25.07.1913
Neðri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (316)

15. mál, laun íslenskra embættismanna

Umboðsm. ráðherra (Kl. J.):

Eg get verið samþykkur háttv. framsögumanni meiri hluta nefndarinnar (S. S.) um, að það sé óþarfi að hafa mörg orð um þetta mál.

Forlög Kartagóborgar eru sem sé fyrirsjáanleg. Það er auðséð, hver muni Verða afdrif þessa frumvarps, bæði eftir undirtektunum við 1. umræðu og eftir nefndarálitinu að dæma, og virðist því óþarft að fara ýtarlega út í málið.

Það hefir verið tekið fram nú eins og við 1. umræðu, að málið væri ekki nægílega undirbúið. En hvað er nægur undirbúningur? Einn kallar það nægan undirbúning, sem annar kallar alveg ónógan.

Eg hefi sérstaklega heyrt að háttv. þingm. Seyðf. (V. G.) hafi við 1. umr. kvartað undan því, að það vantaði samanburð við launakjör embættismanna í nágrannalöndunum, Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Þetta er öldungis rétt, þessu frumvarpi fylgir engu skýrara um þau, en það vita allir, að laun tilsvarandi embættismanna í þessum löndum, einkum í Svíþjóð, eru langtum hærri en hér er farið fram á. Auk þess, hvað hefði það þýtt, þótt skýrsla hefði fylgt um þetta, þegar alt af er viðkvæðið, að við getum ekki farið eftir því, hvernig til hagar hjá öðrum þjóðum, við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti?

Það er heldur ekki hægt að færa fram þessa ástæðu gegn tveim af frumvörpum stjórnarinnar, frumvarpinu um verkfræðing landsins og frumvarpinu um landsbókavörð. Í athugasemdunum við þau frumvörp er tekið greinilega fram, hversu mikil laun tilsvarandi embættismenn fái í þeim löndum, sem nefnd voru, en það virðist engin áhrif hafa haft á nefndina.

Þá hefir nefndin fært það fram, að ekki hafi verið gefnar upplýsingar um, hversu miklar aukatekjur þeir embættismenn hafi, sem ætlast var til í frumvarpinu að fengju launaviðbót. En mér heyrðist á framsögumanni meiri hluta nefndarinnar (S.S.), enda skýrt tekið fram í nefndarálitinu, að nefndarmenn þættust vita, að embættismenn; sem hér eiga hlut að máli, hefðu margir einhverjir aukatekjur og þá hve miklar. Úr því að nefndinni var svona vel kunnugt um það, virðist hafa verið algerður óþarfi af stjórninni að vera að skýra sérstaklega frá því.

Háttv. framsögumaður meiri hluta nefndarinnar sagði, að sér fyndist ekki meiri ástæða til að hækka laun landritara og skrifstofustjóranna heldur en aðstoðarmannanna í stjórnarráðinu. Þetta er alveg rétt, en laun þeirra hafa einmitt Verið hækkuð. (Lárus H. Bjarnason: Hefir þeim ekki verið fjölgað ?). þeim hefir bæði verið fjölgað og laun þeirra bætt. Aðstoðarmaður einn, sem (byrjaði með 1500 kr. launum, hefir nú 2900 kr., hinir tveir 1800 kr. og 1650 kr. Þeir hafa því allir fengið launaviðbót. Skrifararnir, sem höfðu 1000 kr. í byrjunarlaun, hafa nú 1200 kr. Það er því ekki rétt, að það hafi ekki verið tekið tillit til þeirra. Og mér er óhætt að fullyrða, að stjórnin hefir eigi síður borið hag aðstoðarmannanna fyrir brjósti en hinna. Stjórnin fer í hverju fjárlagafrumvarpi fram á hækkaðan skrifstofustyrk, aðallega til þess að geta bætt kjör aðstoðarmannanna.

Það er auðséð, að þetta frumv. verður felt, en þó að það verði felt að þessu sinni, geta menn verið vissir um, að það kemur bráðlega aftur. Það er blátt áfram réttlætiskrafa, að menn fái svo góð laun, að hægt sé að lifa af þeim.

Ef allar lífsnauðsynjar stiga, er það sjálfgefið, að hækka verður laun embættismanna; einkum þeirra lægst launuðu, það er jafn-sjálfgefið sem að iðnaðarmaðurinn hækkar smíðakaup sitt, og verkamaðurinn dagkaup sitt.

Við 1. umr. hafa komið fram ýmsar athugasemdir, sem gefa mér ástæðu til að segja nokkur orð. Ýmsir embættismenn kváðu þá hafa orðið fyrir aðdróttunum, ef ekki á að kalla það verra nafni, af því þeir hafi farið fram á launaviðbót. Eg get ekki skilið, hversvegna menn eiga að fá skammir, þó þeir hafi beðið um launahækkun, þegar sannanlegt er, að alt, sem til lífsviðurværis þarf, hefir stigið um 30–40 % in síðustu ár, og enn meira, sé miðað við þann tíma, er launalögin voru samin. Mér finst það vera ærleg sök, þó menn fari fram á launaviðbót. Það er heldur ekki eingöngu embættismenn í Reykjavík, sem farið hafa fram á launahækkun, heldur fjöldi annara manna. Get eg tilnefnt t. d. mjög marga póstafgreiðslumenn út um land, sem hafa sagt sér ómögulegt að halda áfram störfum sínum, ef þeir ekki fengju launaviðbót. Þessar kröfur hafa verið svo vel rökstaddar, að ekki hefir verið hægt að ganga fram hjá þeim, og laun þessara manna hafa venjulega verið hækkuð með samþykki þingsins, og hjá sumum oftar en einu sinni.

Eg sé því ekki, að það sé neitt óheiðarlegt þó embættismenn fari fram á, að hækkuð séu laun þeirra, og finst mér ekki að Alþingismönnum beri að lá þeim það svo mjög, þar sem þeir sjálfir hækkuðu laun sín afarmikið í fyrra. Var mér þá ekki kunnugt um, að lægi fyrir neinn ákveðinn vilji þjóðarinn um, að fá því framgengt, eða neinir útreikningar eða áætlanir um, hve mikinn aukinn kostnað það hefði í för með sér, yfir höfuð engar þær upplýsingar, sem nú þykja nauðsynlegar. Sérstaklega virðist mér þó óhæfa að veitast að þeim mönnum, sem alls ekki hafa sótt um launahækkun. Það stendur í athugasemdum við frumvarpið, hverjir hafa gert það. Aðrir en þeir, sem þar standa, hafa ekki mér vitanlega sótt um launahækkun.

Það ræður að líkindum, að þótt mér stöðu minnar vegna hafi verið kunnugt um frumvarpið, hafi eg eigi verið neitt sérlega hrifinn af því hvað sjálfan mig snertir, þar sem virðist vera rýrt gildi og álit embættis míns, er byrjunarlaunin eru færð niður, enda er mitt embætti það eina, sem eftir frumv. á að launa ver en áður, og eg er sá einasti embættismaður, sem eftir því fær enga launahækkun næsta fjárhagstímabil, þar sem aðrir fá mörg hundruð. Það ræður því að líkindum, segi eg, að eg geti rólegur séð þetta frumv. bíða eitt fjárhagstímabil enn.

Mér finst ósanngjarnt og ómaklegt að beina ónotum og aðfinningum til mín út af þessu frumv.

Eg hefi heyrt sagt, að eg eigi að vera upphafsmaður að þessu frv., en þó eg mundi alls ekki skammast mín fyrir það, þá verð eg sannleikans vegna að lýsa yfir því, að svo er ekki, enda ber frumvarpið það ljóslega með sér, hverjir eru upphafsmenn að því.

Úr því að eg fyrir ið sorglega atvik, sem er öllum kunnugt, á sem stendur sæti í þinginu, ætla eg að nota tækifærið til að svara með nokkrum orðum þeim árásum, sem á mig hafa verið gerðar. Mun eg reyna að gera það án alls hita og skal reyna að forðast óþingleg orð, sem alt af eiga illa við, en sérstaklega sætu illa á mér, þar sem eg sit hér hér í sæti annars manns og er á hans ábyrgð.

Eg hefi eigi lesið ræðu háttv. þm. N.Þing. (B. Sv.) í Alþingistíðindunum, en eg hefi hér fyrir mér blaðið Ingólf, sem “refererar„ hana, og þar sem það blað ber hana nafn sem ritstjóra, má telja það víst, að blaðið hafi hermt rétt ræðu hans.

Það fyrsta, sem mér er þar fundið til foráttu, er, að eg vinni ekki nema 2 tíma á dag í stjórnarráðinu.

Eg ímynda mér, að flestir bæjarbúar viti, að þetta er fjarri öllum sanni. Eg get vitnað um það til samverkamanna minna, að eg er engan virkan dag skemur en 6–7 kl.st. í stjórnarráðinu. Þar fyrir utan hefi eg oft heimavinnu. Það sama á sér stað um aðra starfsmenn á 1. og 2. skrifstofu, en á 3. skrifstofu er vinnan jafnari, og því ekki oft þörf á síðdegisvinnu.

Hvað heimavinnu snertir, skal eg sem dæmis geta þess að eg hefi altaf samið fyrsta uppkastið af fjárlagafrumvarpinu með athugasemdum er þetta mikið verk, og hefir mest alt jafnan verið unnið heima á kvöldin.

Í öðru lagi stendur — og þykir mér það þyngri ásökun —, að þær stundir, sem eg sé í stjórnarráðinu, væri eg að vinna fyrir sjálfan mig. Þetta verð eg að lýsa rakalaus ósannindi. Auðvitað hefir það komið fyrir, að eg hefi lesið bréf eða blöð þar, en að eg vinni þar fyrir sjálfan mig er blátt áfram ósatt. Er mér óhætt að segja, að á dauða mínum átti eg von, en ekki á slíkri ákæru.

Þá hefir verið minst á stjórnarráðsfrímerkin og gerður mikill þytur og hvellur út af þeim. Það er ekki í fyrsta sinn, sem hefir verið minst á þau, en það ætti vissulega að verða í síðasta skiftið.

Það er rétt, að fjöldi bréfa kemur stýluð til stjórnarráðsins, en eg hefi aldrei heyrt annað, en að frímerkin væru eign þeirra, sem bréfin eru stíluð til, og því þau frímerki, sem koma á bréfum til stjórnarráðains, eign þess, alveg á sama hátt sem frímerkin af bréfum þeim, sem áður komu til landshöfðingja, voru hans eign, án þess eg viti til að nokkur hafi véfengt það. Það sama má segja um póstmeistara og sýslumenn og yfirleitt alla embættismenn í landinu, að þeir skoða frímerkin, sem til þeirra koma á þjónustusendingum, sem sína eign.

Eg get því ekki séð, að nokkrum komi það við, hvernig embættismenn hagnýta sér frímerkin af bréfum þeim, sem til þeirra eru stíluð, meðan ekki eru til sérstök lög um þau, og er það því bæði einstökum þingmönnum sem þinginu í heild sinni alveg óviðkomandi, hvernig stjórnarráðið ver andvirðinu af frímerkjum sínum. Þetta er svo blátt áfram og einfalt, að það er ekki frekari orðum að því eyðandi.

Það var sérstaklega upphæðin, sem þessi frímerki kváðu eiga að nema, sem eg ætlaði að geta um. Hún er nefnilega svo ósæmilega uppskrúfuð í umtali manna, sem auðvitað stafar frá “Ingólfi„ að hún er hvorki meira né minna en tífölduð. Sérstaklega á þetta sér þó stað við frímerki, þau sem inn áttu að hafa komið til stjórnarráðsins út af manntalinu 1910, því að eg hefi heyrt því haldið fram, að stjórnarráðið hafi fengið 3000 krónur fyrir þau, þar sem sannleikurinn er sá, að þau seldust fyrir 300 kr.

Það vill nú svo vel til, að þetta er hægt að sanna, hvenær sem er. Það hittist svo á, að skýrslurnar eða eyðublöðin urðu síðbúin af því, að prentsmiðjan hafði verið svikin um pappír, og þess vegna voru skýrslurnar sendar út að mestu með landpóstum, og varð því burðareyririnn um 700 kr. Þetta hefi eg eftir Indriða Einarssyni skrifstofustjóra, og sannanir fyrir því er að finna í póstkvittanabókum stjórnarráðsins. Þá sést nú strax, að ekki muni hafa kostað meira undir þær til baka aftur. En auk þess ber að gæta: 1. að skýrslurnar voru frá stjórnarráðinu sendar til allra presta á landinu, en þeir sendu frá sér til prófasta og þeir aftur til stjórnarráðsins í miklu stærri sendingum, og þess vegna með lægra burðargjaldi. 2. að skýrslurnar komu til baka aðallega með skipum í febr. 1911, því að þá var skipaferð vegna Alþingis, sem þá hófst í miðjum Febrúar, eins og menn muna, og varð það ódýrari flutningur en á landi. Í þriðja lagi var meira sent út af eyðublöðunum en brúka þurfti, og kom því færra aftur af útfyltum eyðublöðum en send höfðu verið út auð. Af öllu þessu er það ljóst, að burðargjaldið til baka hlaut að verða miklu minna en út um landið. Þessi frímerki að viðbættum öðrum, sem komið höfðu á bréfum frá áramótum voru seld í Apríl eða Maí 1911 og seldust á 300 krónur. Það var Aasberg skipstjóri á Botniu, sem seldi þau, og getur hann vitnað um, að þetta er rétt. Núna síðasta árið hafa frímerkin verið með mesta móti, en þó hefir andvirði þeirra ekki náð 300 kr., en þangað til árið 1911 voru þau alt af innan við 200 kr. á ári. —

Eg hefi álitið það rétt að skýra frá þessu, af því að þetta frímerkjamál hefir svo oft verið notað til þess að ófrægja mig, til þess að menn fái einu sinni að vita ið rétta, og þar við legg eg drengskap minn, að þetta sé rétt, svo verði þessum ófrægingum og ósannindum hér eftir haldið á lofti, þá verður það gert víssvitandi.

Það hefir verið minst á það, að eg hafi fengist við ritstörf utan embættis. Eg þykist eiga nóttina sjálfur og aðrar frístundir, sem kunna að verða frá embættisstörfum mínum, og vera sjálfráður um, hvernig eg ver þeim. Það hefir oft verið látið klingja, að embættismenn ynnu ekkert í frístundum sínum; hér sýnist því skjóta skökku við, að mér sé ámælt fyrir það, að nota frístundir mínar, enda skoða eg þetta ámæli fremur til lofs en hitt.

Enn fremur hefir það verið notað til að sýna, hve gjarn eg sé í bitlinga, að bera mér á brýn, að eg hafi seilst eftir endurskoðun við Íslandsbanka. Sannleikurinn er sá, að eg hafði ekki hugmynd um, að stungið mundi verða upp á því, að kjósa mig fyrir endurskoðanda, og ef eg hefði vitað það, mundi eg að sjálfsögðu hafa aftrað því, því að það gat ómögulega sameinast stöðu minni sem varaformaður í bankaráðinu. Mér þykir það æði hart, að mér sé borið það á brýn, sem eg hefi enga sök á né hugmynd um.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) og fleiri, þar á meðal hv. 1. þm. Rang. (E. J.) í gær, hafa sagt, að landritaraembættið Væri óþarft; hafa þeir Sérstaklega tekið það fram sem ástæðu, að eg var 2 mánuði burtu frá embættinu í vor og það að eg var 2 mánuði burtu, en þess er ekki getið um leið, að 7 ár eru síðan eg hefi haft nokkurt fri. Annarstaðar er það alsíða, að embættismenn fái 1–2 mánaða sumarfrí á, ári. En hér er þetta talið eftir, og svo er kallað, að eg hafi verið burtu mánuðum saman og við báðir samtímis, ráðherra og eg, þótt sannleikurinn sé sá, að við vorum að eins burtu 1 mánuð samtímis. Ef þeir sem telja landritaraembættið óþarft, vildu sýna alvöru í því máli, þá ættu þeir að beita sér fyrir stjórnarskrárbreytingu, til að afnema það embætti, og mundi fáum vera það kærara en mér, ef þeir vildu losa mig við það vanþakkláta og umsvifamikla embætti. Eg get nú samt ekki verið þeim samdóma, sem telja það embætti þýðingarlaust. Annað mál er það, að spursmál væri, hvort ekki ætti að breyta því. Þetta embætti hefir frá öndverðu verið hvorki fugl né fiskur. Eftir óskrifuðum lögum hefir það verið samróma álit allra, að landritararinn ætti ekki að vera við stjórnmál riðin. Þannig var það, er eg tók við því embætti; þá sagði eg af mér þingmensku. Sumir hafa jafnvel gengið Svo langt, að þeir hafa ekki viljað einu sinni, að landritari sinti borgaralegum skyldum, eins og kom fram, er eg var kosinn hér í bæjarnstjórn um árið. Þessi óskrifuðu lög um það, að landritari sé afskiftalaus um stjórnmál, virðast mér ekki samþýðast stjórnarskránni, sem gerir ráð fyrir því, að landritari gegni ráðherraembætti, og það á sína ábyrgð, ef ráðherra deyr, og verður þá sem slíkur að undirbúa frumv. og mæta á þingi, eða með öðrum orðum einmitt að fást við stjórnmál. Auk þess er ráðgert í stjórnarskránni, að ráðherra geti notað umboðsmann til að mæta fyrir sig á þinginu, og er þá sjálfsagt talið, að landritarinn sé þessi umboðsmaður, enda hefir líka alt af svo verið, þegar ráðherra hefir ekki getað mætt. Þessi óskrifuðu lög um afskiftaleysi landritara af stjórnmálum eru því brotin að þessu leyti. Oft er það einnig, þegar ráðherra er fjarverandi, að landritari verður að framkvæma ýmis mikilvæg embættisverk á ábyrgð ráðherra. Þetta hef eg oft hugsað um, og hefir mér virst sem heppilegast mundi, að veitz landritara víðtækara vald og láta hann þá bera sjálfan ábyrgð á embættisverkum sínum. Ef þessi breyting kæmist á, yrði afleiðingin líka eðlilega sú, að landritari færi frá, þegar ráðherraskifti verða, að minstakosti ef viðtakandi ráðh. óskar þess.

Þetta, sem nú hefi eg sagt, hefir mér fundist eg vera neyddur til, til þess að bera hönd fyrir höfuð mér. Eg hirði ekki að endurtaka orð mín í blöðunum, því menn, sem verða þar fyrir aðkasti, geta aldrei haft þar síðasta orðið. Það nægir, að orð mín komi fram í þingtíðindunum, og álít eg þar með fullkomlega hnekt þeim áburði, sem eg hefi orðið fyrir.

Eg hefi ekki ástæðu til að fara nánara út í frumv., þau að sem nú liggja fyrir, enda munu afdrif þeirra ráðin. En samt vil eg biðja menn að athuga vel sína eigin samvizku áður þeir greiða atkvæði til slátrunar þessum frumv., hvort þeir eigi gangi of nærri réttlætis- og sanngirniskröfum, ef þeir greiða atkvæði gegn þeim öllum.. Það er að vissu leyti rétt, að þeir, sem lægra eru launaðir, eiga erfiðara en hinir, og á það einmitt við um þá sem sent hafa beiðni um launahækkun, dómendurna við landsyfirdóminn og kennarana við mentaskólann. Laun þessara manna eru ekki boðleg, og með öllu ófullnægjandi fyrir fjölskyldumenn. Mér er kunnugt um það, að sumir sýslunarmenn landsins, þar á meðal einn nýr frá 1909, hafa meiri tekjur og þó minna að gera en þessir ennbættismenn, að minsta kosti kennararnir við mentaskólann. Það er hart að þurfa að sitja árum saman í embætti við að eins 2000 kr. laun, eins og lægsti kennarinn við mentaskólann hefir orðið að gera. Mig furðar loks á því, að nefndin skuli ekki hafa tekið meira tillit til þess að launin séu látin fara hækkandi stig af stigi.

Þótt eg búist við, að orð mín hafi ekki mikið að þýða, þá vil eg samt biðja menn að athuga, að þótt þessi frumvörp verði nú feld, þá munu þau rísa upp aftur.