12.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Guðm. Björnsson, framsm.:

Það er rjett sem háttv. þm. N.-Múl. (E. J.) sagði, að frv. eins og það liggur nú fyrir er reglulegur vanskapnaður, og hörmulegt að vita, að háttv. neðri deild skuli láta málið frá sjer fara nú undir þinglok jafn afskræmilegt og það er, — jeg get ekki; þagað yfir þessu.

Jeg veit, að það má segja, að engum öðrum verði hjer eftir heimilt að flytja inn áfengi en þeim, sem er það leyft með þessum lögum. En auðvitað hefur það ekki verið tilgangur háttv. Nd.

Jeg hef átt tal við löglærða menn um þetta, og hafa þeir látið sömu skoðun uppi sem hæstv. ráðherra lýsti nú yfir, að ekki þurfi að skilja lögin á þennan veg. Nefni jeg þar til bæjarfógetann hjer í Reykjavík. Þótt lögin sjeu aflægisleg, þá er óþarfi að leggja þann aflægislega skilning í þau, sem hjer hefur verið talað um. Þegar þetta þarf ekki að óttast, þá vil jeg, að frv. sje samþykt, þótt jeg geti ekki neitað, að það sje þinginu til skammar, að afgreiða svona óvandvirknis lög.

Mjer hafði komið til hugar, að koma með samskonar breytingartill., sem háttv. þm. N: Múl. (E. J.) gat um, en jeg hætti við það, er jeg heyrði álit lagamanna um, að þetta mundi ekki verða bannmálinu að tjóni. Jeg vil ekki á neinn veg hefta framgang frv., en það er jeg hræddur um, að brtill, kynni að gera. Jeg. þóttist gera glögga grein fyrir því, við fyrri umræðu málsins hjer í deild, að það gæti komið oss illa í koll, ef við vildum ekki verða við kurteislegum tilmælum frönsku stjórnarinnar, um að veita sendiræðismanni hennar hjer undanþágu þá, sem hún fór fram á fyrir hans hönd. Af því einu get jeg greitt atkvæði með frv., nauðugur þó, vegna þess hvernig það kemur úr garði gert frá háttv. neðri deild. Því að þessi deild verður þó að gæta sóma síns, og vanda verk sín. En hjer má segja, að nauðsyn brýtur lög.