30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í C-deild Alþingistíðinda. (397)

7. mál, fasteignaskattur

Matthías Ólafsson:

Það eru að eins örfá orð viðvíkjandi því sem háttv. 2. þm. S.-MúI. (G. E.) beindi til mín. Hann sagði, að það sem eg tók fram um þetta mál, hefði ekki verið óskiljanlegt frá mér sem kaupmanni. Það er langt frá því, að mér sárni þetta, eg tek það miklu fremur mér til inntektar, og ekki einu sinni mér, heldur allri kaupmannastéttinni. Það ætti að vera fyrsta boðorð þeirrar stéttar, að gera sér far um að láta tekjuendann og útgjaldaendann standast á; helzt, ef unt væri, að gera tekjuendann dálítið lengri. Og þess vegna er eg með frumvarpinu að eg vil ekki að tekjuendinn hjá landasjóði verði styttri en útgjaldaendinn. Það hefir verið sýnt með rökum að mikil þörf er á tekjuauka, og það hefir líka verið sýnt með rökum að þetta er beinasti og sanngjarnasti vegurinn til þess. Skattur, sem lagður er á eign, er réttlátastur allra skatta. Eg skal bæta því við, að eg tel það mjög stóran kost að skatturinn er tilfærilegur, að hægt er að hækka hann þegar brýn þörf er á peningum í landssjóð. Þá þarf aldrei að gripa til annars eins óyndisúrræðis eins og vörutollslögin voru í fyrra, því að það var sannkallað óyndisúrræði. Mótbárur, þær sem fram hafa komið, get eg ekki séð að hafi verið nokkurs virði. Það hefir verið sagt, að þetta kæmi hart niður á þjóðinni. Það er vana-viðkvæðið um alla skatta. Þjóðin heimtar aukin útgjöld og þá verður hún að skilja og sætta sig við, að eitthvað hljóti að koma í staðinn. Og hún gerir það líka. Eða hefir háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) eitthvert umboð til þess að auka útgjöldin án þess að auka tekjurnar. Eg hygg ekki. En ef hann kemur fram með frumvarp, sem gefur landssjóði tekjur án þess að nokkur borgi þær, þá skal eg fúslega greiða því atkvæði mitt og það munu fleiri gera.