23.07.1913
Neðri deild: 17. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (285)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Það eru að eins fáein orð, sem eg ætlaði að segja út af ræðu háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) og út af fyrspurn háttv. þm. S.-Þing. (P. J.).

Mér fanst mundu verða erfiðleikar á því, eftir því sem háttv. umboðsm. ráðherra sagði frá, að stjórnin mundi verða þessu frumv. sinnandi. Þykir mér það illa farið, því mér finst engum ætti að vera. annara um að það næði fram að ganga, en einmitt stjórninni. Menn verða að gæta að því, að í rauninni er ekki verið að biðja um að styrkja Landsbankann með þessu frumv., heldur almenning á Íslandi. Hagur bankans er hagur almennings.

Háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) leit svo á, að hagur bankans væri allgóður; enn fremur áleit hann að útgjöld landssjóða myndu alt af vaxa meira en tekjurnar. Þegar útgjöldin séu sköpuð smátt og smátt, þá væri gripið til þess að auka tekjurnar. En ef útgjöldin vaxa um 100 þús. kr. á þessu ári, því má þá ekki auka tekjurnar á venjulegan hátt? Svo framarlega sem menn ekki halda, að þessi útgjöld séu óþarfari en önnur, sem standa í fjárlögunum, held eg að ekki sé neinn vafi á, að það sé ið eina, sem ber að gera. Þetta er ekki eins mikið stórvirki og margt annað, sem ráðist hefir verið í, síðan eg kom á þing.

Eg held að eg óhræddur megi fullyrða, að þótt þjóðin kvarti undan mörgum af útgjöldum landssjóðs, muni hún ekki kvarta, undan þessum.

Háttv. þm. S.- Þing. (P. J.) spurði, til hvers ætti að nota féð og á hvaða konto það ætti að skrifast.

Það yrði sett á konto Landsbankans sem veltufé og því yrði varið til útlána. Það yrði látið standa á reikningunum gjaldamegin eins og seðlarnir og skoðað sem veltufé í peningum, sem seðlarnir ekki eru, heldur eru þeir nokkurs konar ábyrgð landssjóðs, því seðlar eru ekki peningar.

Það gefur að skilja, þegar talað er um að útvega bankanum veltufé, að það er gert fyrir landsmenn. Þeir eiga að njóta alla arðsins af því. Það er gert til að fullnægja aukinni lánsþörf í landinu. Geri eg því ekki ráð fyrir, að bankanum sé ætlað að borga vexti af þessu veltufé, heldur safnist arðurinn upp sem veltufé til að standast vaxandi lánsþörf með vexti atvinnuveganna.