18.08.1913
Efri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

109. mál, forðagæsla

Einar Jónsson:

Jeg skil ekki, hvernig h. frsm. (G. G.) hefur farið að fá það út úr orðum mínum, að jeg hafi verið að tala um_ undirboð. Hjer er ákveðið, að kjósendur alment kjósi forðagæzlumenn. Það er alt annað atriði, hvernig þeim er goldið starf þeirra. Það má ákveða, eftir að þeir hafa verið kosnir. Jeg sje ekkert á móti því, að semja við forðagæzlumenn um greiðslu fyrir starf þeirra, hvort þeir vilja t. d. fá einhverja fasta upphæð fyrir starfið, eða láta greiða sjer daglaun. Það gæti og verið eins hagkvæmt, að þeir skoðuðu eftir hentugleikum, heldur en þeir færu eftir fastri áætlun, er ef til vill væri ákveðin löngu fyrirfram. Aðalatriðið er, að gæzlumennirnir geri það, sem þeir eiga að gera. Það skiftir engu, hvort farnar eru 3 skoðunarferðir eða fleiri, ef aðaltakmarkinu er náð, og sjeð er um, að menn hafi altaf nægar birgðir handa búpeningi sínum. Fastar ferðir eru auðvitað ákveðnar, af því að það þykir tryggilegra. En ef einhver vildi taka að sjer þetta eftirlit, án þess að hann hefði fasta áætlun, þá gæti það komið að sömu notum, ef hann hefði áhuga á starfinu, en gæti orðið ódýrara bæði honum og hreppnum.

H. frsm. (G. G.), vildi ekki fallast á það, er jeg sagði, að þar sem ein skoðunarferð hefði kostað 30 kr., að þá mundu 3 kosta 90 kr. Hann gaf í skyn, að vorskoðun gæti orðið ódýr eða jafnvel kosnaðarlaus, en frv. gefur ekki ástæðu til að ætla það. 3. gr. frv. skyldar þá til að fara í 3 eftirlitsferðir, og koma á hvert heimili í þessum erindum, „í fyrsta sinni á hausti, annað sinn upp úr miðjum vetri, í þriðja sinn á vori.“ En mjer finst það vafasamt, að þeir vilji ekkert taka fyrir vorskoðun sína. En ef nefndin getur komið þessu máli í það horf, að hún yrði kostnaðarlaus, þá er öðru máli að gegna.