31.07.1913
Neðri deild: 23. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í C-deild Alþingistíðinda. (431)

84. mál, stimpilgjald

Flutningsm. (Ólafur Briem):

Þetta frumvarp er samið af milliþinganefndinni í Skattamálum frá 1907, og tilgangurinn er eingöngu sá, að afla landasjóði tekna. Og þær tekjur eru áætlaðar 25–30 þús. kr.

Eins og sjá má á frumvarpinu eru Viðskifti manna grundvöllurinn undir þessum tekjuauka, og ástæðan til þess, að leggja gjald á viðskifti manna á milli, er aumpart sú, að embættismenn hafa allmikla fyrirhöfn af því, að veita þeim gildi, sem veitt er með þinglýsingum og staðfestingum á skjölum o. s. frv. Og í öðru lagi virðist sanngirni mæla með því, að leggja nokkurn skatt á slík skjöl, sem hér er átt við, með því að þeim fylgir að jafnaði einhver hagnaður eða von um hagnað, svo sem er um arf, veiting fyrir embætti o. s. frv.

Þetta gjald, sem dregur nafn sitt af því, hvernig það er innheimt — sem sé af skjölum, þeim er notaður er til stimplaður pappír eða merktur með sérstöku merki, — er annars að eðlinu til skylt aukatekjugjöldum. Grundvöllurinn er inn sami, og því var það, er aukatekjufrumvarpið var lagt fyrir þingið 1911, þá var bætt inn í stj.frumvarpið þessu bráðabirgðafyrirmæli, er eg vil lesa með leyfi hæstv. forseta:

Þar til lög um stimplagjald koma í gildi, skal innheimta gjöld þau fyrir þinglestur og vottorð, er nefnd eru í 3. kap., að viðbættum 50 af hundraði, þar með teljast þó ekki gjöld fyrir afnám né aflýsing.

Í meðferð málsins þá var þessi grein feld burtu úr frumvarpinu, líklegast af því, að það hefir vakað fyrir mönnum, að þess yrði mjög skamt að bíða, að stimpilgjaldið kæmist á, og þess vegna væri ekki brýn nauðsyn á þessu bráðabirgðaákvæði í þau lög. Nú hefir nefndin fundið sér skylt að koma fram með þetta frumv. Að vísu er ekki að vita, hver þörf er á tekjuauka í þetta sinn, en nefndin hefir álitið að rétt sé að koma fram með það nú þegar til þess að það skuli vera til taks ef þörf gerist.

Eins og eg sagði, eru þessar tekjur svipaðs eðlis og þær sem gert er ráð fyrir í aukjatekjulögunum, og gæti þá ef til vill komið til mála, að lögleiða ekki þetta frumv., heldur hækka aukatekjur landssjóðs í staðinn að sama skapi. Nefndin hefir þó hallast að þessu frv., sérstaklega af tveim ástæðum, þótt nokkrir annmarkar séu á því. Fyrri ástæðan er sú, að það nær til fleiri skjala en aukatekjulögin, t. d. óþinglesinna arfsamninga, heimildabréfa fyrir skipum, kaupmálabréfa og prívatsamninga og ýmiss konar veitingar- og leyfisbréfa, sem aukatekjulögin ná eigi til. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að stimpilgjaldið verði mismunandi hátt, sem sé 1/2% og 1/4% eftir þýðingu skjalanna, þar sem aukatekjulögin aftur á móti taka sama gjald af öllum eftir verðhæð, en án tillits til innihalds að öðru leyti.

Þótt nefndin í skattamálunum klofnaði í öðrum málum, þá hefir hún þó verið samhuga í því, að halda fram þess u frumv. Eg vona því, að það fái góðar undirtektir fram eftir þinginu, þangað til séð verður, hvort eða hversu mikil þörf verður á því nú.