01.09.1913
Efri deild: 43. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Hákon Kristoffersson:

Jeg get ekki verið samdóma háttv. nefnd. Jeg held ekki, að hjer sje nein hætta á ferðinni, og get ekki álitið, að hættulegra sje að láta borgarana kjósa borgarstjóra, heldur en alþingismenn. Háttv. framsm. sagðist vera hræddur um, að illa gengi að fá nýta menn í embættið, ef kosningin væri lögð í hendur allra borgara. En sá ótti er ástæðulaus, því að engin reynsla er fengin í því efni. Bæjarbúar hljóta að vera eins vel færir um að velja borgarstjóra eins og bæjarstjórn. Það getur auðvitað hugsazt, að kosning borgarstjórans vekji nokkrar æsingar, en hjer er svo margt af góðum og mentuðum mönnum, að þeir ættu að geta haft hemil á fólkinu. Annars vil jeg geta þess, að einhverjar veigamestu röksemdir fyrir kosning borgarstjórans komu fram á alþingi 1907 og voru þá fluttar fram af háttv. núverandi 6. kgk. Jeg vil leyfa mjer að lesa upp dálítinn kafla úr ræðu hans með leyfi hv. forseta. Honum farast svo orð m. a.:1)

Í þessum orðum felst svo gullvægur sannleikur, að jeg hef þar engu við að bæta. Jeg vona, að hv. 6. kgk. vilji standa við þá skoðun, sem hann þá hefur látið í ljósi, það hlýtur að vera af einhverju athuga leysi, að hann nokkurn tíma hefur hvarflað frá henni. Hjer er verið að leggjast á móti rjettlátu máli, og ef jeg væri borgari þessa bæjar, þá teldi jeg alþingi stórlega misbeita valdi sínu, ef það feldi þetta frv. Það er auðvitað ekkert við því að segja, ef menn eru mótfallnir frv. af rjettlætis-tilfinningu, hitt er verra, ef menn láta dutlunga stjórna sjer. Jeg vil því vona, að háttv. deild samþykki frv.; það mundi mælast mjög illa fyrir, ef það yrði felt.

1) Hin tilvitnðu orð vanta í umræðurnar.