19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

28. mál, ábyrgðarfélög

Júlíus Havsteen:

Jeg tek í sama strenginn, sem háttv. umboðsm ráðh. (Kl. J.), að oss ríði á að fara hjer gætilega að í öllu. Mjer er sama, þótt h. þm. V.-Sk. (S. E.) brosi. Þetta mál getur orðið full alvarlegt fyrir hann og aðra um það líkur. Ef h. þm. (S. E.) vill draga öll þau fjelög, sem ekki eru stofnuð samkvæmt sjerstökum lögum, t. d. „Det kgl. octr. Brandassurance-Kompagni for Varer og Effecter“ frá 1778, og „det kgl. danske octr. Söassurance-Kompagni“, sem var stofnað með konungsúrskurði á árinu 1826, en endurnýjað 2. apríl 1850, — ef h. þm. (S. E.) vill, segi jeg, draga öll önnur fjelög inn undir fyrirmæli laga þessara, þá er hætt við, að erfitt geti orðið, að fá líf sitt og eignir trygt. Það er hætt við, að fjelögin, sem nú á að fara að íþyngja, dragi sig í hlje, og hvar erum vjer þá komnir? Eg skil ekki, hvað h. þm. getur gengið til að koma með brtill. á þgskj. 64. Það getur haft lítt fyrirsjáanlegar afleiðingar, verði hún samþykt. Sem formaður nefndarinnar í máli þessu verð jeg því að styðja till. háttv. umboðsm. ráðh. (Kl. J.) um, að málinu sje frestað, heldur en flanað sje út í að samþykkja eitthvað stórskaðlegt.