju, og byggir hún á hinu sama, sem flutningsmennirnir á síðasta þingi, að nafnabreytingar þær, sem altaf fara í vöxt, valdi ýmsum óþægindum. Það er ekki furða, þótt flutnm. frv. 1912 og stjórnin hafi fundið til óþæginda þeirra og glundroða, sem nafnabreytingunum fylgir. Þær eru sumar alleinkennilegar, og oft þannig lagaðar, að torvelt er, að gera sjer grein fyrir, að sá maður, sem í dag ber þetta nafn, sje sami maðurinn, sem áður nefndist alt öðru nafni. Þessar nafnabreytingar ná stundum ekki aðeins til mannsnafnsins sjálfs, heldur líka til býlisins. Þannig gat flm. frv. 1912 (Guðl. G.) þess, að maðureinn að nafni Pjetur Þórðarson í Garðshorni hefði svo gerbreytt nöfnum, að eftir breytinguna hjet hann Brandur Árdal á Gjallanda, og hafði hann þó ekki skift um bústað. Hvernig ætti ókunnngum að geta hagkvæmzt, að þetta væri sami maður á sama býli? Að vísu játa jeg, að það muni fremur sjaldgæft, að saman fari, að vilt sje um heimildir á manni og býli, en fyrir kemur það þó, en algengt er, að menn breyti þannig nafni sínu, að lítt verður það þekkjanjegt.

Háttv. flutnm. frumv. 1912 (Guðl. G.) færði til nöfn tilbúin af honum sjálfum; en það sýnist mjer ástæðulaust, jeg tel það eiga bezt við, að nefna rjett nöfn og sönn dæmi. Frá einu slíku dæmi hefur mjer verið skýrt. Maður hjet Þorsteinn Sveinsson. Nú hefur hann breytt nafni og nefnir sig og skrifar Th. S. Kjarval. Hjer er svo gerbreytt nafni, að óþekkjanlegt er, og varla hægt að átta sig á, að alt sje sami maðurinn. Nefndin er samdóma stjórninni um, að hjer sje komin á alt of mikill glundroði, og mál þetta hafi svo mikla þýðingu fyrir viðskiftalífið, að sjálfsagt sje að kippa því í lag. Þegar farið er að leita að orsökum til hinna tíðu nafnabreytinga á síðari árum, þá má ýmsar finna. Fyrst má telja erlend áhrif; þau eru sterkari nú en fyr. Í öðru Iagi mun stundum valda nafnbreytingunni Iöngun til að bera nafn, er veglegra þykir eða fínna en fyrra nafnið, og eins og hefja mann í tignari flokk. Þá er þriðja ástæðan, sem mun vera einna þyngst á metunum; þegar bæirnir fóru að eflast og þjettbýli að vaxa, leiddi það af sjálfu sjer, að samnefni urðu tíð, og erfitt að greina sundur samnefnda menn, sem saman bjuggu. Það var því ekki nema eðlilegt og jafnvel nauðsynlegt, að sumir þessara manna tækju upp eða fengju ný nöfn til að forðast að vilzt væri á nöfnum. Vjer getum t. d. gert ráð fyrir, að þar sem margir eru saman komnir á einn stað, þá muni ekki vera þar svo fáir Jónar Jónssynir. Verður mönnum þá fyrir að gefa þeim kenningarnöfn til að greina einn frá öðrum, eða anennirnir gera það sjálfir.

Þetta mun vera aðalástæðan til nafnabreytinganna, að menn hafa flutt saman, og fólkinu fjölgað svo mjög í bæjunum. Menn verða því að játa, að full þörf getur verið á að breyta nöfnum, þegar svo stendur á, sem eg gat um; en jafnframt er það nauðsynlegt, að nafnbreytingin sje bundin svo tryggum skilyrðum, að hún valdi sem allra minstum glundroða í viðskiftalífinu. En hjer er og fleira að gæta: þess verður að gæta, að nöfnin sjeu þannig valin, að þau verði ekki til að spilla móðurmálinu og ræktinni til þess, og þannig til að deyfa þjóðræknina og særa þjóðernistilfinninguna.

Áður fyr var það almennur siður, t. d. mjög alment á landnáms- og söguöldinni, að menn tóku sjer kenningarnöfn, og þessi siður helst í raun og veru við að nokkru enn þann dag í dag. Þessi nöfn dóu með manninum, sem tók þau, en hjeldust ekki mann frá manni, t. d. Þórólfur bægifótur, Hænsa-Þórir o. s. frv. En svo kemur til sögunnar önnur tegund nafna, nöfn, sem hjeldust mann frá manni í sömu ættinni, t, d. Thorlacius, Finsen o. fl., og urðu þannig að ættarnöfnum, og samkvæmt þeim upplýsingum, er nefndin hefur fengið, þá eru hjer á landi nú full 100 föst ættarnöfn. Um kenningarnöfnin er það að segjs, að þau eru, eina og jeg áðan tók fram, þjóðlegur og gamall siður, sem hefur haldizt við að meira eða minna leyti, alla leið frá því á landnámsöld, svo það er ekkert í þeim, er snertir óþægilegaþjóðernistilfinningu manna. Öðru máli er að gegna um ættarnöfnin, það eru margir, er hafa það á móti þeim, að þau sjeu óeðlileg í íslenzku máli; þau særi þjóðernistilfinning þeirra, en hinsvegar eru það líka margir góðir Íslendingar og fróðir menn og þjóðræknir, sem telja þjóðinni og málinu enga hættu búna af þeim, heldur jafnvel bezt og æski legast fyrir þjóðina, að þau sjeu tekin upp. Um þetta atriði eru skoðanirnar sem sagt skiftar. Nefndin verður að vera þeirrar skoðunar, að þjóðrækninni sje engin hætta búin af því, þó ættarnöfnunum fjölgi, ef settar eru fastar og fulltryggilegar skorður fyrir því, hvernig ættarnöfnin eru tekin upp, og að meðferð þeirra og nöfnin sjálf sjeu í fullu samræmi við íslenzka tungu. Nefndin lítur svo á, að það sje hvorki tiltækilegt að banna ættarnöfnin, nje skipa öllum að taka upp ættarnöfn.

Jeg hef þá stuttlega minzt á þann glundroða, sem stafar af nafnabreytingum ýmissa manna, en þá er að líta á hitt atriðið, spillinguna á móðurmálinu.

Það kunna að vera einhverjir, er líta svo á, að það geti ekki verið nein spilling á móðurmálinu, þó eiginnöfn manna sjeu ekki sem heppilegusteða jafnvel þótt þau sjeu afkáraleg. En menn verða að gæta að því, að nöfnin eru einn hluti af móðurmálinu, og ef skrípanöfn tíðkast og mjög illa er farið yfirleitt með mannanöfnin, þá er mjög hætt við því, að þetta dragi verri dilk á eftir sjer, og verði til þess, að spilla tilfinning manna fyrir góðu og hreinu. máli. Það er því fjarstæða eftir skoðun nefndarinnar, að ekki beri að líta á þessa hlið málsins.

En hvaða nöfn eru þá þannig löguð, að þau geti spilt málinu ? Þau geta verið margskonar. Jeg skal telja upp nokkur nöfn, sem sýnishorn, sem jeg fyrir mitt leyti óska að verði útrýmt með öllu sem allra fyrst.

Fyrst er þó að geta þess, sem er allóviðfeldið. Allmargar konur hjer á landi hafa á síðari árum, tekið upp heiti, sem jeg tel allóviðkunnanleg. Með þessu bendi jeg til þess, þar sem konur hafa tekið upp að kalla sig „son“, en ekki dóttir, eins og verið hefur þjóðarsiður. Og þær kalla sig ekki „son“ föður síns, heldur „son“ tengdaföður síns. Þetta verð jeg að telja, eins og jeg fyr sagði, mjög óviðkunnanlegt, og enda ósið, og ætti að útrýma því með öllu. Þetta er þeim mun eftirtektarverðara, þar sem kvenfrelsiskonur annarsstaðar — og þær eru lika hjer — berjast gegn því að taka upp ættarnafn eiginmanns síns, heldur vilja halda ættarnafni sínu, telja hitt vott um ósjálfstæði kvennmannsins.

Í öðru lagi eru hneykslanleg og rangmynduð nöfn. Þessi nöfn eru oft hin allra hneykslanlegustu nafnskrípi, og eru þau mörg.

Þegar frumv. þetta var í fyrra til umræðu í háttv. neðri deild, þá voru þar tekin sem dæmi upp á hneykslanleg skrípanöfn, nöfnin Almannagjá og Þjóðgata, og má lesa um það í Alþtíð. 1812 B III. dálk 621, en að likindum hafa þau meir verið tekin sem dæmi þess, hversu hneykslanleg skrípanöfn gætu verið, því þessi nöfn er mjer sagt af fróðum mönnum að hafi aldrei verið til. Jeg hef fyrir mjer í því jafn fróða menn og þá Hannes Þorsteinsson og Pjetur Zophoníasson, sem vera munu nafnafróðastir menn hjer.

En það er nóg af þessum nöfnum, mikið meira en nóg, og skal jeg rjett til smekkbætis nefna sem skrípanöfn eftirfarandi nöfn, er öll hafa verið til og eru. flest til þann dag í dag:

Katarínus,

Engiljón,

Jósevæn,

Kristjúlía.

Gratíana,

Samúelína,

Mensaldrína,

Emerensíanusína.

Og sem rangmynduð og leiðinlega mynduð nöfn skal jeg nefna þessi nöfn, sern nafnfróður maður hefur sagt mjer öll væru til nú:

Guðjónía,

Guðrúníus,

Guðnýr,

Grjetar (dregið af Margrjet),

Þorkelsína (fyrir Þórkatla) og

Nieljohnius.

Þá er það mjög óviðkunnanlegt, hversu menn hafa tekið upp þann sið hjer á landi, að skíra börn sín ýmsum útlendum nöfnum, sem eiga mjög illa við í íslenzkri tungu. Vanalegast eru nöfn þessi tekin upp úr einhverri skáldsögu, eða annari útlendri bók, þar sem lesendunum hefur þótt vænt um einhverja sögupersónuna, og gjarnan viljað láta heita í höfuðið á henni; en þessi nöfn eiga oft mjög illa við, og eru því sannarlega mjög leiðinleg sem íslenzk heiti. Sem dæmi slíkra óíslenzkulegra nafna og óhafandi, skal jeg nefna:

Kronika, Dosotheus, Xenofon og Rustikus.

Það væri sannarlega vel farið, að þessum nöfnum fækkaði, og bezt að þeim yrði útrýmt með öllu. Það væri enginn skaði skeður með því.

Þá er enn einn siður, sem nokkuð hefur tíðkazt hin síðari ár, og er mjög óviðfeldinn, og það er að skýra börn syni eða dætur annara en föður síns; sem dæmi þess vil jeg nefna:

Björn Kristjánsson Jónsson, Jón Pjetursson Geirsson, Jón Hallsson Ísleifsson, Anna Gísladóttir Jónsdóttir.

Þetta ætti hreint og beint að vera bannað, það er í alla staði óviðfeldið, óþjóðlegt og óíslenzkulegt.

Fyrir þetta vill frv. koma í veg með því að heimila prestunum að neita að skíra hneykslanlegum nöfnum.

Nefndin leggur því til, að stjórnarfrv. verði samþykt:

í fyrsta lagi vegna viðskiftalífsins og í öðru lagi til þess að vernda móðurmálið; en jafnframt því, sem hún leggur til, að það verði samþykt, þá leggur hún til, að gerðar verði á því töluverðar breytingar, bæði nokkrar efnisbreytingar, auk þess allmiklar orðabreytingar:

Skal jeg þá gera nánari grein fyrir breytingartill. nefndarinnar.

1. breytingartillaga nefndarinnar er, að á undan fyrstu grein komi ný grein, og er hún skýring á helztu heitunum, er koma fyrir í frumv., á heitunum: fornafn, föðurnafn, kenningarnafn, ættarnafn og nafnfesti. Jeg ætla mjer ekki að tala frekar um heiti þessi, nema minnast örlitið hins síðasta, hin eru öll þess eðlis, að þau skýra sig sjálf. Nafnfesti leggur nefndin til, að skírteini sje kallað, sem stjórnarráðið gefur fyrir því, að einhver megi breyta nafni sínu eða taka upp nýtt nafn. Nafnfesti er gott og gamalt orð, sem nú er fallið niður, og nefndin sjer ekkert á móti því, að það sje nú tekið upp í nýrri merkingu. Við höfum áður gert hið sama

á öðrum sviðum, t. d. orðið sími, og hefur það lánast vel, og orðið unnið sjer hefð í nýju merkingunni.

2. breytingartillaga nefndarinnar er um það, að 3 gr. frumv. verði 2. gr. og orðist á nokkuð annan hátt en áður var; og auk þess leggur nefndin til, að inn í greinina bætist það nýmæli, að maður verði ávalt að nota sama fornafn föður síns, þannig að ef einhver heitir Steinn en faðir hans Björn Erlendur, að þá geti hann ekki ritað stundum Steinn Björnsson en hitt veifið Steinn Erlendsson. Þar sem fleirnefni er farið að tíðkast, þá er þetta ákvæði nauðsynlegt, að maðurinn sje altaf skyldur að hafa sama nafnið sem föðurnafn, því að hitt yrði til þess, að villa heimild á sjer.

Þar sem nefndin hefur sagt, að menn væru skyldir að nota sama fornafn eða sömu fornöfn alla æfi, þá hefur henni láðst að taka það fram, að hún vill láta binda það við lögaldur, þannig að menn eftir það megi ekki breyta því, og mun nefndin lagfæra það til 3. umræðu. Og það má öllum auðsætt vera, að á uppvaxtarárunum geta menn ekki borið fulla ábyrgð gerða sinna, og gerir heldur ekki mikið til, þó nafnið taki þá breytingum. Á þeim árum ráða oftar aðstandendur og kunningjar mannsins meiru um það, hverju nafni hann er kallaður, ef hann heitir mörgum nöfnum, en hann sjálfur, en er hann hefur náð fullum þroska getur hann betur valið, hvert nafnið hann kýs sjálfur.

3. breytingartillagan er, að 2. gr. frv. verði að 3. gr. og orðist nokkuð á annan veg en í frumv. Auk þess er sú breyting gerð á þessari grein, að kona, sem á ættarnafn, verði að sleppa ættarnafni sínu, ef hún giftist manni, sem ekkert ættarnafn hefur, og verði þá að teljast dóttir föður síns, eða taka upp ættarnafn manns síns ef hann hefur ættarnafn.

4. breytingartillagan er við 4. gr., að hún orðist á nokkuð annan hátt, það nýmæli er í henni, að óskilgetin börn eigi að tjalda æltarnafni föður síns alveg eins og skilgetin bðrn. Nefndinni finst, að það eigi ekki að hafa áhrif á nafn barnsins, með hvaða konu faðirinn á barnið, og eins er það líka þægilegra fyrir ættfræðina, því þá er hægt að sjá, hvert karlleggurinn liggur. Á hinn bóginn hefur því verið skotið að mjer, að það gæti verið athugavert, að fara lengra en svo, að barnið fengi þá fyrst ættarnafnið, ef faðirinn hefur viðurkent það, og tel jeg það rjettmætt, og verður það athugað af nefndinni. Það kemur oft fyrir, að barn er dæmt á föður, og er þá faðernið vitanlega vafasamt.

5. breytingartillaga nefndarinnar er að 1. gr. verði 5. gr. Um þá tillögu er ekkert frekar að segja, nefndin hefur aðeins gert litlar orðabreytingar á greininni, En enga efnisbreytingu.

6. breytingartillaga nefndarinnar er, að 5. gr. frumv. verði 6. gr. og er frumvarpsgreininni að engu breytt, nema hvað nefndin leggur til, að orðið „kenningarnafn“ bætist inn á undan ættarnafn. Aftur leggur nefndin til, að aftan við greinina sje bætt nýju ákvæði, um að enginn geti breytt nafni sínu oftar en einu sinni. Það er auðsætt, að ef engin takmörk væru sett um það efni, þá gæti einhver tekið upp á því, að breyta nafni sínu árlega, og væri slík margendurtekin breyting vel fallin til þess að villa heimildir á manninum. Þetta ákvæði er því nauðsynlegt.

7. breytingartillögu nefndarinnar er að 6. gr. frumv. verði 7. gr. Annars má það takast sjerstaklega fram um þessa grein, að nefndin ræður til að bönnuð sjeu þau ættarnöfn, sem enda á son, sen eða dóttir, nefndin telur settarnöfn þessi hneykslanleg, og sum þeirra, einkum sonendingin mjög slæm fyrir ættfræðingana. í öðru lagi ber hún fram það nýmæli, að þegar skrár þær þrjóta, sem nefndin leggur til að samdar sjeu í 8. breytingartillögu sinni, að þá skuli stjórnarráðið leita álits kennara mentaskólans um það, hvert nöfn þau, sem óskað er að taka upp, sjeu hæf til upptóku í málið.

8. brtill. nefndarinnar er við 7. gr., sem verður 8. gr. Þar leggur nefndin til, að samin sjé: 1. skrá yfir orð og heiti. sem hæf eru til að hafa að ættarnöfnum og 2. skrá yfir skammstafanir þær á fornöfnum manna, sem heimilt skal vera að nota. Ættarnafnaskrá hlyti að verða ágætur leiðarvísir fyrir þá, sem vildu taka upp ný ættarnöfn og trygging fyrir því, að nöfnin yrðu sæmileg. Að gjöra skrá yfir skammstafanir á fornöfnum manna er einnig nauðsynlegt, því að nú er mikill ruglingur á því, hvernig menn skammstafa nöfn sín, en slík skrá mundi skapa meiri reglu og festu í því efni. — 9. brtill. er við 8. gr., sem verður 9. gr. Hún er um lítilfjörlegar orðabreytingar, sem ástæðulaust er að fjölyrða um. — 10. brtill. er við 9. gr., sem verður 10. gr., og fer hún að eins fram á orðabreyting en ekki efnisbreyting. — 11. brtill. er um, að 10. gr. frumvarpsins falli burtu, en ný grein komi í staðinn, sem verði 11. gr. Sú grein er sama efnis sem 10. greinin í frv.,. en með þeirri viðbót, að prestum sje heimilt og skylt að neita að skira börn nokkrum þeim nöfnum, sem telja verður hneykslanleg. Reynslan hefur sýnt, að nauðsyn ber til, að prestum sje veitt slíka heimild. — 12. brtill. er við 11. gr., sem verður 12. gr. Stjórnin hefur lagt til, að nafnfestingjaldið verði 10 kr., en nefndin vill færa það niður í 5 kr. Um þær brtill. nefndarinnar, sem eftir eru, þarf ekki að fjölyrða, því að þær eru aðeins um breytingu á greinaröðinni, nema sú síðasta, sem fer fram á, að breyta fyrirsögn frumvarpsins þannig, að það heiti frv. til laga um mannanöfn.

Að lokum vil jeg fyrir hönd nefndarinnar leggja það til, að háttv. deild samþykki frv. með þeim breytingum, sem nefndin hefur gjört á því. Jafnframt vil jeg taka það fram,. að nefndin ætlar sjer að taka málið enn á ný til nákvæmrar íhugunar fyrir 3. umr. og kemur því ef til vill ennþá fram með nokkrar brtill. Ef einhver háttv. þingdeildarmaður kynni að vilja koma að brtill: eða gefa nefndinni einhverjar bendingar, mun hún taka alt það tillit til þeirra, sem hún getur. Einn háttv. þm. hefur þegar komið fram með brtill. um eitt atriði, sem jeg mintist á áðan. Hann leggur til, að hver sá maður, sem hlotið hefur tvö fornöfn eða fleiri, sje skyldur til, frá því er hann verður 18 ára, að nota sama fornafn, eða sömu fornöfn alla æfi, nema hann fái leyfi til breytingar. Nefndin er sammála hinum háttv. þm. um, að eitthvert aldurstakmark verður að setja; en hún vill binda það við Iögaldur og er að því leyti mótfallin till. hins háttv. þm.