02.09.1913
Efri deild: 44. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Eiríkur Briem:

Það er flest tekið fram í nefndarálitinu, er þarf að segja um mál þetta.

Þörf er á frv. þessu, því 8. flokkur veðdeildarinnar er að þrotum kominn, og má búast við því, að hann verði búinn um næstu áramót. Það er því nauðsyn á þessu frv., því annars tekur fyrir veðdeildarlánin, ef nýjum flokk verður eigi komið á fót. Um nauðsynina getur því ekki verið deilt.

En þetta frv. er að sömu leyti frábrugðið eldri veðdeildarlögum. Mismunurinn er aðallega fólginn í því, að hjer er í 8. gr. gert ráð fyrir því, að lántakendur veðdeildarinnar skuli bera sameiginlega ábyrgð á skuldum sínum, 10% af því, sem lán þeirra voru á síðasta gjalddaga áður en taka þarf til ábyrgðarinnar. Þess sameiginlega ábyrgð kemur í stað þess, að í eldri veðdeildarlögum hafa verið lögð fram skuldabrjef til tryggingar veðdeildarinnar. Fyrst lagði landssjóður fram þessi ríkisskuldabrjef, og einnig að nokkru leyti fyrir 3. flokk, en hitt hefur bankinn lagt fram, og munu nú vera þannig bundnar hátt undir miljón krónur fyrir veðdeildunum. Og það er mjög óþægilegt fyrir bankann að binda svo mikla upphæð.

Nefndin fær ekki sjeð, að honum sje fært að leggja meira fram, en í stað þess er hjer tekið til þess, sem tíðkað er í útlöndum, sameiginlegrar ábyrgðar.

Reynslan við 1. og 2. flokk veðdeildanna hefur sýnt það, að varasjóðurinn er nógur, svo líklega kemur aldrei til þess, að taka þurfi til þessarar sameiginlegu ábyrgðar, og því síður til ábyrgðar landssjóðs. En þegar á að selja bankavaxtabrjefin í útlöndum, eða hafa þau þar á boðstólum, þá hefur þetta atriði mikla þýðingu. Nefndin fær því ekki sjeð annað, en það sje fullkomin ástæða til þess að reyna fyrirkomulag þetta hjer á landi. Á hinn bóginn er hjer að eins um tilraun að ræða, og því varla ástæða til þess að fara eins langt með upphæð þessa nýja fjórða flokks, 6 miljónir, eins og gert er í frumvarpinu, og því hefur nefndin látið sjer nægja, að ákveða upphæðina eins og um 2. og 3. flokk, 3 miljónir. Reynslan hefur sýnt, að sú upphæð vinst upp á 4 –5 árum, og þá er betur hægt að dæma um það, að fenginni reynslu, hvort halda eigi áfram þessa braut eða taka aðra nýja. Það hefur þannig verið talað um það, að hætta við veðdeildirnar, en í stað þeirra að setja á fót sjerstakan veðbanka, en sem stendur eru engin tök á því.

Ýms önnur ákvæði eru ný í þessu frv., og er nefndin samþykk sumum þeirra, en öðrum ekki.

Þannig er t. d. ákveðið í 7. gr., að lánþegi eigi að sýna bankanum að minsta kosti á 5 ára fresti skilríki fyrir, að veðinu sje haldið vel við.

Þetta ákvæði telur nefndin gott, en hún hefur gert við það lítilfjörlega breytingu, nefnilega að taka það skýrt fram, að ef bankinn þurfi að láta skoða veðið, þá eigi hann að fá til þess innanhjeraðsmenn. Nefndin leit raunar svo á, að svo mundi verða, en hún vildi taka það skýrt fram, svo kostnaðurinn yrði sem minstur fyrir lánþega.

Í 9. gr. er ákveðið, að lán út á einstaka fasteign megi ekki vera hærra en 50 þús. kr., og miðar þetta ákvæði að því, að gera hættuna við lánin minni, og þar af leiðandi til þess að gera bankavaxtabrjefin tryggari og auðveldari á útlendum markaði. Í sömu grein er ákveðið, að minsta lán megi ekki vera minna en 500 kr. Að sjálfsögðu getur minsta lán veðdeildarinnar ekki verið minna en 100 kr., vegna þess að lánin verða að standa á 100 kr., og jeg held, að varla hafi verið lánað minna úr veðdeildinni en 200 kr. Nefndin leggur til, að lágmark lánanna sje fært úr 500 kr. niður í 300 kr.

Um breytingartillögur nefndarinnar skal jeg svo taka þetta fram.

Fyrsta brtill. fer fram á að lækka upphæðina úr 6 milj. niður í 3 miljónir, og er það gert vegna þess, að nefndin lítur svo á, að hjer sje um tilraun að ræða, og ef upphæðin sje 3 miljónir, þá vinnist hún upp á hjerumbil 5 árum, og þá sje frekar hægt að ákveða um, að fenginni reynslu, hvort halda eigi þessa braut eða aðra nýja leið.

Önnur brtill. fer fram á, að lækka landssjóðstillagið til varasjóðs úr 5000 kr. á ári í 5 ár = 25000 kr., í 5000 kr. á ári í 2 ár = 10000 kr. Þessi brtill. stendur í nánu sambandi við fyrstu brtill., því þegar upphæðin er lækkuð, þarf minni varasjóð. Til 1. flokks lagði landssjóður fram 5000 kr. á ári, og vitanlegt er það, að þeim mun hærri sem þessi upphæð er, þeim mun fyr vex varasjóður.

Þriðja brtill. er að mestu leyti að eins orðabreyting, en jafnframt er lagt til, að flokka tryggingár öðruvísi niður, svo að það eigi fyrst að taka til varasjóðsins áður en tekið er til sameiginlegu ábyrgðarinnar.

Fjórða brtill. er mestmegnis aðeins orðabreyting og hið sama má segja um fimtu brtill., því vitanlega er það tilgangurinn, að veðdeildin geti aðeins fengið ókeypis veðbókarvottorð handa sjálfri sjer, en nefndinni þótti rjettara, að taka þetta fram.

Á sjöttu brtill. hef jeg minst áður, og þarf ekki að bæta neinu við það, og sömuleiðis á sjöundu brtill.

8. brtill. er aftur veruleg. Eins og bent er á í nefndarálitinu, þá liggur beinast við að deildin veiti lánin í bankavaxtabrjefum, og svo hefur það verið, en jafnframt hefur það verið svo, og er eins hjer í frv., að bankastjórnin eigi að koma bankavaxtabrjefunum í peninga fyrir lánþega, ef hann óskar þess. En í frv. er gengið lengra. Samkvæmt því hefur bankastjórnin rjett á því, hvort hún vill heldur greiða lánin í bankavaxtabrjefum eða í peningum. Það er víst meiningin með þessu ákvæði, að bankastjórnin semji um sölu fyrir allan flokkinn fyrirfram, og getur verið, að auðið sje að fá hærra verð fyrir brjefin, ef þau eru seld í einu lagi fyrir fram. Það hagar svo til, að til þess að selja þau, þarf millimenn, og til þess að þeir leggi sig fram um söluna, þarf hún að nema svo miklu, að um töluvert sje að ræða. Ella finst þeim hún ekki taka því, að gera mikið fyrir söluna, því þessir millimenn hafa allir mikið að gera, og vilja ekki starfa fyrir smáupphæðir. Þetta er nú það, er mælir með ákvæðinu.

En þá er það, er mælir á móti því, að fá lánin ekki útborguð í bankavaxtabrjefum. Og það gæti oft komið sjer miður fyrir lánþega, að fá ekki brjefin sjálf. Jeg veit dæmi þess, að menn hafa gert fasteignakaup þannig, að seljandinn hefur samþykt að taka til greiðslu á fasteigninni bankavaxtabrjef fullu verði. Þegar verið er að selja jörð, þá má líta á það, hvað hún gefi af sjer árlega í eftirgjald, og ef að bankavaxtabrjefin gefa meira af sjer sem oft er, þá getur seljandinn tekið þau til greiðslu með fullu verði. Það getur því verið til óþæginda fyrir lánþega að fá ekki bankavaxtabrjefin.

En sje allur fl. seldur í einu fyrirfram, þá verður við söluna að miða við það verð, sem þá er, og það getur verið ábati ef þau síðar lækka í verði, og eins skaði, ef þau síðar hækka í verði. Þeim mun lægri er vextir eru á heimamarkaðinum, þeim mun hærra standa vaxtabrjefin.

Fyrir 20 árum siðan voru mjög lágir vextir á heimsmarkaðinum. Þá stóðu 31/2% dönsk ríkisskuldabrjef í fullu verði, og ensku verðbrjefin, er gefa 21/2%, voru þá nálægt fullu verði, en eru nú langt niðri.

Það getur enginn sagt, hvort vextir muni hækka eða lækka á heimsmarkaðinum, það fer eftir atvikum sem enginn getur gert sjer ljóst fyrirfram. Nefndinni þótti því ofmikið ráðist í, að leggja út á þá braut, sem er í frumvarpinu.

Í 11. gr. er mælt svo fyrir, að lántakandi greiði 1% af lánsupphæðinni í varasjóð, og aðhyllist nefndin þá tillögu, því þá eflist meir varasjóðurinn, en þar sem aftur siðar í sömu grein er svo mælt fyrir, að greiða skuli 2% í varasjóð við eignaskifti veðsettrarfasteignar, þá sýnist nefndinni að þar sje oflangt farið, og leggur því til, að það ákvæði sje felt í burt, og í sambandi við það er 10. brtill. nefndarinnar.

11. breytingartillagan er aðeins orðabreyting.

Þá leggur nefndin til, að á eftir 17. gr. komi ný gr., er nefndinni þótti vanta í frv. Þessi grein er um það, hvernig fara eigi, þegar bankavaxtabrjef glatast, og er hún tekin orðrjett og stafrjett eftir lögunum um 3. fl. bankavaxtabrjefa. Um þetta eru 12. og 13. brtill. nefndarinnar. Mjer hefur verið sagt, að það hafi orðið í gáleysi í hv. Nd., að grein þessa vantaði, og nefndin bætir því úr því.

14. og 15. brtill. er aðeins til þess að leiðrjetta auðsýnilega misskrift, er komizt hefur inn í frv.

16. brtill. er að lækka úr 6000 kr. niður í 4000 kr. það, sem greiða má fyrir bókfærslu, reikningshald o. fl. Það er auðvitað, að þegar upphæð flokksins minkar, að þá minkar líka árskostnaður við rekstur flokksins. Og þess ber líka að gæta, að kostnaður þessi verður minni á meðan lítið er lánað út, eins og hann minkar aftur, þegar mikið er búið að greiða af lánunum, svo lítið er orðið eftir af flokkunum.

Seinast kemur brtill. við 22. gr. Þar hefur nefndin sett, að greiða megi til endurskoðanda 250 kr. í stað alt að 300 kr., eins og í frv. var ákveðið. Þetta munar að vísu litlu, en þó þótti nefndinni fara betur á að breyta þessari upphæð, jafnframt því, sem hinum upphæðunum er breytt, með því að þá stendur borgunin til endurskoðandanna á rjettum 1000 krónum.

Að svo stöddu hef jeg ekki tilefni til .að minnast á fleira, svo jeg minnist.