12.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (2434)

97. mál, fátækralög

Einar Jónsson, framsm.:

Ákvæði það í fátækralögunum, sem hjer er farið fram á að breyta, eða skýra, er um endurgjald á sveitarstyrk, veittum þurfamönnum annarar sveitar af hálfu dvalarsveitar. Þegar svo er ástatt, sem segir í 69. gr. fátækralaganna, að þurfamann má flytja á framfærslusveit sína, þ. e. þegar styrkurinn er kominn upp í 100 kr., er vafi um það, hvort dvalarsveitin á ekki að greiða 1/3 af kostnaði við hann eftir það eins og áður, meðan hann verður ekki fluttur. Þetta frumv. á að greiða úr þessum vafa. Hjer er því farið fram á, að bæta inn í lögin því ákvæði, að ef þurfamaðurinn er þá svo veikur, að hann verði ekki fluttur, þá skuli dvalarsveitin fá endurgoldinn allan kostnað sinn upp frá því. Úr þessu munu orð þau, er standa í miðri greininni, eiga að bæta, og hljóða þau á þessa leið: „Þó á dvalarsveitin aldrei heimtingu á endurgjaldi af hálfu framfærslusveitarinnar á meira en 2/3 hlutum af styrk þeim, sem hin fyrnefnda hefur veitt þurfalingnum, nema svo standi á, sem segir í 68. gr., eða þurfalingur eftir úrskurði læknis verður ekki fluttur á framfærslusveit sína sakir sjúkleika“.

Nefndinni þykir þetta ákvæði ekki nógu skýrt og vill gera það skýrara með breytingu þeirri á þgskj. 852, sem hún hefur lagt til að gerð sje á frumv. Þau orð taka skýrt fram, að þegar búið er að leggja fram 100 kr. og þurfalingurinn verður þá ekki fluttur á framfærslusveit sína sakir sjúkleika, skal framfærslusveitin greiða allan kostnaðinn. Þetta snertir þó eigi það, þegar sjúklingurinn er á sjúkrahúsi, því um það eru skýr ákvæði í 79. gr. Nefndin vonar því, að þessi breyting verði samþ. Jeg skal samt vekja máls á því, að verði þetta samþ., þarf málið að fara aftur til neðri deildar, og verður það þá að líkindum ekki útrætt á þessu þingi, en þar sem þing verður haldið næsta sumar, þá gerir þetta ekki mikið til. Jeg skal geta þess, að eins og orðin liggja í frumvarpinu, eins og það hljóðar nú, getur verið, að lögfræðingarnir muni skilja það á þann hátt, sem hjer er ætlazt til, svo að ef mönnum er áhugamál að koma frumv. fram á þessu þingi, og ef lögfræðingar hjer í deildinni álíta, að þessi skilningur verði lagður í frumv., þá geta menn samþ. það óbreytt. Nefndinni er ekkert kappsmál um þessa brtill., en vill aðeins gera frumv. skýrara með henni.