30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (407)

7. mál, fasteignaskattur

Guðmundur Eggerz:

Eg vildi gera háttv. þingm. S.-Þing. (P. J.) það skiljanlegt, að eg skildi lítið af speki hans og röksemdafærslu. Verði þetta frumv. að lögum, mun það bæta lítið hag landsins og lítið áunnið fyrir landssjóð. (Pétur Jónsson: Að þessu sinni). Já, hvorki að þessu sinni eða framvegis. Og heldur er það dýrt “Princip„, sem kostar 60 þús. kr., og það gerir þetta. Vildi eg óska þess að háttv. þm. hafi ekki mörg þess háttar Princip, þau eru landinu of dýr. Furðaði mig líka á því, þegar háttv. þingmaður var með þessum líka spekingssvip að tala um húsaskattinn. Hélt hann því fram, að á húsum hvíldu vanalegast ekki meiri skuldir en svo sem svaraði 1/4 af verði þeirra, og ástæðan fyrir því væri sú, að bankarnir veittu ekki meira lán. Eins og einu skuldirnar, sem hvíldu á húsum, væru bankaskuldir! Nei, því það eru líka til prívatlán. Og venjulegast mun það nú vera, að hús séu veðsett fyrir því verði, sem þau eru metin, t. d. að hús, sem er virt á 10 þús. er líka veðsett fyrir 10 þús. kr. Þetta á sér að minsta kosti oft stað.

Tók eg það fram í ræðu minni í dag, að húsaskattur, sem áður næmi 2,25 kr. myndi með þessu frumvarpi nema 6 kr., en háttv. þingmaður hefir ekki veitt því athygli, og hefði hann þó hér getað lært af honum yngri þingmanni.

Annars gladdi það mig að háttv. þm. sló því föstu, að með þessu frumvarpi væri gerð að eins byrjunin ein til þess að hækka föstu skattana. Þessu hélt eg einmitt fram.

Háttv. þingmaður beindi því að mér, að það væri af því að eg væri ungur þingmaður, að eg vildi taka tillit til þjóðviljans. Skildist það á honum, að hann metti hann einskis. Ætla eg mér ekki að þrátta um það við háttv. þm., né heldur um það, sem hann sagði, að eg hefði ekkert um málið hugsað.

En út yfir tók þó, er háttv. þingmaður fór að rökstyðja sitt mál með því að kjósendur í Suður-Þingeyjarsýslu væru betur að sér og færari um að dæma landsmál en aðrir kjósendur. Er það víst af því að háttv. þingm. er búinn að vera kennari þeirra í stjórnmálum svo lengi !