16.08.1913
Efri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Steingr. Jónsson, framsögumaður:

Jeg verð að játa, að mjer kemur það á óvart að. h. 6. kgk. þm. (G. Bj.) tekur ekki rjett eftir eða skilur ekki það, sem jeg hef sagt um pósthúsið. Hjer er bent á tvær leiðir. Annaðhvort 65 þús. kr. til viðbótarbyggingar við pósthúsið, eða þá til byggingar á Arnarhóli, og ef það verður gert, þá fær síminn sæmilegt húsrúm, að minsta kosti fyrst um sinn, og pósthúsrúm verður viðunandi, að minsta kosti nokkur ár. En þriðja leiðin er sú, að reisa stórt og vandað hús, miklu stærra en hægt er að reisa fyrir 65 þús. kr., sem áætlaðar eru nú til byggingar handa pósthúsinu, en um það er ekki hægt að samþykkja neitt, nema sæmileg áætlun sje fyrir hendi.

En það vakti fyrir nefndinni, að óhjákvæmilegt væri að byggja í þessu skyni, og að vinda yrði bráðan bug að því, og því kom hún fram með þessa tillögu (G. B.: „Venjulegt flaustur). Jeg trúi því ekki, að hv. 6. kgk. þm. vilji bíða til 1916 eða 1917 eftir sæmilegu pósthúsi, bæði af því að hann er Reykvíkingur, og eins af hinu, að hann er maður athugull. Svo óviðeigandi og ófullnægjandi er ástandið í alla staði.