05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í C-deild Alþingistíðinda. (555)

90. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Bjarni Jónsson:

Sumt hefnir sín og sumt hefnir sín ekki. Það hefnir sín ekki á háttv. þingm. Vestm. (J. M.), að sambandsflokkurinn og sambandslið hans drap fyrir mér frumv. um vegagerð í Dölunum. Það var sýnt fram á það, hve vegspottinn væri nauðsynlegur, ekki einungis fyrir sýslubúa, heldur og fyrir ferðamenn, er fara um sýsluna. Var þar meir lítið á alþjóðar þörf, en á hag míns kjördæmis, og varð því klámhögg úr tilræði sambandsdrekans.

Eg hefni mín ekki, af því að mér er svo umhugað um hafnargerðir og allar umbætur á sjó, að eg gæti alls ekki unnið það til, fyrir nokkurn mun, að vera á móti nokkru verulegu atriði, er standi til umbóta í sjávarmálum, jafnvel þótt eg stæði hér á eigin ábyrgð og væri engra manna fulltrúi, hvað þá eins og nú stendur á.

Umflotið land er ekki sjálfbjarga, nema það eigi sinn eigin skipaflota, en skipafloti kemur eigi að haldi, nema að hafnir séu til fyrir skipin að leggjast í. Það er nauðsynlegt að gera höfn í Vestmannaeyjum, af því að þær eru fyrsti staðurinn við landið, sem skip kemur til á leið frá útlöndum, og í nánd við þær halda fiskiskipin sig oft að veiðum.

Það er því nauðsynlegt að hafa höfn þarna, til þess að skip, sem eitthvað væri að, gætu fengið þar nauðsynjar sínar, ekki sízt skip, sem stödd væru í sjávarháska.

Af þessu leiðir, að eg gæti ekki verið með því, að landssjóður legði einn eyri til að gera bátahöfn í eyjunum Ef höfnin á ekki að geta nægt botnvörpungum og venjulegum skipum, sem ferðast til landsins, verð eg ekki með að henni verði lagt neitt fé úr landssjóði. En nú vill svo vel til, að eg hefi heyrt eftir skilgóðum manni, sem þekkingu hafði á málinu, að með litlum kostnaði, mætti dýpka svo pollinn, að hann yrði fær um að fleyta venjulegum milliferðaskipum á stærð við þau, sem nú dallast hér við land. Tel eg því sjálfsagt að hlúa að því fyrirtæki og veita fé til þess úr landssjóði, ef tæki eru á því.

En það er eitt, sem getur hefnt sín í þessu máli, og það er, hvað menn voru skammsýnir, er rætt var um að setja þar loftskeytastöð. Þá fyrst væru Vestmannaeyjar á sinni réttu hillu, ef þar væri góð höfn og bein loftskeytasambönd við aðra landshluta, þannig að hvert skip, sem væri að fiska á þessum slóðum, gæti farið þangað og afgreitt öll sín erindi þar. Ekki sízt ef náð yrði samböndum við skip í hættu stödd, svo að í eyjunum gæti orðið bjargráð fyrir skip meðfram allri suðurströnd landsins. Þetta hefnir sín, því að þá hefði málinu nú verið vís sigurganga gegnum þingið. Vona eg að það komi þó ekki til, því að hefndin er ekki mín, og eg mundi að engu leyti gleðjast af því.

Í hvaða nefnd málið er sett, stendur mér á sama. Eg fylgi þar tillögum flutningsmanns, enda þótt þetta mál sé svo vaxið, að önnur nefnd ætti að fjalla um það. En því munu fylgja svo góð skjöl, að nefndarstarfið sé ekki í öðru falið en að ákveða, hvort veita skuli féð eða ekki.