19.07.1913
Neðri deild: 14. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (229)

59. mál, prentsmiðjur

Bjarni Jónsson:

Eg hefi í rauninni litlu við að bæta, það sem þegar hefir verið tekið fram, en vil þó leyfa mér, eina og góðum ræðumönnum er títt, að endurtaka nokkuð af því, sem sagt hefir verið.

Sumir þeirra manna, sem fengist hafa við útgáfu bóka, mættu þakka þinginu fyrir, ef það samþykti þetta frumvarp, því að þeir myndu þá ekki fást við slíkt framar. Eg hugsa að menn hafi í sambandi við þetta frumvarp tekið eftir því, að vörutollurinn hefir þegar lagst nógu þungt á móti bókaútgefendum, þar sem við verðum að borga skatt af pappír í okkar eigin bækur, svo að það er vafasamt, hvort þeim væri ekki ódýrara að láta prenta erlendir, t.d. í Noregi, heldur en hér heima. En ef þessi kvöð væri þar að auki lögð á bókaútgefendur, þá yrði þeim áreiðanlega miklu hagkvæmara að láta prenta erlendis, eins og þegar hefir verið sýnt fram á. Það er langt frá að þetta frv. komi við prentsmiðjurnar, það eru ekki þær, sem gefa út bækur, heldur eru það bóksalarnir, eða þegar öllu er á botninn hvolft, eru það eiginlega höfundarnir, sem Verða fyrir skaðanum. Þetta er því ágætt ráð til að ná aftur skáldastyrknum, sem sumir sjá svo blóðugt eftir. En það er nokkuð harðneskjulegt við þá, sem engan styrk hafa, en eru þó að fást við bókagerð. Ef háttv. flutningsmaður þessa frumvarps telur það svo áriðandi að sýslubókasöfnin fái ókeypis bækur, því kemur hann þá ekki beint með frumvarp um að landssjóður skuli leggja sýslufélögum til ókeypis bækur, eða jafnvel hreppafélögum og einstökum mönnum. Ef annars hver maður á landinu fengi bækur ókeypis, þá mætti kannske búast við, að menn færu að lesa.

Ef svo færi, að innlend prentun legðist niður, mætti þó segja, að síður væri hætt við, að menn gintust til að leggja út í fyrirtæki, sem yrðu þeim að handbendi á eftir.

Mér virðist þessi gripur vera vel fallinn til slátrunar og vel Við eigandi að hann verði sá fyrsti, sem slátrað verður hér í deildinni.