23.07.1913
Neðri deild: 17. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (288)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Hv. þm. sfjk. (V. G.) sagði, að bankinn fengi ekki meira inn á ári, en þessar 100,000 kr. + vöxtum, sem hann á að svara út. Það er ekki rétt, en frá næsta ári, þegar bankinn byrjar að borga af láninu, verður auðvitað að takmarka lánin um jafn-háa upphæð á ári. Og hvernig fer þá?

Eins og hv. umboðsm. ráðh. benti á, er mest-alt veltufé bankana sparifé, en reynslan sýnir, að þegar útlán eru takmörkuð, þá verða þeir fleiri af sparibókaeigendum, sem taka út peninga sína, ekki af því að þeir séu ekki öruggir um eða óttist um fé sitt, heldur knýja aðrir menn þá til þess að lána sér fé til fyrirtækja, þegar ekki verður lengur fengið fé hjá bönkunum.

Það er einkum þetta, sem á verður að líta, að mest veltufé bankans er sparisjóðsfé; að sparisjóðsfé verður því meira tekið út, ef bankinn takmarkar lánin, og í þriðja lagi, ef mikið kveður að því, að sparisjóðsfé verði tekið út, verður bankinn að segja upp lánunum að sama skapi, og þá fer nú kúturinn að leka um báða botna, og um sponsgatið líka; og er þá öllum ljóst, hvílíkt óverjandi tjón landsmönnum er þar með gert, er heft eru fyrirtæki landsmanna, þau sem nú eru á þroskastigi.

Það hefir verið stungið upp á því, að landssjóður tæki lán til þess að standa straum af Landsbankanum. Þeir sem það segja, gá þess ekki, hversu farið hefir verið með lánstraust landssjóðs, og að nú er tæplega unt að fá lán handa landssjóði. Mundi það ekki líka vera hollara, ef vér gætum greitt þetta af árstekjum og sparað oss að taka lán erlendis?