06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Ráðherra:

Það er ekki eingöngu stjórn Frakka, sem hefur beðið um undanþágu frá bannlögunum fyrir ræðismann sinn; norski ræðismaðurinn hefur einnig margsinnis farið hins sama á leit. Að vísu er svo álitið, að konsúlar framandi ríkja hafi ekki exterritorialitetsrjett á sama hátt og sendiherrar, en alstaðar eru þeir þó látnir njóta meiri eða minni undanþágu í þá átt. Hjer er nú spurningin: á að láta aðflutningsbannið ná til útlendra ræðismanna? Fyrv. ráðh. Kristján Jónsson áleit, að ekki væri unt fyrir stjórnina að ákveða, að þeir skyldu undanþegnir banninu, en hvort sú skoðun er óyggjandi, skal jeg ekkert fullyrða um. En eftir að hann hafði svarað málaleitun konsúlanna í þessa átt, var þess fyrst farið á leit, í gegnum utanríkisstjórnina, að veitt væri undanþága frá lögunum í þessu efni. 1912 var gerð tilraun til þess að fá alþingi til þess að leyfa, að flutt væri vín inn í landið til þess að fagna tignum gestum, sem menn þá bjuggust við að von væri á hingað, og var jafnframt leitað fyrir um horfurnar viðvíkjandi undanþágu fyrir konsúlana. En alþingi fjekst ekki til að veita einu sinni hið fyrnefnda leyfi, og með þá synjun fyrir augum svaraði jeg utanríkisráðherranum í fyrra haust, að lítil líkindi væru til, að unt væri að svo stöddu að fá samþykt á þinginu, til að veita hinum útlendu ræðismönnum undanþágu frá lögunum. En eftir að stjórn Frakka enn á ný hefur farið þess kurteislega á leit, gegnum sendiherra sinn í Danmörk, að undanþágan væri veitt „fyrir sakir alþjóðlegrar kurteisi“, hafa augu háttv. Nd. opnazt, og hún hefur samþykt þetta frv. Nefndin, sem háttv. Ed. hefur skipað í málið, hefur nú að vísu ekki synjað um undanþágu, en hún hefur gjörbreytt frv. Hún hefur fyrir það fyrsta fært út kvíarnar, þar sem hún vill heimila „ræðismönnum framandi ríkja, sem þar hafa fæðingarrjett, að flytja inn áfengi“. (Björn Þorláksson: ræðismenskan er prentvilla fyrir sendiræðismenskan). Samkvæmt frv. átti þessi heimild aðeins að veitast sendiræðismönnum. Ef þessi brtill. nefndarinnar verður samþykt, þá gæti norskur eða franskur eða enskur maður, sem lengi hefði átt hjer heima, en haldið fæðingarrjetti sínum erlendis, alt í einu fengið rjett til þess að flytja inn áfengi, með því að taka við útnefningu sem vicekonsúll. En nefndin hefur gert fleiri breytingar á frv. Hún hefur farið að hugsa um, hvað ræðismönnunum mundi vera holt að drekka og hvað ekki og hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að þeir mundu ekki hafa ilt af rauðvíni og öðrum viðlíka sterkum drykkjum. Það getur verið, að þetta sje fulllnægjandi og holt fyrir sendiræðismann Frakka, en það geta komið sendiræðismenn frá öðrum ríkjum, sem eru öðrum drykkjum vanari, og telji sjer þá hollari, sumir kynnu að vilja öl og „snaps“, aðrir whisky, o. s. frv. Líka gæti komið til mála, að franskur ræðismaður vildi hafa leyfi til þess, að fá sjer glas af koníaki, og ef spanskur ræðismaður yrði sendur hingað, mundi hann tæpast láta sjer nægja að mega ekki fá glas af sherry eða portvini. Nei, jeg held, að það sje tæpur grundvöllur, að byggja þessa lagasetning á, hvað holt muni vera fyrir maga einstakra manna, og gæti það leitt út á þá braut, að einnig yrði að taka tillit til magaheilsu innlendra manna. Jeg hef t. d. orðið var við það í sumar, að hjeraðslæknir utan af landi hefur kvartað undan því við stjórnarráðið, að það sje bannað að láta lyfjabúðir flytja ávalt nýtt bajerskt öl, sem hann telji alveg nauðsynlegt að geta ráðlagt sjúklingum sínum. Ef Iöggjöfin á að byggjast á því, hvað holt sje fyrir heilsuna, þá er engin ástæða til að binda undanþágu frá aðflutningsbanni við útlenda ræðismenn. — Ef hin háttv. deild vill sýna frönsku stjórninni og öðrum útlendum ríkjum kurteisi í þessu efni, álít jeg rjettast að halda því stryki, sem Nd. tók, að leyfa undanþáguna án tillits til smekks og venju einstakra manna, og samþykkja frv., eins og það kom frá Neðri deild.

Háttv. frms. fór dálítinn útúrdúr í ræðu sinni til þess að vita stjórnina fyrir það, hvernig hún framfylgdi bannlögunum, og nefndi hann tvö dæmi, sem áttu að sýna, að stjórnin hefði ekki gætt skyldu sinnar í því efni. Jeg verð að játa, að jeg hef ekki fyr en í morgun heyrt ávæning af því, að dönsku mælingadeildinni hafi verið leyft að flytja áfengi á land. Jeg hef nú fengið að vita, að á meðan jeg og landritari vorum utanlands í vor, hefur hinn setti landritari úrskurðað, að landmælingarmennirnir dönsku mættu flytja nokkrar flöskur í land, og gerði hann það eftir þeim skilningi á alþjóðareglum, að útlendar hersveitir undir kommandó, sem eru sínum sjerstöku lögum háðar, hefðu að sjálfsögðu undanþágurjett í þessu efni. Jeg hygg, að stjórnarráðið hafi haft rjett fyrir sjer, þó að jeg vilji ekki fullyrða það. Það er dómstólanna ef til kemur. Um hitt tilfellið, sem hann minntist á, að áfengt öl hafi verið flutt í land á Akureyri og þaðan út á varðskipið danska, er mjer allsendis ókunnugt, en jeg skal láta athuga, hvort nokkuð þar að lútandi hefur komið til stjórnarráðsins. En það er víst, að útlend herskip hafa allstaðar exterritorialitetsrjett ekki síður en útlendir sendiherrar. Mjer finst það vera h. frms. fullkominn óþarfi að liggja mjer á hálsi fyrir þetta.

H. frsm. var það mjög hugleikið, að frv. þetta yrði felt inn í texta bannlaganna frá 1909, ef það yrði að lögum, og taldi mikla nauðsyn á, að síðan væri gerð sjerstök útgáfa af öllum lögunum í heild sinni. En væri ekki hægt að prenta upp lögin frá 1909 í sjerstakri útgáfu, þó að þetta væri sem viðbót aftan við ? Jeg skil ekki, að það geti verið of flókið fyrir menn. Aðalástæða hins h. frsm. er víst sú, að hann heldur, að mjer sje stríð í því, að bera bannlögin upp til staðfestingar fyrir konunginn. Mjer finst sú ástæða fremur ljettvæg, enda getur vel verið, að það falli ekki mjer í skaut að bera lögin upp, heldur einhverjum öðrum, sem hann ef til vill ekki þykist hafa neina ástæðu til að stríða á þennan hátt. Þegar ekki er um stærri breytingu eða umfangsmeiri að ræða, álit jeg innfærrlu í tekstann og endurstaðfesting hálfgert hjegómamál.

Hann furðaði sig ennfremur á því, að jeg hefði látið í ljós, að afnám bannlaganna mundi bæta fjárhag landssjóðs. Skyldi þá nokkur geta efast um, að landssjóð muni um ca. 750,000 kr. á ári, sem áfengistollurinn mundi gefa af sjer með núverandi tollgjaldaupphæð? H. þm. veit það vel, að jeg hef ávalt verið lögunum andstæður, ekki af því, að jeg vildi ekki styðja að því, að misbrúkun víns í landinu minkaði, heldur af því, að jeg er fullkomlega sann færður um, að bannlögin ná ekki tilgangi sínum, heldur er miklu fremur hætta á, að þau verði til skaða einnig í því tilliti, og á þeirri sannfæringu minni er kærleiksleysi mitt á lögunum bygt. Menn munu halda áfram að drekka eftir sem áður, en menn munu gera það í lagaleysi, og landssjóður fer á mis við þær tekjur, sem hann hefði af tollinum. Jeg vil sannarlega ekki veita nýjum brennivínsstraum inn í landið, en jeg er hræddur um, að þessi lög verði til þess, því þegar þau verða upphafin, er jeg hræddur um, að drukkið verði miklu meira en nokkru sinni áður.