25.07.1913
Neðri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (314)

15. mál, laun íslenskra embættismanna

Framsm. meiri hl. (Sigurður Sigurðsson):

Mér hefir borist til eyrna sá kvittur, að framsögum. eða jafnvel nefndin ætli sér að vekja úlfaþyt út af þessu máli nú við þessa umræðu. Eg get lýst yfir því, að það er síður en svo. Við teljum þvert á móti æskilegt, að sem minst verði um málið rætt, en væntum hins vegar, að Tillögur okkar verði teknar til greina.

Nefndin hefir rætt þetta mál með sér og að því er snertir niðurstöðu hennar og ástæðurnar fyrir þeirri niðurstöðu nægir að vísa til nefndarálita meiri og minni hlutans, sem prentuð eru á þskj. 148 og 154.

Meiri hlutinn hefir komist að þeirri niðurstöðu, að ráða háttv. deild til að fella frumvarpið eins og það liggur fyrir. ástæðurnar eru tilfærðar í nefndarálitinu, þó að stutt sé. Meiri hlutinn leit svo á, að ekki væri brýn þörf að breyta launalöggjöfinni að svo stöddu, sízt í þá átt, að hækka laun einstakra manna, sem áður eru sæmilega launaðir. Þá má og benda á það, að úr því að farið var að hrófla við launalöggjöfinni, var eins mikil ástæða til að taka tillit til ýmissa manna, sem hér er slept, svo sem aðstoðarmannanna í stjórnarráðinu. það er engu minni ástæða til að hækka laun þeirra en t.d. landritara og skrifstofustjóranna, nema fremur sé.

Í athugasemdunum við frumvarpið farast stjórninni svo orð, að innan fárra ára geti það komið til greina, að endurskoða alla launalöggjöfina.

Nefndin er stjórninni sammála um, að þetta beri að gera, þegar tími og tækifæri er til, en meiri hlutinn vill að þessar breytingar, sem hér er farið fram á, bíði þess tíma. En um leið og launalöggjöfin verður endurskoðuð, ætti að að yfirvega það, hvort ekki væri auðið að fækka embættunum og í sambandi við það gæti komið til greina að lækka eða helst afnema eftirlaun embættismanna.

Á hverju þingi síðan 1903 hefir embættum og opinberum sýslunum verið fjölgað meir og meir. Eg segi ekki að það hafi verið óþarft með öllu, en víst er um það, að þjóðin lítur misjöfnum augum á þessar embætta-fjölganir, og eg verð að telja það mikið vafamál; hvort þær hafa verið eins nauðsynlegar og af hefir verið látið.

Á Alþingi 1807, ef eg man rétt, voru stofnuð, sumpart með sérstökum lögum, og sumpart á fjárlögunum, 16–18 embætti og opinberar sýslanir, og á Alþingi 1909, háskólaþinginu, var 8–10 nýjum embættum bætt við. Þegar að því er gætt, að alt af er verið að fjölga embættunum, bæði að þörfu og óþörfu, er ástæða til að fara varlega í það, að hækka laun þeirra embættismanna, sem viðunandi laun hafa.

Þegar litið er á fjárlagafrumvarpið sem liggur fyrir þinginu, og það athugað, hvílíkt feikna fé fer til þess að launa embættism. og öðrum opinberum starfsmönnum, þá getur engum manni dulist, að það er miklu meira en góðu hófi gegnir, þegar fátæk þjóð á í hlut, sem í mörg horn hefir að líta.

Eg hefi gert hér dálítið yfirlit, eftir fjárlagafrumvarpinu, yfir það sem greitt er úr landssjóði á ári í laun og eftirlaun. Eg hefi ekki gert það nákvæmlega, alt af tekið lægri upphæðina, til þess að mér skyldu ekki vera bornar á brýn ýkjur, og auk þess hefi eg látið hlaupa á þúsundum.

Yfirlitið er þannig:

Til fastra starfsmanna stjórn

arinnár . . . . . . . . 36 þús.

Til dómgæzlu og lögreglustjórnar, þar með taldir allir sýslu

menn . . . . . . . . 75

Til læknastéttarinnar, þar með

taldir sérfræðingarnir . . . 92 –

Til póstafgreiðslunnar . . . 35 –

Flyt kr. 238 þús.

Fluttar kr. 238 þús.

Til Verkfræðings landsins og

aðstoðarmanna hans . . . 10

Til landsímans . . . . . . . . 20

Til prestastéttarinnar . . . . 60

Til kennara við æðri skóla. 80

Til safnanna . . . . . . . . . . . .12

Samtals á ári kr. 420 þús.

eða á fjárhagstímabilinu 840 þús. Þar við bætist eftirlaunafúlgan og styrkur til einstakra manna, sem er nálega 60 þús. kr. á ári eða 120 þús. á fjárhagstímabilinu. Þessi upphæð gengur til 90 heimilisfeðra. Enn má nefna fjárveitingar til einstakra manna, sem venjulega er kallað “bitlingar„. Sú upphæð er 30 þús. kr. á ári eða 60 þús. kr. á fjárhagstímabili. Samkvæmt þessu verða laun embættismanna, eftirlaunin og bitlingarnir meir en 500 þús. kr. á ári eða rúmlega 1 miljón kr. á fjárhagstímabili, eða með öðrum orðum 1/3 af öllum útgjöldum landsins. Þó hefi eg slept hér mörgu, sem réttilega mátti telja með þetta eru einungis aðalpóstarnir.

Þegar á þetta er litið, er engin furða þó að þjóðin kveinki sér undan því, að embættum sé fjölgað og embættismannalaunin aukin. Meiri hluti nefndarinnar lítur því svo á, að ekki beri að taka til slíkra breytinga fyr en brýn nauðsyn krefur, og að því er þetta frv. snertir, er það samhuga álit hans að það beri að fella. Minni hluti nefndarinnar mun gera grein fyrir ágreiningsatkvæði sínu, og mun eg ekki fara út í það, að minsta kosti ekki fyr en eg hefi heyrt, hvað hann hefir um það að segja.

Það segir svo á einum stað í nefndarliti meiri hlutans, að margir embættismenn hafi góðar aukatekjur, sumir jafnvel svo miklar, að margir embættislausir menn mundu telja sig fullhaldna af þeim einum. Í nefndarálitinu er engin nánari grein gerð fyrir þessu. Eg ætla heldur ekki að fara út í það atriði, að svo stöddu. En ef til þess kemur, að ummælin verði vefengd, mun meiri hlutinn leitast við að færa sönnur á sitt mál.

Því hefir verið haldið fram, að hér í Reykjavík væri svo sérstaklega dýrt að lifa, og að því meiri ástæða væri til að bæta við laun þeirra embættismanna, sem hér eru. Nefndin kannast fúslega við það, enda er það kunnara en frá þurfi að segja, hverju það er orðið dýrt að lifa hér í Reykjavík. En þess ber að gæta, að það kemur ekki þyngra niður á embættismönnunum en öllum almenningi. Þess Vegna gat meiri hl. nefndarinnar ekki séð, að það mælti með launahækkuninni, og einkum þegar þess er gætt, að þegar svo stendur á, að embætti losnar hér í Reykjavík, þá eru margir fyrir einn, sem vilja komast í það, og þar á meðal jafnvel sæmilega launaðir menn utan af landi. Það lítur því svo út, að embættin hér í Reykjavík séu alment talin sæmilega launuð. Ennfremur má benda á það, að þegar menn út um land leggja niður embætti — hvort sem þeir fá nú lausn í náð, eða stjórnin losast við þá á annan hátt — þá sækja þeir allir hingað. Það bendir ekki á, að menn telji með öllu ólífvænlegt að vera hér.

Þá er ein hliðin enn á þessu launamáli, og sem ekki er vikið að í nefndarálitinu. Með því að hækka sífelt laun sæmilega launaðra embættismanna, er mönnum gefið undir fótinn, að þyrpast í æðri skólana og ganga embættismannaveginn.

Eg fyrir mitt leyti álít, að aðsókn að skólunum sé meir en nægileg og að hún sé í raun og veru svo mikil, að ekki sé á það bætandi. Það er því sízt ástæða til að bæta launakjör embættismanna af þeirri ástæðu, að ekki sé nóg til af embættismannaefnum. Þau eru jafn vel fleiri en góðu hófi gegnir. Á hverju ári útkrifast fleiri menn en geta fengið stöðu hér á landi. Nú er til stór hópur manna, sem tekið hafa embættispróf, en ekki geta komist að neinni stöðu.

Eins og eg þegar hefi getið um, er aðsóknin að skólunum orðin alt of mikil og þjóðinni til skaða, en sízt mun hún minka við, að aukin séu laun embættismannanna.

Eg gat áðan um það, að ef embætti losnaði hér í bænum, væri altaf fjöldi manna utan af landi reiðubúinn til að sækja um það. En það er alveg eins ástatt út um land. Það má segja um hverja opinbera stöðu, sem losnar, að það eru 10 fyrir 1, sem sækja um hana, enda er það eðlilegt, því borgunin er trygg meðan landssjóður er fær um að borga.

Af þeim ástæðum, sem eg hef tekið hér fram og enn fleiri, verð eg að leggja til, að frumvarpið verði felt.