08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Sigurður Stefánsson:

Jeg skal ekki lengja umræðurnar mikið. Jeg vildi aðeins minnast á brtill. hv. 1. kgk. þm. (J. H.) Nefndin hefur eigi orðið á eitt sátt um þetta atriði. Jeg fyrir mitt leyti styð 1. og 3. till. um Guðm. Magnússon og Einar Hjörleifsson, úr því að þingið; er komið inn á þá braut með þessi skáldlaun, sem það er komið. Þeir hafa að engu leyti unnið til þess, að farið sje að lækka við þá. Það væri fremur ástæða til að hækka þá en lækka. Þeir eru sívinnandi að list sinni. Þeir senda árlega frá sjer bæði mikil og að flestra dómi góð skáldverk.

En jeg verð að segja, að þetta horfir nokkuð öðruvísi við með 2, brtill. Að vísu hefur Þ. E. eitt sinn ort allmörg falleg lýrisk kvæði. En það virðist svo, sem hann hafi mist málið við að komast á landssjóðinn; hann hefur að minsta kosti að mestu þagað síðan. Hann hefur að vísu nú gefið út dálítinn ljóðabálk, sem hann hefur mjög lengi haft í smíðum, og mörg kvæðin þar eru löngu ort. Auk þess verð jeg að segja það, þó að mjer þyki það leiðinlegt, að ef jeg ætti nú börn á þeim aldri, að forða ætti þeim frá áhrifum, er hnekt gæti siðferðistilfinningum þeirra, þá mundi jeg fela sum þessi Ijóð fyrir þeim.

H. 1. kgk. þm, kvaðst kunna illa við, að taka styrk af þeim, er ekki hefðu unnið til þess. Jeg er honum hjer samdóma. En hann getur ekki heimfært þetta nema til Einars Hjörleifssonar og Guðm. Magnússonar. Jeg vil láta Þorstein Erlingsson halda þessum 1000 kr., þótt jeg teldi rjettara og væri fúsari á að hjálpa til að koma þessari upphæð á 18. gr. fjárlaganna, eftirlauna- og styrktarfjárgreinina. Jeg hef lesið síðasta kvæði Þorsteins, eftirmælin eftir skáldið okkar nýlátna, og það verð jeg að segja, að ef það kvæði væri ekki ort af Þorsteini Erlingssyni, þá væri það talinn leir. (S. E.: þessu verður svarað). Það varðar mig ekkert um. Það er og verður leir í mínum augum. Jeg kýs því, að tillaga fjármálanefndarinnar um þetta fái að halda sjer. En jeg verð að játa, að það er vel farið með Þorstein hjá því, sem farið er með þá Einar og Guðmund.

Svo hugðnæm og kær, sem þjóðinni voru kvæði Þorsteins um skeið, þá veit jeg með vissu, að almenningur telur nú styrkinn til hans fremur eftirlaun en laun fyrir unnið verk. Og þó að jeg sje með eftirlaunum, mundi jeg þó skoða huga minn, áður en jeg greiddi atkvæði með eftirlaunum til hans.

Aðeins örfá orð um 17. brtill. til Þórarins Guðmundssonar. Styrkur til þeirra bræðra var feldur við 2. umr. Jeg er á máli þeirra manna, er telja óheppilegt að verja miklu fje til sönglistanáms úr þessu erlendis. Það eru engin líkindi til, að þeir menn starfi mikið hjer á landi. Þar á jeg einkum við píanóleikara. Um fiðluspil er öðru máli að gegna. Og Þórarinn Guðmundsson hefur sýnt, að hann er gæddur frábærum hæfileikum til þeirrar listar. Jeg vil þá veita þennan litla styrk í þeirri von, að hann geti útbreytt þessa list hjer á landi.

Þá er brtill. h. þm. Strand. (G. G.) um sjálfrenninginn, að færa styrkinn niður. Jeg gæti að vísu fallizt á þessa niðurfærslu, eftir þeirri reynslu, sem nú er fengin á þessum flutningstækjum í sumar. En auðvitað má segja, að þessi reynsla sje svo stutt og ófullkomin, að ekki sje mikið á, henni byggjandi.

Það er alkunnugt, að þessi eina bifreið hefur dögum saman verið í lamasessi og auk þess verð jeg að segja, að mjer finst það ekki áriðandi, að veita þennan styrk endilega nú. Því að, eins og menn vita, er nú járnbraut austur um sveitir komim á dagskrá, og ef hún verður lögð, þá verður verkahringur bifreiðanna lítill eða sama sem enginn. Flutningsgjaldið á líka að verða mjög hátt — eitthvað 30 kr. fyrir 1000 pd., og meira telur umsækjandinn sig ekki geta flutt í einu austur yfir fjall — svo að jeg efast næstum því um, að hjer sje um nokkra samgöngubót að ræða. — Hversu feginn sem jeg vildi, get jeg ekki greitt atkvæði með 5000 kr. styrk til þessa fyrirtækis.

Jeg get ekki sjeð, að Breiðafjarðarbáturinn eigi að hafa hærri styrk en bátur sá, sem á að ganga á Ísafirði og Húnaflóa, enda álít jeg, að 9000 kr. styrkur geti kom ið að miklu gagni.