21.07.1913
Neðri deild: 15. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (265)

58. mál, hvalveiðamenn

Flutn.m. (Guðmundur Eggerz):

Eg fullyrði, að ekkert mál er Suður- Múlasýslu snertir, sé svo hjartfólgið sjómönnum sem þetta: algerð friðun hvalanna. Og eg get bætt því við, að bændur upp í Héraði hafa falið mér — eins og þingmálafundir þar bera með sér — að hreyfa þessu máli á Alþingi og óskað þess í einu hljóði að málið næði fram að ganga.

Á fundi, sem haldinn var í vor á Eskifirði var samþykt í einu hljóði að fá hvalinn friðaðan. Voru þar mættir liðugt 200 manns og þar á meðal sýslunefndarmenn úr flestum hreppum sýslunnar.

Eg veit vel, að landbændurnir hafa engan beinan hagnað af frumvarpi þessu, en þeim. er kunnugt um, hve mikið áhugamál þetta er sjómönnunum, þeim er kunnugt um við hve mikla örðugleika fátækir sjómenn eiga að stríða, og þeir vilja styðja að því að bæta úr kjörum þeirra.

Vel má nú segja: engin ástæða til þess að samþykkja frumv. þetta, þótt allir kjósendur í Suður-Múlasýslu hafi fylkt sér á bak við það — þótt sjómannastéttin þar eystra telji það velferðarmál stéttarinnar — ef samþykt þess hefir í raun og veru enga þýðingu.

En eg þykist geta sýnt fram á, að hér sé um afar-þýðingarmikið mál að ræða, og það af fleiri en einni ástæðu.

Eg hefi raunar veitt því eftirtekt, að bæði þingmenn og aðrir hafa á seinni árum lagt litla rækt við þetta mál, hvalveiðamálið — og er það því einkennilegra, sem hér er um feikna-mikinn höfuðstól að ræða.

Skal eg leyfa mér að drepa í stuttum dráttum á helztu atriðin að því, er hvalaveiðar snertir hér á Íslandi.

Tilskipun 13. Júní 1787 leyfir hvalveiðamönnum að hafa hér vetrarlægi. Með konungsúrskurði 29. Marz 1823 var kaupmönnum veittur 1000 ríkisdala styrkur til þess að kaupa hvalaveiðarfæri fyrir, og með konungsúrskurði 28. Marz 1829 var enn veittur 1600 ríxdala styrkur. Árið 1883 er lagt frumvarp fyrir þingið um friðun hvala frá 1. Marz til 1. Nóvember. Frumvarpið varð að lögum, en þeim var synjað konungsstaðfestingar.

Árið 1885 lá aftur frumvarp fyrir þinginu, sem leiddi til laganna 19. Febr. 1886,

Í nefndaráliti Neðri deildar — Tr. G., Ben. Sveinsson og Þ. Magnússon, 2. þm. Ísfirðinga — er staðhæft, að inni á fjörðum reki hvalirnir síldina í hnappa og komi yfirleitt hreyfingu á hana, og sama skoðun kemur fram í nefndaráliti Efri deildar. Enn er athugað í báðum deildum, að ágóðinn af hvalveiðunum muni renna í vasa útlendinga, þar eð Íslendingar séu of fátækir til að reka veiðina.

Með áminstum lögum 19. Febr. 1886 eru allir hvalir, að undanskildum tannhvölum og smáhvelum, friðhelgir fyrir skotum í landhelgi frá 1. Maí til 31. Okt., en með lögum 1. Janúar 1892 er friðunartíminn fluttur og settur frá 1. Apríl til 1. Okt.

Með frumvarpi, því er hér liggur fyrir, er í raun og veru farið fram á algerða friðun hvalanna. Augljóst, að enda þótt öllum sé heimilt að skjóta hval fyrir utan landhelgislínuna, svarar slíkt eigi kostnaði.

Það sem vakir fyrir mér með flutningi frumvarpsins, er meðal annars þetta:

1. Það er skoðun fiskifræðinga, að hvalirnir geti haft áhrif á fiski- og síldargöngu.

2. Örugg reynsla er fengin fyrir því, að á fjörðum inni stekkur síldin frá djúpinu inn að landi þegar hvalur gengur inn firðina.

3. Útlendingar hafa grætt svo hundrað þúsundum króna skiftir á hvaladrápinu — en Íslendingar fengið sára lítið í aðra hönd.

4. Ef við eigi friðum hvalinn, hlýtur hann að upprætast eða hverfa frá ströndum landsins.

Að öllum þessum atriðum mun eg reyna að færa rök.

Fyrst vil eg þó bendu á, að fyrir þinginu 1909 lá frumvarp í öllum aðalatriðum líkt þessu.

Eg hygg að tildrögin til þess, að það frumvarp var Skorið niður, hafi aðallega verið þessi:

að hvalveiðamenn stórgræddu þá, og þótti því viðsjárvert — þótt útlendingar ættu í hlut — að svifta þá atvinnurekstrinum, þar sem þeir höfðu bygt dýrar byggingar, og lagt mikið fé í fyrirtækin,

að landssjóður hafði þá í tekjur af útflutningsgjaldi á hvalafurðum 65.921 krónu.

Nú eru hvalveiðamennirnir fluttir héðan allir, nema þrír, og þeir segjast stórtapa. En tekjur landssjóðs af hvalveiðunum voru að eins 14.000 krónur árið 1909, og munu fara minkandi. Enda hefir sjómannastétt þessa lands hingað til ekki Verið gert svo hátt undir höfði, að telja þurfi eftir örfáar þúsundir kr.

Af þessum breyttu ástæðum þykir mér nú horfa miklu vænlegar fyrir frumvarpinu en árið 1909.

Skal eg svo aftur víkja að ástæðunum fyrir frumvarpi þessu, og þá að þeirri fyrstu.

Áhrif hvala á fiski- og sílda-göngur.

Ráðherra staðhæfði á þinginu 1909, að Dr. Hjort — aðal-umsjónarmaður fiskiveiða Norðmanna — segði, að ekki gæti verið neitt orsaka-samband milli hval og fiski-veiða. Það er langt frá því, að Dr. Hjort segi þetta. Hann ritaði 1912 bók um fiskiveiðar og hvalaveiðar og voru tildrögin þessi: Árið 1865 fann Norðmaðurinn Svend Foyn upp nýja veiðiaðferð. Byrjaði í Varanger-firðinum, sem var afar fiskisæll fjörður; og fullur af síld og loðnu. Fyrstu 3 árin veíddi Svend Foyn illa, en úr því og hvaladrápið óhemju-mikið; þannig voru þar árið 1886 34 hvalveiðabátar. Hvarf þá bæði síld og fiskur, og kendu Norðmenn hvaladrápinu. Var nefnd sett til þess að rannsaka, hvort sjómenn mundu hafa rétt að mæla, og Dr. Hjort skrifaði umrædda bók. Enda þótt auðsætt sé, að Dr. Hjort er talsmaður hvalveiðamanna, sem bezt sést þar á, að hann rökstyður ýmsar staðhæfingar sínar með skýrslum hvalveiðamanna, þá verður hann þó að viðurkenna, að hvalir geri gagn fiskiveiðum og geti rekið síld og flak að landi.

Enda virðist ekki ólíklegt, að hvalþvaga geti haft áhrif á fiski- og síldargöngur, þegar þess er gætt, að allir tannhvalir eru rándýr, sem éta fisk og síld, og síld éta einnig margar tegundir skíðishvala; étur geirhvalurinn (Finhvalen eða Sildehvalen) og Vaagehvalen, balaenoptera rostrata, þau feiknin af loðnu, að komið hefir fyrir, að loðna hefir oltið upp úr þessum hvalategundum þegar á land hefir verið dregið.

1901 veiddi Berg hvalveiðamaður 90 geirhvali, aðallega á tímabilinu frá Júní til September, og er það skoðun Dr. Hjort's, að hvalategund þessi sé mest við strendur Íslands í þessum mánuðum, Júní til Sept., fyrir þá sök, að um þetta leyti gangi síldin aðallega að ströndum landsins.

Yfirleitt kemst Dr. Hjort að þeirri niðurstöðu, að friða beri hvalinn, og að ekki beri að byggja nýjar hvalveiðastöðvar né taka upp gamlar, nema með leyfi stjórnarinnar.

En má geta þess, að fiskifræðingurinn norski, prófessor Sars, rannsakaði þetta atriði 1874 og 1879, og í bréfi, sem hann skrifaði norsku stjórninni 1879 um loðnuveiðina, kemst hann svo að orði, að varhugavert sé að eyðileggja hvalinn, og 1888 telur hana nauðsynlegt að friða hann. Loks hef eg séð, að þýzkur vísindamaður, að nafni Carl Vogt, staðhæfir, að hvalirnir reki á undan sér síldina.

Á þinginu 1909 var því slegið fram, að æsing Austfirðinga gegn hvalveiðum væri sýking frá Noregi. En er nú sjómönnum vorum ekki vorkunn, þar sem vísindamennirnir að nokkru leyti eru á þeirra bandi. Enn fremur er það athugavert, að síldin hverfur frá Austfjörðum um líkt leyti og hvaladrápið byrjar. Sama átti sér stað í Harðangerfirðinum.

Enn var því slegið fram á þinginu 1909, að ekki bæri að hrapa að algerðri friðun hvalanna fyr en reynsla væri fengin frá Noregi í þessu máli. En með lögum 7. Janúar 1904 eru hvalir friðaðir innan landhelgi í Norlands-, Tromsö- og Finnmarkens-ömtum.

Ræðismaður Norðmanna gerði mér þann greiða, að síma fyrir mig til Dr. Hjorte í Bergen, sem eins og áður er drepið á, er aðal-umsjónarmaður fiskiveiða Norðmanna, og leyfi eg mér með leyfi háttv. forseta að lesa upp á frummálinu bæði skeyti ræðismannsins og svar Dr. Hjorts.

Skeyti ræðismannsins hljóðar svo:

Har hvalfredningsloven fra 1904 influeret fiskeriet?

Svarið:

Efter min mening skyldes sidste gode fiskeri en særlig rik aarsklasse av sild, torsk, hyse og sei.

Fiskeridirektor Hjort.

Svarið minnir á köttinn og heita grautinn. Umajónarmaður viðurkennir, að fiskur og sild sé nú að nýju komin á ið friðaða svæði. En auðsjáanlega Vill hann ekki minnast á hvalina. Leiðir aðalspurninguna fram hjá sér.

Þá kem eg að því atriði, að örugg reynsla sé fengin fyrir því, að þegar síldin liggur inni í djúpum og þröngum fjörðum, hrekkur hún upp að landinu þegar hvalur syndir inn fjörðinn.

Eg veit dæmi þess, að á Reyðarfirði höfðu einu sinni 7 skipshafnir legið í viku með síldarveiðafæri sín, en fengu enga síld. Vissu þó að fjörðurinn djúpið — var fult af síld. En einn dag kom hvalur inn á fjörðinn og þá fyltist alt óðar af síld.

Þriðja atriðið var þetta, að útlendingar hafa grætt stórfé á okkur. Það kannast síst allir við. Enn fremur hygg eg að flestir muni játa, að hvalveiðamennirnir hafa goldið alt of lítið í landssjóð, t. d. greiddu þeir 1909 kr. 65.921, 1910 kr. 44.076, 1911 kr. 32.097 og 1912 kr. 14.000.40. Auk þess lítilfjörlegan tekjuakatt. Þetta er hlægilega lítið gjald borið saman við veiðina. T. d. drápu hvalveiðamennirnir árið 1912 1305 hvali; höfðu 30 skip og í Vinnu voru 864 manns.

Á þessu má sjá, hvílík feikna-gullnáma hvalirnir hafa verið útlendingum þau árin, sem vel fiskaðist, enda ekki furða það.

Dr. Hjort upplýsir, að árið 1897 hafi, eftir því verði, sem þá var á hvalafurðum, einn sléttbakur — Grænlandshvalur — lagt sig á 47.000 kr.

Fjórðu ástæðuna: að hvalirnir hverfi — þarf ekki að fjölyrða um.

Því var hreyft á þingi 1909, að hvalurinn þyti haf úr hafi og friðun því gagnslaus hér. Þetta er rangt. T. d. fara sléttbakurinn, náhvelið og hvítingurinn aldrei úr norðurhöfunum. Af hvölum, sem lifa í höfunum undir miðjarðarlínunni, slangrast að eins búrhvelið til norðurhafanna. Þannig var að eins einn skotinn hér við land 1895. Enn hefir verið tekið fram, að frumv. kæmi hart niður á Norðmönnum Þetta er einkennileg mótbára, þegar þess er gætt, að Norðmenn hafa sjálfir, eins og áður er drepið á, með öllu friðað hvali á vissu svæði. Enda má benda á, að Blehr ráðgjafi norskur í ræðu í Stórþinginu 1903 lét í ljósi undrun á, hve greiðan aðgang Norðmenn hafa hér að hvalveiðum. Hann tók fram, að friðun hvalains í Noregi væri ekkert rothögg á hvalveiðamennina þar, því þeir gætu farið til Íslands, þar þyrftu þeir bara að láta einhvern kaupa “borgerbrev„.

Eg skal engu um það spá, hvort síldin og fiskurinn mundi aftur fylla Austfirði, ef hvalurinn yrði friðaður.

En hitt hugsa eg að enginn geti láð sjómönnum þar eystra, þó þeir hafi þá trú, að hvalamissirinn hafi að nokkru leyti orðið þeim líka fiski- og síldarmissir.

En setjum nú svo, að reynslan leiddi í ljós, ef frumvarp þetta yrði samþykt, að fiski- og síldargöngurnar breyttust ekki að neinu leyti til 1. Jan. 1925 og að heimilað yrði því aftur að skjóta hvali.

Mundi þá algerð friðun hvala til 1. Jan. 1925 ekki hafa neina þýðingu fyrir þetta land ?

Jú — feykimikla, að minni ætlun. Hvalirnir mundu á þessu tímabili aftur leggjast að ströndum landsins. Og eg er í engum vafa um, að þetta land á svo mikla framtíð, að Íslendingar munu árið 1925 sjálfir taka í sínar hendur hvalaveiðarnar.

Friðunarlögin mundu þannig geyma fyrir okkur og auka þennan feiknamikla höfuðstól: hvalina.

Því skyldu hvalirnir ekki geta orðið þessari þjóð gullnáma sem útlendingum? Friðunarlögin stefna í þá áttina, er vér viljum allir halda:

Ísland fyrir Íslendinga !