21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Steingrímur Jónsson:

Háttv. 2. þm. Skagf. sagði, að jeg hefði farið hörðum orðum um nefndina. Það gerði jeg ekki; jeg lýsti aðeins yfir þeirri skoðun minni, að það væri hneisa fyrir háttv. Ed., ef hún samþykti þessi 4000 kr. heiðurslaun. Jeg vil endurtaka það, að það er að berjast við skuggann sinn, að halda því fram, að í stjfrv. felist nokkur móðgun við Steingrím rektor, eins og verið væri að fá hann til þess að segja af sjer embætti. Það er fullkomlega rangt. Jeg veit ekki, hvort nefndin hefur leitað upplýsinga hjá stjórninni um þetta atriði, en það hefði hún átt að gera, þá hefði hún aldrei farið svona vill vegarins. Allir hljóta að geta skilið, að rektor er nú kominn á þann aldur, að hann hlýtur að fara að segja af sjer. — Enn er eitt atriði, sem jeg vil minnast á. Hvernig halda menn að það verði til afspurnar, ef svo reynist, að samkomulagið milli þeirra 40 manna, sem á þingi sitja, er ekki betra en það, að alt fer í handaskolum, þegar tilraun er gerð til þess, að heiðra einn hinn mesta ágætismann þjóðarinnar? Jeg held, að menn hefðu gott af að athuga þá spurningu nákvæmlega.