02.08.1913
Efri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

93. mál, hallærisvarnir

Einar Jónsson:

Mjer skildist háttv. 6. kgk. þm. (G. Bj.) byggja á því, að jeg væri andvígur þessu frv., en það er ekki svo. (Guðm Björnsson: Það var ekki heldur meining mín). Jeg er því hlyntur, að við tryggjum okkur gegn hættum, er yfir kunna að vofa.

Það, sem jeg benti á, var það, hvort ekki væri rjettara, að hverfa frá nefskattinum og jafna þessu gjaldi, er hjer ræðir um, niður eftir efnum og ástæðum.

Háttv. 6. kgk. þm. mintist á, að sjereign hjeraðanna í hallærissjóðnum mundi ekki hrökkva til og sagði, að betra væri, að eiga lítið en ekki neitt, en það var ekki það, sem jeg átti við, heldur það, að svo gæti farið, að engin sjereign yrði til í hallærissjóðnum, þegar fram í sækti, ef hallæri bæri að og mjög stórt lán yrði að fá úr sameignarsjóðnum, því að þá gæti gengið langur tími til að endurgreiða það lán, áður en nokkur sjereign gæti aftur myndast. Gæti jafnvel komið nýtt hallæri áður, og þurft að halda á fje úr sjóðnum til þeirra hjeraða, er enga sjereign hefðu þá eignast. Eins og frv. nú er útbúið, getur sameignarsjóðurinn vaxið takmarkalaust, en mjer finst, að það ætti að setja einhver takmörk fyrir vexti hans nú. Það má auðvitað gera það seinna, en væri þó rjettara að gera það nú þegar, og tryggja betur sjereignina.

Mér finst háttv. framsögum. altaf gera ofmikið úr fyrirhyggjuleysi landsmanna. Fyrirhyggja þeirra er vafalaust að ýmsu leyti meiri en áður var. Þó að það sjeu nú óvíða til einstöku miklir fyrningamenn, eins og áður var, þá hefur mönnum þó alment í heildinni vaxið nokkuð fyrirhyggja og forsjálni, að því er heyásetning snertir í samanburði við það, sem var fyr á tímum, eins og bezt má sjá á frásögum um harðindi og hallæri fyr á tímum í íslenzkum annálum og víðar. Nú hafa. menn þó að minsta kosti hús yfir búpening sinn. En jafnvel á öndverðri 19. öld er svo frá skýrt, að fje hafi verið farið. að falla á Þorra, það sem ekki hafði hús — og það í Strandasýslu, einu mesta harðindasvæði landsins. Svona var fyrirhyggjan þá. Áður er jafnvel talað um stundum í hörðum vetrum, að fje hafr verið farið að falla fyrir hluta vetrar.

Nú hygg jeg, að til sjeu þó alstaðar fjárhús í Strandasýslu. Sem betur fer, er nú meiri fyrirhyggja, en áður var, þó að henni sje því miður mikið ábótavant enn, og treysti jeg því, að hún muni fara vaxandi. En alt um það er nauðsynlegt, að tryggja sig sem bezt fyrir stórum áföllum, svo að vjer þurfum ekki að lifa af bónbjörgum frá öðrum þjóðum, þegar þau ber að hendi. Það getur verið spurning, hvort vjer í slíkum tilfellum eigum að taka lán eða veita fje úr landssjóði, og getur vel verið, að hyggilegast sje að taka smám saman eitthvað úr landssjóði og leggja það í tryggingarsjóð. Ýmsir aðrir sjóðir hafa verið myndaðir á þann hátt, og virðist fult eins rjettmætt, að beita þeirri aðferð hjer. Jeg skildi hinn hv. þm. V.-Sk. svo, að hann vildi, að fjeð væri tekið úr landssjóði, án þess að neitt væri lagt til úr hjeruðunum. Þetta álít jeg alveg rangt; fólkið á að leggja sjálft beinlínis sinn skerf til tryggingarinnar. Því að, ef hver hreppur verður árlega að hugsa um að tryggja framtíðina, þá fer ekki hjá því, að slíkt glæði hjá almenningi umhugsunina um hyggilega forsjálni á hverjum tíma, sem er að líða. En að því hallast jeg heldur, að sveitarsjóðirnir eigi að leggja fjeð fram, heldur en að nefskattur sje lagður á. Háttv. 6. konungkj. þingm. mintist á, að þó að samgöngur væru greiðari nú en áður, þá væri þó ástandið að vissu leyti hættulegra nú en áður. Því að áður hefði það verið siður, að verzlanir birgðu sig alt fram í júnímánuð, en nú væri það alkunna, að litlar birgðir væru í kaupstöðum á haustin; menn treystu á miðsvetrarferðirnar, en ef þær brygðust, þá stæðu menn uppi auðum höndum, og það er sannleikur, að þessar birgðir eru langt of litlar. Það virðist því liggja í augum uppi, að hvað sem öðru líður, þurfa sveitarfjelögin að vinda bráðan bug að því, að tryggja sjer nægar vetrarbirgðir. Það getur altaf komið fyrir, að á þeim þurfi að halda. Jeg man t. d. eftir því, að 1882 sendi jeg ull mína í kaupstað 19. sept. Það var fyrsta kaupstaðarferðin á því sumri. Kaupskipin komust þá fyrst inn á Skagafjörð í september. Frostaveturinn 1880–1881 var illfært fyrir skip um sjóinn fyrir lagísum og frostum jafnvel áður en hafísinn kom, og hefði það illa hindrað sjóferðir í janúar og febrúar. Það ber því hina brýnustu nauðsyn til að menn komi sér sem fyrst upp kornforðabúrum, hvað sem þessu frv. líður.