09.09.1913
Neðri deild: 55. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2336 í C-deild Alþingistíðinda. (2578)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Flutningsm. (Guðm. Eggerz):

Það eru að eins örfá orð. Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) byrjaði á því að segja, að eg væri með eftirskot. Jæja, en skot er það, og hann skildi það réttilega, að það er skot á bannlögin. Það gekk eins og rauður þráður gegn um ræðu hans, að svo framarlega sem þessi þingál.till. yrði samþykt, þá mundi það verða til þess, að bannlögin yrðu afnumin. Þessa hefi eg orðið var hjá mörgum öðrum. Í sjálfu sér þyrfti þó ekki sú að verða afleiðingin. En eftir því sem eg þekki bezt til, þá er það alveg víst, að ef bannlögin yrðu borin undir atkvæðagreiðslu þjóðarinnar, mundu þau ekki fá mikið fylgi. Þetta er hann og aðrir bannvinir hræddir við.

Eg held að það sé ekki neitt aðfinningarvert eða óttalegt, þótt kjósendur fái að láta í ljós vilja sinn um það, hvort þeir vilji afnema ein tiltekin lög eða ekki.

Mér þótti háttv. háttv. Rvk. á óviðurkvæmilegan hátt kasta hnútum í garð embættismanna fyrir drykkjuskap. Yfirleitt er drykkjuskapur hér miklu minni en annarstaðar, og fór síminkandi alt að því að bannlögin komu.

Síðan hefi eg bæði heyrt og orðið var við það, að menn drekka miklu meira en áður, og er það eðlilegt, því að síðan bannlögin komust á hefir starfsemi Goodtemplarafélagsins lagst að mestu niður.