11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2454 í C-deild Alþingistíðinda. (2650)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Þorleifur Jónsson:

Eg á hér 2 brtill., sem eg hefi neyðst til að koma fram með.

Eg vona, að háttv. þingmenn lái mér það ekki, þótt eg hafi reynt að lagfæra það sem hefir verið ólagað í háttv. Ed., að því er fjárveitingar til míns kjördæmis snertir. Það er harla einkennilegt, að in háttvirta deild hefir sett svart stryk yfir þær 2 lítilfjörlegu fjárveitingar til míns kjördæmis. sem samþyktar voru hér í deildinni með miklum atkvæðamun. Og það er því einennilegra, að taka þennan litla fjárstyrk burtu, þar sem öll héruð á landinu hafa borið eitthvert fé úr býtum til samgöngubóta. Það hefir fengið að standa, en þetta hefir verið felt burtu.

Brtill. á þgskj. 822 fer fram á það, að veittar verði til þjóðvegarins í Austur Skaftafellasýslu þær 5000 krónur, sem samþyktar voru hér í neðri deild við 2. umr. fjárlaganna.

Þetta fé er aðallega ætlað til vegabóta frá Almannaskarði Vestur á sýsluveginn frá Höfn upp að þjóðveginum. Það er mesta vegleysa — mýrarfláki, því nær ófær yfirferðar. Gamli þjóðvegurinn liggur uppi undir fjöllum og er þar grjótgata, sem alt af hrapar í úr fjöllunum og illfær yfirferðar ríðandi, hvað þá með vagna. Þetta er fjölfarinn þjóðvegur — bæði póstvegur og fjölfarinn kaupstaðarvegur og auk þess almannaleið um endilanga sýsluna. Það er ómögulegt annað en heimfæra hann til þjóðveganna, og þörfin til umbóta eins mikil — eða meiri — þar eins og annarstaðar.

Háttv. framsögumaður mintist á þennan veg og virtist mér hann tala af hálfgerðum þjósti, eins og það væri alveg fráleitt að voga sér að fara fram á vegabætur á þessum alóðum. Eg skil satt að segja ekki þetta kapp hans til þess að ríða þetta mál niður. Hann sagði, að enginn vissi, hvar þessi vegur ætti að liggja — ekki einu sinni verkfræðingurinn. Því miður eru háttv. þingmenn mjög ókunnugir flestir þarna eystra. Sama máli gegnir um verkfræðinginn. Hann hefir raunar ferðast þarna um, en það var á sumardegi, þegar vegir voru með bezta móti, og hefir ekki getað gert sér í hugarlund inar ýmsu torfærur, sem þar eru á öðrum árstíðum.

Eg skil heldur ekki í að það sé rétt hjá háttv. framaögumanni, að verkfræðingurinn viti ekki, hvar þessi vegur eigi að liggja, og mér þykir það mjög undarlegt, ef hann hefir látið það í ljósi. Það hafa farið bréfaskifti á milli okkar um þetta fyrir þing og eg átti tal við hann um málið í dag. Upplýsti hann mig þá um það, að þessi vegur væri 41/2 kílometer á lengd. Það er að segja sá kaflinn, sem upphleyptan veg þarf að gera. Eg get því ekki skilið það, að hann kannist ekki við þennan veg. En til frekari sönnunar því, að þetta sé enginn tilbúningur úr mér, þá skal eg leyfa mér að vísa til fundargerðar sameinaðs sýslufundar í ár, þar sem samþykt var að fara fram á, að veitt væri af almannafé fé til þessa vegar. Nauðsynin er svo brýn, að hana er ekki hægt að rengja. Eg get því ekki skilið, hvers vegna háttv. Ed. og nefndin hér legst svo mjög á móti þessu.

En að eg leyfði mér samt sem áður að koma fram með tillöguna, stafar af þeim góðu undirtektum, sem málið fekk við 2. umr. Eg vona, að svo fari enn þá og býst ekki við, að fjárlögin þurfi að fara í Sameinað þing, þótt hún verði samþykt. Skil naumast í að meiri hl. háttv. efri deildar leggi svo mikið kapp á að stryka út allar fjárveitingar til Austur-Skaftafellssýslu.

Hin brtill. er á þskj. 823 og fer fram á það, að veittar verði 800 kr. til þess að rannsaka bátalendingu við Ingólfshöfða í Öræfum. Mér var það ekki ljúft að falla frá því að fara fram á beinan styrk til þess að gera bátalendinguna, en þar sem háttv. Ed. hefir felt það og hæstv. ráðherra hefir lýst yfir því, að það væri ekki gerlegt að veita fé . til þessa, meðan málið væri svo óundirbúið, þá hefi eg nú lagt það til, að fé verði veitt til nægilegs undirbúnings undir verkið. Eg skal játa það, að þessi upphæð — 800 kr. — er sett nokkuð út í bláinn, en þar sem sagt er, að megi veita »alt að« þessari upphæð, ætti það ekki að gera svo mikið til. Það er mjög áríðandi, að þetta verði rannsakað, ef hægt væri að gera góða lendingu þarna, létta undir aðdrætti og gera mönnum mögulegt að sækja þaðan sjó. Þarna út af er mjög fiskisælt — vantar að eins vör til að skjótast úr til að ná sér í soðið eða afla að mun. Eg vona því að þetta mæti góðum undirtektum hjá háttv. þingm.

Eg vil benda á það, þar sem vitanlegt er, að viti verður bygður á Ingólfshöfða 1915, þá er æskilegt, að þessi rannsókn fari sem fyrst fram, til þetta ef unt væri að gera eitthvað við lendinguna, áður farið yrði að flytja vitaefnið þangað. Það er svo afarerfitt að koma efninu til vitans landveg frá Vík eða Hornafirði og ynnist þá ekki lítið við það, ef hægt væri að koma einhverju sjóleiðina til þessa staðar.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þessa tillögu. Eg vænti þess, að hún fái góðan byr, enda tók háttv. framsm. ekkert ómjúkt í hana.