09.08.1913
Efri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

93. mál, hallærisvarnir

Guðmundur Björnsson, framsögumaður:

Jeg ætla ekki að halda langa líkræðu yfir þessum þrem háttv. þingm., sem nú eru sálaðir; vona að þeir risi síðar upp til nýs og betra lífs í þessu máli. Jeg ætla alls eigi að svara ræðum háttv. þingmanna orði til orðs, heldur láta mjer nægja að minnast á sitt atriðið hjá. hverjum þeirra. Háttv. 3, kgk. (Stgr. J.) kvað þjóðarheillína undir því komna, að hver einstaklingur þjóðfjelagsins styrkti kraftinn í sjálfum sjer. En jeg segi, að það sje ekki kraftur hvers einstaklings, út af fyrir sig, sem mest er undir komið, heldur eru það sameinaðir kraftar allra einstaklinganna, sem stórvirkin vinna í baráttunni fyrir velfarnan þjóðanna. Þetta sjest æ betur og betur. Við Íslendingar ættum að vera farnir að sjá það og skilja, hvílík blessun getur fylgt samvinnunni, og hvílík efling atvinnuveganna henni er samfara. Vjer megum ekki loka augunum fyrir hinu nýja lögmáli, sem heimurinn beygir sig meir og meir undir nú á dögum, því lögmáli, að samvinnan og samúðin margfaldar þjóðarmáttinn. Þetta er alveg andstætt gamla lögmálinu, þegar hver bóndi vildi vera einvaldskóngur á bújörð sinni, vera sem mest sjálfum sjer nógur, og hafa sem minst saman við. aðra að sælda. Þá sný jeg mjer að háttv. þm. Ísafj. (S. St.) Hann sagði, að ef mörg hardindaár kæmu hvert eftir annað,. þá mundi það skamt hrökkva, þótt vjer ættum 3–4 miljónir króna í hallærissjóð. Þetta getur rjett verið, og það gladdi mig að heyra, að hinn mikilsmetni og ágæti þingmaður er undir niðri sömu skoðunar og jeg og margir aðrir, að stór hætta geti vofað yfir þjóðinni af harðindum. Við hljótum þá líka að vera sammála um það, að mesta þörf sje á því, að draga úr þessari hættu. En það er mesti baginn, að ekki eru nógu margir í þessu landi, sem reyna að leita sannfróðleiks, eins og háttv. 2. kgk. (E. Br.) komst að orði, um alla landsins hagi. Hefðum við marga sannfróða menn um þá á þingi og utan þings, þá mundi mál þetta ekki þurfa að verða mikið deiluefni. Háttv. þm. Ísaf. (S. St.) gerði ráð fyrir því, að hallærissjóðurinn mundi jetast upp á harðindatímum, og að hækka mundi þurfa gjöld til hans, en það mundi verða til að reka fólk úr landi. En getur háttv. þm. Ísaf. (S. St.) ekki hugsað sjer það, að fult svo líklegt sje, að fólk flýi úr landi undan harðæri, ef enginn sjóður er til, miklu fremur en þegar hallærissjóður er fyrir hendi að gripa til. Langt um lík legra sýnist, að sjóðurinn mundi festa menn í landinu, en flæma þá burt, og það þó dálítið gjald þurfi að greiða í hann. Svo mikils er jeg viss um að fólkið kann að meta trygginguna nú á þessari tryggingaöld.

Loks hverf jeg til háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), sem alt af er að tala um, að þessi sjóðstofnun muni spilla fyrir oss í augum annara þjóða, og skemma lánstraustið. Rjett er nú það. Jeg er viss um, að ef háttv. þm. V.- Sk. (S. E.) gæfi sjer tómstund til að hugsa um málið í einrúmi, þá mundi hann komast á þveröfuga skoðun. Hallærissjóðurinn er einmitt eitt hið vísasta ráð til að tryggja atvinnuvegina, og stofnun hans yrði sönnun þess, að hjer á landi býr forsjál og fyrirhyggjusöm þjóð, sem hugsar um að gera atvinnuvegi sína sem öruggasta. Og þetta ætti að veikja lánstraust landsmanna út á við ! Jeg held ekki; það getur ekki hjá því farið, að það mundi stórum aukast. Nú erum við taldir af mörgum óforsjálir ræflar. Með stofnun hallærissjóðsins sýnum við, að svo er ekki. Við sýnum, að við viljum trygga bjargræðisvegi okkar, eigi siður en aðrar þjóðir. (S. E.) Ekki hafa þær hallærissjóði). Það hafa þær víst, þær hafa tryggingarsjóði gegn atvinnubresti, og það er alveg sama.

Það er mæða til þess að vita, þegar þeir, sem eiga að ráða vandamálum þjóðarinnar til lykta, eru eins og úti á þekju um allar þjóðlífshreyfingar nútímans. Háttv. þm V: Sk. (S. E.) er alt af að tala um, að það sje vitleysa að vera að safna fje í hallærissjóð. Eftir þeirri kenningu ættu allir tryggingarsjóðir að vera vitleysa; það ætti að vera vitleysa að vera að vátryggja hús sin, skip sín, lif sitt. Öll líftrygging ætti þá að vera vitleysa, og ellistyrktarsjóðurinn okkar ætti þá líka að vera vitleysa. Ja, hún ríður ekki við einteyming vitleysan í heiminum nú á dögum, ef kenning háttv. þm. V.- Sk. (S E.) er ekki vitleysa. Ef kreppir að með fjárhaginn, þá held jeg, að hollara væri fyrir háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) að beita sjer fyrir því, að eitthvað væri klipið af skáldalaununum, eða einhver hjegóminn numinn úr fjárlögunum, heldur en að vera altaf að telja eftir þessar krónur, sem farið er fram á að landssjóður leggi í hallærissjóðinn.