24.07.1913
Efri deild: 15. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Jósef Björnsson, framsögumaður:

Um brtill. á þgskj, 160 er það að segja, að nefndin hefur enn ekki tekið fasta afstöðu gagnvart henni. En eins og hún liggur fyrir, er í henni eitt atriði, sem þarf að taka til skoðunar og helzt að breyta. Sú spurning vaknar: Hvernig á að fara með útlenda menn, sem hjer dvelja? Það er orðin venja að nefna þá á annan veg en Íslendinga, nefna þá ættarnafni sínu, og munu fæstir þekkja fornafn margra þeirra. Það eru líka til Íslendingar, sem mönnum er kunnast ættarnafn þeirra eða eftirnafn, en fornafnið siður. Flestir munu t. d. kannast við Espólín gamla, þegar þeir heyra hann nefndan, en jeg hygg, að ýmsir viti eigi, að hann hafi heitið Jón að fornafni. Þótt mjer finnist brtill. geta staðið til bóta, mun jeg samt greiða atkvæði með henni nú í þeirri von, að hana megi laga áður en málið fer út úr þinginu, og að svo verði gert. Mjer fanst dálítil ásökun liggja í ræðu háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J ) til nefndarinnar fyrir það, að hún hefði ekki gert það, sem hún átti að gera. (Kl. J.: Nei). Jeg verð líka að segja það, að nefndin hefur gert það, sem hún gat, til að vanda málið. Hitt er annað mál, að ýmislegt getur enn staðið til bóta; en það má hugga sig við það, að málið á eftir að ganga gegnum h. Nd., þar sem jeg veit að það verður athugað vandlega að nýju.

Hæstv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) taldi brtill. á þgskj. 160 mikilsverða, og var ekki laust við, að hann fyndi nefndinni það til ámælis, að hún hefði eigi tekið breytingu þessa upp; datt mjer þá í hug, er jeg heyrði þetta, að skýzt skýrum sem óskýrum. Mjer hafði fundizt stjórninni sjálfri liggja næst að koma með þessa brtill. eða hafa ákvæði hennar frá upphafi í frumv. sínu. (Kl. J.: Jeg gat þess líka í ræðu minni, að svo hefði vel mátt vera).