28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (335)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Flutningsmaður (L. H. Bjarnason):

Ræða hv. ráðherra (H. H.) var bæði lengri og öðruvís en eg gat búist við eftir samtali, sem eg átti við hann rétt fyrir fundinn. Fyrir því neyðist eg til að tala lengra mál en eg hafði ætlað mér.

Eg verð því að rekja skýrslu, þá sem hv. ráðherra gaf í sameinuðu þingi þ. 14: þ. mán. og birzt hefir á prenti í blaðinu Lögréttu. Ein af aðalmálsbótunum, sem hv. ráðherra hefir fært fyrir því, að hann hafi ekki borið lotterífrumvarpið. upp fyrir konung til staðfestingar, er sú, að það hafi frá upphafi komið í bága við dönsk lög, 2. gr. 6. marz 1869 um klasselotteríið. “Austri„ flutti í fyrra eftir hv. ráðherra — og síðar hefir “Lögrétta„ staglast á inu sama að það, að frumvarpið væri svo úr garði gert, væri sérstaklega mér að kenna, og ferst hv. ráðherra þar ekki karlmannlegar en eftirmanni hans, sem kendi unga fautanum um sumar gerðir sínar. En eg skal ekki skjóta mér undir fast fylgi ráðherra við lotterímálið.

Eg skal fúslega játa, að ef nokkur ljóður væri á frumvarpinu í þessu efni, þá væri það mín sök fremur en annara, því að bæði var eg aðalflutningamaður frumvarpsins og svo heiði eg átt, vegna stöðu minnar, að vera fróðari um það en margir aðrir, hvað við mættum bjóða okkur í þessu efni. Eg tek því fúslega að mér ábyrgðina, ef nokkur er, enda þó að eg sé svo heppinn að vera ekki einn um hituna.

Fyrst og fremst get eg borið fyrir mig orð hv. ráðherra í Alþ.tíð. 1912, sem eg las upp áðan og enn fremur ummæli hans í sameinuðu þingi, því að þar gerir hann litið eða ekkert úr lögskýringu dómamálaráðherrans (Bülows).

En eg get borið fyrir mig enn þá sterkari stoðir, sem sé fleiri hæstaréttardóma. Fyrsti dómurinn er frá 2. Jan. 1871, sama degi og stöðulögin. Maður í Kaupmannahöfn var kærður fyrir að hafa rekið í leyfisleysi vörulotterí. Hann var fyrst sýknaður í “Kriminal- og Politiréttinum„ og síðan í hæstarétti með þeirra ástæðum í dómnum, að þar sem allir seðlarnir hefðu átt að seljast til útlanda, gæti lotteríið ekki talist koma í bága við nefnd dönsk lotterílög. Þetta má lesa í Hæstaréttartíðindum 1870, bls. 649–650. Þetta var enginn “goluþytur„ í hæstarétti, því að 16. Okt., 17. Okt. og 29. Nóv. 1912 voru kveðnir upp dómar í hæstarétti ekki ólíkir fyrstnefnda dóminum, aðaldóminum. Sbr. Hæstaréttartíðindin 1912, bls. 553–555 og 695. Það er því staðfest með órækum hæstaréttardómum, að það var lögheimilt verk í Danmörku að setja á stofn lotterí og reka það þar, ef seðlarnir væru seldir til útlanda, og þá ætti það engu síður að vera frjást, þó að lotteríhaldið styddist við íslenzk lög og landssjóður ætti að hafa tekjur af því.

Auk þess sem eg hefi nú talið, get eg borið fyrir mig sjálfan dómsmálaráðherra Dana, sem 31. Janúar 1913 lagði fram frumvarp til laga, þeirra er staðfest voru 1. Apríl 1913 og banna öll lotterí í Danmörku nema glasse- og Koloniallotteríið. Það mundi hann sannarlega ekki hafa gert, ef hann hefði álitið þá gildandi dönsk lög ósamrýmanleg íslenzka lotteríinu. Með öðrum orðum, íslenzka lotteríið var alheimilt að dönskum lögum þangað til frv. dómsmálaráðherrans var staðfest.

Þá ber háttv. ráðherra (H. H.) það fram í skýrslu sinni, að frumvarpið hefði dregið dönsk dómsmál undan dönskum dómstólum. Það er satt, að eftir 1. gr. d. átti stjórnarnefndin að leggja fullnaðarúrskurð á allan ágreining um lögmæti eða gildi dráttanna. En eg fullyrði, að þetta hefði lotteríinu verið leyfilegt án nokkurrar lagaheimildar, hvort heldur í dönskum eða íslenzkum lögum. Hér er ekki um annað að ræða en gerðardómstól milli tveggja aðila, lotterísins annarsvegar og viðskiftamanna þess hins Vegar. Eftir allra landa lögum, þeim er eg þekki til, er mönnum heimilt að undanskilja einkamál sín undan meðferð dómstóla. En þó að lotterífrumvarpið hefði að þessu leyti “legið nærri„ danska löggjafarvaldinu, þá fer því fjarri, að það hefði orðið eins dæmi í íslenzkri löggjöf. Það hefir komið oft fyrir, jafnvel í tíð Nellemanns sál., að sett hafa verið íslenzk lög um svokölluð sammál, sem ekki er heimilt eftir bókstaf l. málsgr. 1. gr. stjórnarskrárinnar. Eg get nefnt hér nokkur dæmi: 14 gr. laga nr. 3, 14. Jan. 1876 um skipströnd; 35. og 39. gr. laga nr. 13, 22. Marz 1890, farmannalögin; 13. gr. laga nr. 31, 13. Des. 1895 um skrásetning skipa; 1. gr. stjórnarskrárlaganna frá 3. Okt. 1903; og lög nr. 17, 3. Okt. 1903, sbr. 6. gr. stöðulaganna svokölluðu. Enn má nefna lög nr. 15, 20. Okt. 1905, um málskotsfrest til hæstaréttar, og lög nr. 17, 11. Júlí 1911, sbr. lög 10. Okt. 1879, Vitalögin, þar sem ráðherra er falið utanríkismál, sem sé, að semja við stjórnir annara ríkja um vitagjald fiskiskipa. Það er því alveg ugglaust, að þessi mótbára er á engum rökum bygð. En þetta hefir hæstv. ráðherra ekki athugað, enda gaf hann sér alt of nauman tíma til að athuga “mótmælabréfið„ frá Bülow. Það er dagsett 21. Okt., en ríkisráðsfundurinn sem frumvarpið átti að leggjast fram á, Var haldinn daginn eftir.

En þó að frumvarpið hefði þótt koma í bága Við dönsk lög, þá getur enginn vafi leikið á um það, hvað hæstv. ráðherra hefði átt að gera. Hann hefði átt að heimta stað festingu og hefði fengið hana, ef hann hefði gengið eftir henni, en ekki strax látið að stýrinu hjá Bülow. Jafnvel löggjafarvaldið hefir hvað eftir annað beygt sig fyrir hæstarétti, og Vafalaust, að Bülow hefði líka gert það, ef veitt hefði verið minsta viðnám, enda honum nóg að hafa frjálsar hendur til málshöfðunar, ef lotteríið hefði komist á laggirnar. Auk þess hefði ráðherra ekki þurft að nota lögin, þó að staðfest hefðu verið. Hér var að eins um heimildarlög honum til handa að ræða en ekki um nauðungarlög. Og loka hefði hann getað gefið leyfisbréfið út með fyrirvara um ábyrgðarleysi sér og landesjóði til handa, ef danskir dómstólar kynnu að amast við lotteríinu. Með því að taka líkt í strenginn og hér er lýst, hefði ráðherra vissulega fengið staðfestingu konungs og hvernig sem farið hefði, hann altént bjargað stjórnarskrá, ráðherraábyrgðaxlögum og þingræði frá augljósu broti.

Þá hefir hæstv. ráðherra (H. H.) það eftir fjármálaráðherranum danska, að lögin mundu koma í bág við danska hagsmuni. Það er ekki ný bóla, að heyra Dani veifa dönskum hagsmunum gegn íslenzkri framfaraviðleitni. Það kemur t. d. í bág við danska hagsmuni, af millilandaskipin hafi viðkomustaði í Hamborg, og af sömu ástæðu er farmgjaldið frá Leith sett hærra en frá Kaupmannahöfn. Þetta er gamla danska viðkvæðið, en hingað til hafa Íslendingar ekki samsint því. Eg geri því ekki mikið úr þeirri ástæðu, enda sett undir þann leka í 3. gr. frumvarpsins, því að samkepni við “Klasse- og Koloníallottertið„ var útilokuð í Danmörku með því að banna að selja þar seðlana. Og það gátu naumast verið aukin óþægindi fyrir Danmörku gagnvart öðrum ríkjum, þó að eitt lotteríið bættist við þau tvö, sem þeir hafa fyrir. Annað þeirra “Koloniallotterlið„ er fyrir svertingja í Vesturálfu og hefði því mátt búast við því, að óánægja annara ríkja hefði ekki aukist, þó að hvítum Íslendingum yrði ekki gert lægra undir höfði. Það kemur heldur aldrei fyrir að nokkurt framandi land amist við löglegri lagasetningu annars lands, en eg veit ekki til að þjóðaréttur banni nokkru ríki að hafa hjá sér lotterí. Eða getur hæstv. ráðherra bent mér á nokkurt ákvæði í þjóðaréttinum, sem banni slíkt ? Lotterí eru til víða um lönd og víða verið að reisa ný. Allir vita að England og Sviss hafa um langan aldur verið hæli sérstaklega fyrir politíska strokumenn annara ríkja, og veit eg ekki til að þau lönd hafi nokkurntíma ratað í nokkurn vanda út af því, og er þó ólíku saman að jafna. Það hefði því ekki þurft að óttast, að það hefði leitt til nokkurra óþæginda fyrir Dani, þó að þriðja lotteríinu hefi verið bætt við.

Enn segir hæstv. ráðherra, að nefnd, sú er skipuð var í lotterímálinu hér í Nd. í fyrra, hafi ekki búist við miklum tekjum af lotteríinu. Þetta er algerlega rangur skilningur, og leyfi eg mér að víga til alþingistíðindanna frá í fyrra. Þar stendur í álíti nefndarinnar á þgskj. 144:

“Valt væri að byggja á mjög miklum tekjum af lotteríinu til frambúðar, sem föstum tekjum á fjárlögunum, enda vel til fallið, að eitthvað yrði látið ganga til fastra landsetofnana, svo sem til Landsbankans eða byggingarsjóðs„.

Það stendur svo á þessum ummælum nefndarinnar, að einn nefndarmaðurinn, háttv þm. S.-Þing. (P. J.), vildi ekki gera tekjurnar af lotteríinu að eyðslufé, heldur nota þær til þess að hlynna að einhverjum opinberum stofnunum, t.d. Landsbankanum. Vegna hana var tekið þannig til orða í nefndarálitinu. Eg veit að hann man eftir því og kannast eflaust fúslega við það. Þetta er því engin vottur um það, að nefndin hafi ekki búist við tekjum af lotteríinu.

Þá var það og heldur ekki rétt hermt, að landssjóður hefði enga tryggingu haft hvorki fyrir því að leyfishafar hefðu tekið leyfisbréf, né fyrir því að landasjóður hefði fengið sitt. Ráðherra mátti veita öðrum leyfisbréf samkvæmt e-lið 1. gr. og samkvæmt f- og g-lið sömu gr. áttu leyfishafar bæði að setja sérstakan tryggingarsjóð fyrir vinningunum og þar að auki tryggingu fyrir missirisgjaldi hverju, enda leyfið tapað ef út af bæri.

Hæstv. ráðherra segir, að sér hafi verið heimilt að draga uppburð lotterífrumvarpsins til næsta reglulegs Alþingis. Samkvæmt 10 gr. stjórnarskrárinnar, er alþingisfrumvarp ekki niðurfallið fyr en við setningu reglulegs Alþingis. Það er rétt. En þetta ákvæði í stjórnarskránni er engan veginn leyfisbréf til handa ráðherra til að draga uppburð mála von úr viti, og setja sig með því úr færi að fá þeim framgengt. Nei, þetta ákvæði er til vegna konungs. Stjórnarskrárgjafinn hefir búist við því, að svo gæti staðið á, að konungur þyrfti umhugsunarfrest og heimilað honum hann til næsta alþingis, en engan veginn ætlast til þess, að ráðherra mætti draga uppburð mála og allra sízt spilla framgangi mála með uppburðarleysi fyrir konungi, enda virðist slíkt háttalag af hendi ráðherra fullkomlega í bág við niðurlag 4. gr. ráðherraábyrgðarlaganna frá 4. Marz 1904, sem leggur hegningu við því, að ráðherra “lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það er fyrirsjáanlega geti forðað almenningi eða einstaklingi við tjóni„. Enda verður svo að vera, því að annars væri lagasynjunarvaldið í rauninni tekið af konungi og fengið ráðherra. Það var afaróheppilegt og meira að segja vítavert, að hv. ráðherra leitaði ekki staðfestingarinnar á lotterífrumvarpinu áður en hann fór heim í fyrrahaust, því að þá hefði hann fengið henni framgengt. En að vitni margra manna var hann hættur við að bera frumvarpið upp um mánaðamótin Október og Nóvember. Um það bil sagði hann frá því, að Bülow væri að búa út frv. á móti lotteríinu og því væri ekki hugsanlegt að staðfesting fengist á frumvarpinu. Hann gat þess við þrjá menn, og er einn af þeim hér nærstaddur alþingismaður. En þingmaðurinn hefir beðið mig að nefna ekki nafn sitt. Hina get eg nefnt (Ráðherrann: Það er bezt að nefna þá). Það voru þeir Philipsen og Magnús Stephensen yngri. Hinsvegar sagði hv. ráðherra einum leyfishafanum hér, herra Sighvati Bjarnasyni bankastjóra, alla leið fram á síðastliðið vor, að hann ætlaði sér að bera frumvarpið upp á vorferðinni. Við hina sagði hann hitt. Eg sagði hr. S. B., að eg tryði því ekki að ráðherra mundi bera frumvarpið upp, úr því sem komið var, því að Bülow hefði lagt fram frv. sitt 31. Jan. í vetur og Vitanlegt að það mundi ganga fram. Það átti að hamra járnið meðan það Var heitt, þá hefði staðfestingin fengist, en allra sízt mátti hv. ráðherra aðhafast nokkuð það, er líkst gat samtökum við réttargæzlumann Dana gegn hagsmunum Íslendinga; en það hefir hv. ráðherra gert, hann hefir komið svo fram í málinu, að grunur hlýtur að liggja á honum um miður hreinar og hollar hvatir. Hann getur því ekki með nokkru móti borið fyrir sig, að komin hafi verið út ný lög í Danmörku, þegar hann loks orðaði lotterífrumvarpið við konung síðastlið vor.

Hv. ráðherra segist hafa borið frumvarpið upp fyrir konungi í ríkisráðinu í utanför sinni í vor, en játar þó, að hann hafi hvorki gert það til staðfestingar né til synjunar, heldur hafi þeir að eins skeggrætt málið, segist að eins hafa beðið um leyfi konungs til að skýra Alþingi frá breyttum kringumstæðum og hafi konungur fallist á það form og lýst ánægju sinni yfir. Hvorki stjórnarskráin né nokkur önnur lög þekkja slíkan “uppburð„, enda hlýtur hver maður með heilbrigðri skynsemi að sjá, að þannig löguð reyfing alþingisfrumvarps er algerlega ónóg. Þetta, sem hv. ráðherra segir, að hann hafi rætt málið Við konung og að konungur hafi látið í ljósi ánægju sína yfir gjörðum sínum og falið sér að skýra Alþingi frá breyttum kringumstæðum, er ekki annað en lélegur kisuþvottur, enda öldungis óþarft að skýra oss frá dönsku lotterílögunum, því að þau voru komin í dönsku stjórnartíðindin áður en þeir konungur töluðu saman.

“Uppburður„ íslenzkra mála fyrir konungi er annaðhvort ráðlegging til staðfestingar eða synjunar. Tertium non datur (þriðji kostur ekki til); Sbr. Ráðherraábyrgðarlögin 3. gr. a, er lýsir því greinilega, að það er öldungis sama að leggja ekki mál fyrir konung til undirskriftar og enginn uppburður. Séu frv. eigi þannig borin upp fyrir konungi, væri lagasynjunarvaldið tekið af konungi og ólöglega fengið ráðherra í hendur, sbr. og ummæli ráðherra sjálfa á Alþingi 1911 (Alþt. I. 1911 B. 1617). Ráðherra hefir því ugglaust brotið bæði stjórnarskrána og ráðherraábyrgðarlögin. Hitt er annað mál, að lengi má teygja og toga jafnvel in skýrustu lög. Ein togunartilraunin er það, að ráðherraábyrgðarlögin geti ekki átt við hér, af því að 3. gr. a nefnir “tilskipanir„, eða veit hv. ráðherra ekki, að flestar tilskipanir eru settar samkvæmt lögum, hinum og þessum lögum til nánari útfyllingar.

Eftir því sem hv. ráðherra skýrði frá, var það umhyggjan fyrir góðum horfum í sambandsmálinu, sem latti hann til að fylgja lotterimálinu fram. En þær horfur gátu naumast verið til annarstaðar en í augum hyllingasýnna manna. Eg hefi aldrei haft vonir um betri kosti hjá Dönum, en látnir voru falir í millilandafrumvarpinu 1908. Eg greiddi minni hluta breytingunum 1909 að vísu atkvæði, en einungis í trausti þess, að þær væru fáanlegar, en eftir að það kom í ljós árið 1910, að þær höfðu aldrei verið fáanlegar, hefi eg aldrei haft von um betri kosti en þá sem buðust í frumvarpinu frá 1908. Eg vildi það frumv. óbreytt 1912, en fékk ekki nægilegt fylgi með því og gekk þá í sambandsflokkinn, þó með fyrirvara. Eg heimtaði bókað í sambandsflokksbókina 18. Ágúst 1912:

“Samþykki tillögurnar með þessum fyrirvara:

1. Greiði þeim atkvæði, sem lausum samningatilraunum, en í fullu vonleysi um framgang þeirra.

2. Tek frumv. frá 1908 óbreytt, hvenær sem fæst.

3. Tek ekki lakari kostum óneyddur„. Þetta álit bygði eg annarsvegar á því, að af Dönum væri ekki meira heimtandi, en gert var 1908, og að Íslendingum væri á hina hliðina ekki minna bjóðandi. Eg hafði enga trú á skírskotun hæstv. ráðherra til bréfs frá einum af dönsku ráðherrunum, enda fékst bréfið aldrei fram í dagsljósið.

En hvað sem sambandsmálavonunum frá 1912 líður, sem eg raunar aldrei hefi haft neina trú á, þá er það nú komið á daginn, að þær voru ekki þess virði, að 400 þús. kr. á fjárhagtímabilinu væri kastað á glæ fyrir þær, og því miður þess verðar, að stjórnarskrá og þingræði væri brotið þeirra vegna. Býst eg við, að öllum þorra þjóðarinnar muni finnast það og að minsta kosti þeim mönnum, sem finst Desemberboðskapurinn fullborgaður með 754 kr. 80 a. í ferðakostnað nokkurra þingmanna, og er eg einn þeirra, sem þá skoðun hafa. Hér má eg geta þess, að nægur tími var til að leita konungsstað festingar á frumvarpinu milli Desemberboðskáparins og útkomu dönsku laganna í Apríl, enda ráðherra aðvaraður um það.

Þá sagði hv. ráðherra, að ekki hefði mátt stofna til ráðherraskifta út af lotterímálinu, en þar til liggja þau svör, að oft hafa orðið ráðherraskifti um minni mál en nokkur hundruð þús. kr. fjárhagsspursmál, og um annað eins principspursmál og það, hvort skuli meta meira þing eða stjórn, enda hefðu ráðherraskifti ekki heldur verið óhjákvæmileg. Það hefði nægt, að háttv. ráðherra hefði skotið því til úrlausnar þingsins, hvort ráðherraskifti skyldu verða fyrir það, að hann hefði ekki fengið konungsstaðfestingu. Annars er það álitamál, hvort land og ráðherra hefði tapað nokkru Við stjórnarskifti, enda þó að landið hefði þá líklega orðið bæði af Desemberkostunum og gufuskipasamningunum. Þau mál hafa tæpast bætt fyrir ráðherra innanlands og viðskilnaðurinn við Desembersboðkapinn tæplega aukið áhrif hans erlendis.

Þá sagði ráðherra það vel farið í skýrslu sinni, að lotterífrumvarpið væri úr sögunni án þess að viðurkenning lægi fyrir af hendi Íslendinga um, að farið hefði verið út fyrir valdsvið Alþingis í því. En eg þykist hafa sýnt skýlaust fram á, að Alþingi hefir alls ekki farið út fyrir valdsvið sitt. Hæstiréttur hefir kannast við það með fyr nefndum dómum, og Bülow hefir játað það óbeinlínis, en skýrt, með tilstofnuninni til nýju lotterílaganna. Hins vegar hefir hv. ráðherra játað óbeinlínis, en skýlaust, með því að bera málið ekki upp fyrir konung til staðfestingar, að hann áliti að Alþingi hafi farið of langt, enda hefir hann lýst yfir því í skýrslu sinni 14. þ. m., að mótbárurnar gegn dómavaldi lotterístjórnarnefndarinnar séu óhraktar og sömuleiðis fjárhagalegar mótbárur Neergaards. Hann hefir því einmitt gert það sem hann hrósar happi yfir að hafa ekki gert.

Þá lauk hæstv. ráðherra máli sínu með því að segja, að óheppilegt væri, hve prívatfrumvörp væru mikið notuð hér á þingi, því að af því leiddi oft, að lög kæmu í bága hver við önnur. En eg get hér þegar úr sæti mínu bent á, að sum stjórnarfrumvörp, jafnvel á þessu þingi, koma beint í bága við gildandi meginreglur laga. Læt eg mér nægja að benda til frv., sem er til umr. í dag, um mannanöfn. Þar stendur að foreldrar hafi “foreldravald„ yfir börnum sínum til 18 ára aldurs, en eg hygg að allir löglærðir menn og mjög margir ólærðir á þessu landi, nema ef til Vill hv. ráðherra, verði mér samdóma um, að foreldrar hafi ekki vald yfir börnum sínum nema til 16 ára aldurs. Eg býst Við að þessi villa sé ekki runnin frá honum sjálfum, heldur aðstoðarmönnum hans, en eg nefni þetta til að sýna, að stjórnarfrumv. eru eigi alt af betur úr garði gerð en frumv. þingmanna.

Eg var beðinn um að verða flytjandi lotterímálsins þegar í þingbyrjun í fyrra. Er mér engin launung á, að sá sem fyrst bað mig um það, var Sighvatur Bjarnason bankastjóri. Eg dró lengi að flytja frumvarpið, áskildi mér tíma til að rannsaka, hvort það kæmi eigi bága við dönsk lög, og vísaði auk þess beiðanda til ráðherra til þess að heyra álit hans. Og þá fyrst,' er bæði mér og ráðherra, að sögn, sýndist það óbætt, tók eg við málinu til flutnings, enda orðaði enginn lagamaður innan eða utan þings nein vandkvæði á frumvarpinu að þessu leyti.

Háttv. þingm. Dal. (B. J.) sagði að vísu meðal marga annars, að frumv. kæmi í bág við dönsk lög, og sagði hæstv. ráðherra þá, að það liti út fyrir, að orð kæmu frá einhverjum öðrum stað en höfðinu. Síðar var mér skrifað frá Kaupmannahöfn í Nóvember, að vafi væri á því vegna danskra laga, hvort við gætum fengið þessi lög staðfest. Fór eg þá og leitaði í hæstaréttartíðindum og fann fyrnefnda dóma. Þótti mér vænt um að sjá, að álit mitt á frv. Var á sama veg og álit hæstaréttar.

Fyrir mitt leyti álit eg ekki svar hæstv. ráðherra fullnægjandi. Eg mun því bera fram rökstudda dagskrá, og get eg gjarnan, með leyfi forseta., lesið hana upp strax. Hún hljóðar svo:

“Deildin telur frammistöðu ráðherra í lotterimálinu mjög aðfinsluverða; en tekur þó fyrir næta mál á dagskrá í því trausti, að slíkt komi eigi fyrir aftur„

Þegar umræðum er lokið, vil eg biðja háttv. forseta að láta ganga til atkvæða um dagskrána með nafnakalli.