24.07.1913
Neðri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (302)

67. mál, líftrygging sjómanna

Flutningsm. (Matthías Ólafsson):

Eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt, voru hér í fyrra tvö frumv. um líftrygging sjómanna. Þeim var báðum skotið til sömu nefndar, en nefndin gat ekki komið sér saman um, vegna naumleika tímans, hvort frumv. skyldi taka, og ekki var hægt að gera eitt frumv. úr báðum, vegna þess hve þau voru sundurleit. Nefndin tók þá þann kostinn, að skora með þingsál.tillögu á landsstjórnina, að semja og leggja fyrir næsta Alþingi frumv. til laga um líftrygging sjómanna. Þessi þingsál. till. var samþykt, og skal eg með leyfi hæstv. forseta lesa þingsályktunina upp í heild sinni. Hún hljóðar svo:

Neðri deild Alþingis ályktar að skora á landsstjórnina, að semja og leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi frumv. til laga um líftrygging sjómanna, og að hún við samning slíks frumvarps taki til íhugunar:

1. hvort eigi sé unt að gera Iíftryggingarskylduna víðtækari en hún er nú;

2. hvort eigi sé tiltækilegt, að hækka iðgjöldin og þar af leiðandi útborgun úr sjóðnum að mun frá því sem nú er;

3. hvort eigi sé unt að taka upp í slíka löggjöf ákvæði um slysaábyrgð og uppbót fyrir atvinnutjón;

4. hvort eigi mundi réttara að ákveða að útborgun úr sjóðnum félli til þeirra einna, er hinum líftrygða var skylt að annast að lögum, þar með talin óskilgetin börn á ómagaaldri, en systkyni alls ekki;

5. hvort eigi væri tiltækilegt, að landssjóður styrkti sjóðinn með árlegu fjárframlagi, og

6. hvort eigi væri ástæða til að hafa sérstaka líftrygging handa þeim er stunda sjó eingöngu á róðrarbátum.

Þegar eg kom hingað suður í sumar, brá mér í brún, þegar eg sá, að þetta frumv. Var ekki meðal stjórnarfrumvarpanna. En eg komst brátt að því, að stjórnin hafði þó gert nokkuð í þessu máli. Hún hafði leitað álits stjórnar vátryggingarsjóðsins, og fengið það svar, að engin ástæða væri til að flýta þessu máli. Mér kom þetta svar ekki á óvart, því að málið hafði áður mætt andmælum úr þeirri átt. Eg tel samt ver farið, að ekki hefir verið gert meira í þessu, því að nú hefir því aukist fylgi út um landið. Það var nýstárlegt í fyrra, en það sýndi sig þegar fiskiþingið kom saman, að það hafði vakið eftirtekt. Og það er mikið fyrir tilstilli fiskiþingsins, að þetta frumv. kemur nú fram í breyttri mynd. Eg skal ekki fara út í einstök atriði þess, en að eins leyfa mér að minna á, í hverju aðalbreytingarnar eru fólgnar.

Í stærra frumv. í fyrra var ætlast til að sjómenn væru trygðir fyrir alt árið. Þetta þótti ekki aðgengilegt fyrir þá, sem ekki stunda sjó nema nokkurn tíma árs. Eg hafði lagt til, að líftryggingartímabilið væri einn ársfjórðungur, en það þótti nokkuð stutt, og var svo ákveðið að hafa þrjú líftryggingartímabil á árinu.

Eg þarf ekki að taka það fram nú, hver nauðsyn er að breyta sem fyrst þeirri löggjöf, sem við eigum við að búa í þessu efni. Eins og allir vita, fá námenni þeirra manna, sem trygðir eru eftir núgildandi lögum og drukna í sjó, 400 kr., sem borgast með 100 kr. á ári í 4 ár. Í fyrra ætlaðist eg til að líftryggingarupphæðin yrði 100 kr., sem borgaðist með 200 kr. á ári í 4 ár. Nefndin var á sömu skoðun, en fiskiþingið færði upphæðina niður í 800 kr. Eg get nú felt mig við það, en eg held að við flutningamennirnir séum allir á einu máli um það, að lengra megi ekki fara. Það er öllum kunnugt, að þetta gjald, sem eftirlifandi námenni druknaðra manna fá, dregur þau sáralítið, og sjómennirnir vilja gjarnan leggja meira á sig til þess að tryggja betur hag eftirlifandi námenna sinna. Það er fögur dygð að vilja sjá sínum sem bezt borgið eftir sinn dag. Vitanlega hafa sjómennirnir okkar ekki svo góðar tekjur, að þeir geti trygt framtíð námenna sinna á annan hátt. Þeir geta ekki lagt neitt upp af tekjum sínum.

Það eru fleiri hliðar á þessu máli og er ein þeirra fjárhagshliðin. Menn þurfa að vita, hve margir stunda sjó árlega og um hv e langan tíma. En skýrslur um þetta eru ekki til. Það þarf að gera líftryggingarskylduna sem víðtækasta, svo að allir þeir sem sjó stunda um lengri eða skemri tíma, styrki sjóðinn með tillögum sinum. Í Ísafjarðarsýslu fá menn sig ekki trygða fyrir skemri tíma en 10 vikur. En þrátt fyrir það þó fjöldi manna hafi gengið undan og ekki borgað í sjóðinn, hefir hann þó staðið í skilum til þessa. Það virðist því séð fyrir, að sjóðurinn geti ekki þrotið. En ef það kæmi fyrir, þá er hér gert ráð fyrir, að landasjóður standi á bak við, enda er honum álitið það skyldast.

Eg álít svo ekki þörf að fara frekara orðum um málið í þetta sinn. Eg býst við að háttv. deildarmönnum þyki full ástæða til að það verði rækilega athugað í nefnd, og leyfi eg mér að stinga upp á 7 manna nefnd að þessari umræðu lokinni.