31.07.1913
Neðri deild: 23. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (433)

84. mál, stimpilgjald

Flutningsm. (Ólafur Briem):

Út af því sem hæstv. ráðherra sagði, skal eg geta þess , að eins og lögin um aukatekjur eru nú, eru þau nákvæmlega samhljóða frumv. milliþinganefndarinnar frá 1907, að öðru leyti en því, að gjaldið fyrir þinglýsingar fer nú stöðugt hækkandi og verður því hærra þegar um stórar upphæðir er að ræða. Milliþinganefndin hafði ætlast til, að það hækkaði um 1 kr. á hvert þúsund upp að 10 þús. kr., en yrði 12 kr. af þeim upphæðum, sem fara þar yfir. Þetta er eina breytingin, sem gerð hefir verið, að gjaldið hefir verið látið hækka áfram, en ekki látið sitja við 12 kr. hámarkið.

Í þessu frumv. frá 1911 var það till. stjórnarinuar, að gjald fyrir þinglýsingar yrði hækkað um 1/3, en þingið slepti því, með það fyrir augum, að stimpilgjald yrði lögleitt. Og stjórnin bjóst þá að minsta kosti líka við því, sbr. orðin sem eg las upp áðan úr stjórnarfrumvarpinu: »Þar til lög um stimpilgjald koma í gildi o.s.frv.«. Þegar nefndin athugaði þetta, gat hún ekki séð, að þótt stimpilgjald yrði lögleitt nú, þá gæti það komið í bága við það, sem áður er komið fram í málinu, hvorki frumv. milliþinganefndarinnar né stjórnarfrumvarpið frá 1911, og allra sízt við meðferð þingsins á því máli.