10.09.1913
Efri deild: 51. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Sig. Eggerz, frsm.:

Stutt athugasemd við 4. gr.

Háttv. þm. Ísf. (S. St.) verður að gæta þess, að nú stendur öðruvísi á, en þegar stjórnarskráin var samþykt. Þá var það venja að skipa embættin aldönskum mönnum. Nú er þessu breytt svo mjög; menningin hefur vaxið svo mikið, að það liggur við, að það væri móðgun við þjóðina að setja þetta ákvæði í stjórnarskrána nú.

Um flutning embættismanna vísa jeg til þess, sem jeg sagði í gær, en jeg get bætt því við, að þetta ákvæði getur verið hættulegt. Stjórnin gæti misbrúkað það á pólitískum æsingatímum. Það er ekki nein móðgun við Hans Hátign konunginn, þótt ákvæðið sje numið úr henni, því að það er ekki konunglegt „prærogativ“.

Loks hefur háttv þingm. gleymt, að minnast á eitt ákvæði, sem felt er úr 4. gr. Það snerti eftirlaunin. Verði þetta frumvarp samþykt, er ekkert því til fyrirstöðu, að þau verði numin burt, en það er eitt af áhugamálum þjóðarinnar.

Jeg fjölyrði svo ekki meira um málið nú. Það gleður mig, hvað nú blæs byrlega fyrir málinu hjer í háttv. deild og hve góðar horfur eru á framgangi þess. Ef frv, verður samþykt nú, tel jeg daginn í dag mikinn heilladag í sögu hinnar íslenzku þjóðar.