15.07.1913
Neðri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (183)

47. mál, styrktarsjóður handa barnakennurum

Flutningsm. (Jón Jónsson):

Þetta mál hefir áður verið fyrir þinginu eins og kunnugt er. Frumvarpið er tekið upp óbreytt eina og það var samþykt við 3. umr í neðri deild í fyrra. Það gekk slysalaust í gegnum neðri deild, en dagaði uppi í efri deild.

Það var bent á það í framsögu málsins hér í deildinni í fyrra, að sjóður sá, sem hér um ræðir, væri svo fátækur, að lítils styrks væri úr honum að vænta fyrir uppgjafakennara, þegar skifta ætti í marga staði; þess vegna hefir verið farið fram á, að tillag landssjóðs væri hækkað um 1500 kr., úr 1000 kr. upp í 2500 kr.

Flestir játa, að alþýðukennarar eigi við mjög bág launakjör að búa, og geti eigi lagt mikið af mörkum til sjóðsins. Það mun því eigi veita af, að landssjóður hlaupi undir bagga og leggi til sjóðs ina einar 2500 kr. Virðist það heldur ekki vera til svo mikils mælst, þegar litið er til þess, hve þarft verk alþýðukennarar vinna.

Ekkjur kennara og munaðarlaus börn ættu að geta notið góðs af sjóðnum þegar maðurinn er fallinn frá, eftir að hafa goldið tillag til hana af litlum efnum um margra ára skeið.

Í fyrra var að vísu hreyft nokkrum mótmælum gegn frumvarpinu, en það fékk þó yfirleitt mjög góðar undirtektir hér í deildinni, eina og líka atkvæðagreiðslan ber með sér.

Hefði það því komist í gegnum báðar deildir, hefði þingið ekki yfirleitt verið mótfallið öllum lögum, er höfðu ný útgjöld fyrir landssjóð í för með sér. Enda var þá ekki búið að sjá fyrir tekjum í stað þeirra, sem áfengistollurinn veitti.

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) fann frumvarpinu það til foráttu í fyrra, að kennarafélagið væri því ekki meðmælt. Úr því var bætt þá þegar, því að á meðan frumvarpið lá fyrir deildinni, voru lögð fram meðmæli frá 4 af stjórnendum kennarafélagsins.

Nú er heldur ekki þessari ástæðu til að dreifa, því að við þingmenn Rvk, höfum fengið áskorun frá kennarafélaginu um að bera frumvarpið upp. Kennarafélagið sjálft á því upptökin til þess.

Málið var athugað svo rækilega í fyrra, að eg sé ekki ástæðu til að fara að setja það í nefnd nú. Það væri að eins til að tefja málið.

Vil eg því leggja til að það verði alla ekki sett í nefnd nú. Þeir þingm. sem vildu glöggva sig á því, geta litið í nefndarálitið og umræðurnar frá í fyrra.

Vona eg að ekki verði nú tekið ver í þetta mál, heldur en gert var í fyrra. Frammi á lestrarsalnum liggur ýtarleg skýrsla um launakjör kennara, og á henni geta menn séð að þeim er ekki unt að leggja meira af mörkum til sjóðsins, en þeir gera, svo að landssjóður verður að hlaupa undir bagga.

Sé eg svo eigi ástæðu til að fjölyrða meira um þetta að sinni.