06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Eiríkur Briem framsögumaður:

Á þingi 1907 voru samþ. lög um það, að Landsbankinn mætti taka 2. milj. kr. lán á ábyrgð landssjóðs, Fyrst þegar bankinn var stofnaður, voru honum lagðar til 500000 kr. í rekstursfje í seðlum. Þetta var þá talsvert mikil upphæð, en reyndist brátt ónóg, og rjett fyrir aldamótin var þetta tillag hækkað upp í 750000 kr. Atvinnuvegirnir tóku þá ýmsum breytingum og þarfir á lánum jukust mjög. Þetta sjest á ýmsu. t. d. verzlunarskýrslunum, hve mjög vörumagnið jókst og þá eðlilega lánsþörfin að sama skapi. Þá kom fram hugmyndin um að stofna Íslandsbanka og var hann stofnaður 1904, og sýnir það ljóslega, hver þörf var á meiri peningum þá inn í landið, hve stutt var, áður allur hans höfuðstóll var kominn í lán. En þörfin fór sívaxandi, og þá var það, að þessi lög voru gefin út 1907 um aukningu Landsbankans um þessar 2 milj. kr., með ábyrgð landssjóðs fyrir láninu. Nú vildi svo til, að þegar lögin komu út, var peningaekla mikil í heiminum, og nú leið og beið til vors 1909, að bankinn loks gat fengið lánið. Kjörin voru þau, að það skyldi afborgunarlaust í 5 ár, en síðan endurgreiðast á 20 árum með 100000 kr. ári. Nú eru á næsta ári liðin þessi 5 ár og á þá að greiða fyrstu afborgunina. Þetta getur bankinn ekki nema með því að minka rekstursfje sitt að sama skapi. Og er þetta þá gjört til að ráða bót á þessu og koma í veg fyrir, að bankinn þurfi að færa saman kvíarnar. Landsbankinn kemur því til, ef þetta frv. fær framgang, að skulda landssjóði þetta, en borga ekki ákveðna vexti, heldur hlut. deild í arðinum, í stað vaxtanna til hins útlenda lánardrottins. Nefndin var á einu máli um, að eitthvað þyrfti að gjöra til þess, að bankinn þyrfti ekki að draga inn rekstursfje sitt, til að greiða þetta fje, en dálítill meiningarmunur um, hvað gjöra skyldi. Háttvirtur 3. konungkj. vildi aðeins láta ákveða fyrir næsta fjárhagstímabil, en meiri hl. nefndarinnar vildi láta samþ. frv. eins og það er, og sá ekki neitt því til fyrirstöðu, enda áleit óumflýjanlegt, að koma þyrfti í veg fyrir, að bankinn neyddist til að minka rekstursfje sitt. — Mjer virðist ekki þurfa að tala meira um þetta mál að svo stöddu, því jeg held, að það liggi nú nægilega ljóst fyrir háttv. deild.