05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í C-deild Alþingistíðinda. (568)

96. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Stjórn Landsbankans hefir falið mér að flytja þetta frumv. Tilefnið til þess er, að nú sem etendur hefir veðdeildin ekki heimild til að láta skoða veðin á kostnað lántakanda, né heldur til að fá að vita um viðhald þeirra á þeirra koatnað. En hagur veðdeildanna, einkum 2. og 3. Veðdeildar er ekki svo góður, að þær geti kostað skoðunina. Fyrir slíkri skoðun var ekki gert ráð, er 1. veðdeild var stofnuð, á lántakanda kostnað, sem stafaði af því, að þá var vel séð fyrir varasjóði þeirrar deildar, sem því gat borið nokkurn kostnað fyrir eftirlit, en minna séð fyrir varasjóði 2. og 3. deildar, en þess þó ekki gætt, að leggja kostnaðinn á lántakendur.

Það má telja að 1. veðdeild standi sig vel; innborgaður varasjóður hennar er nú um 62 þús. kr. Síðan 2. veðdeild var stofnuð eru liðin 8 ár, og er varar sjóður hennar orðinn að eins um 5,400 kr., sem innborgaður er, auk nokkurs, sem er óinnborgað. 3. veðdeild, sem er 4 ára, á ekkert í varasjóði, er sé innborgað. Af þessu má sjá, að veðdeildirnar þurfa að fá slíka heimild, sem hér er farið fram á. Í reglugerð bankans er ákvæði, sem heimilar að láta sýslunefndir skoða veð til sveita, og bæjarfógeta í kaupatöðum. Þessu ákvæði hefir aldrei verið beitt í framkvæmdinni, enda er naumast hægt að ætlist til þess. að sýslunefndir mundu gera sér mikið far um slíka skoðun án endurgjalds, en bæjarfógetar hafa ekki tíma til slíks starfa án borgunar. Hreppstjórum er og gert að skyldu að framkvæma skoðun fyrir borgun, sem veðdeildin greiði, en reikningarnir verða að úrskurðaat í hvert skifti af stjórnarráðinu, sem er snúningasamt. Ákvæðið er mjög óhandhægt, enda hefir það aldrei verið notað.

Ef frumv. þetta yrði að lögum, mundi því verða beitt svo í framkvæmdinni, að veldeildirnar mundu á tilteknu tímabili, t. d. 5 ára fresti, beiðast fullnægjandi vottorð um veð. Meiningin er alls ekki að láta nýja virðing fara fram, heldur að eins skoðun um, hvort veðið hafi ekki rýrnað, sé viðhaldið o. s. frv. Ef þessari beiðni væri ekki sint, eiga veðdeildirnar að hafa vald til að kveðja til menn að skoða veðin, menn þar á staðnum, og gefa skýrslu um þau, t.d. segja til, hvort hús séu máluð, gluggar í lagi o. s. frv., yfirleitt um alt, sem að viðhaldi lýtur. Þessi kostnaður mundi verða lítilfjörlegur fyrir hvern einstakan, en mundi draga sig saman og muna miklu, ef hann legðist á veðdeildirnar. Eg skal geta þess, að í lögunum um söfnunarsjóðinn er ákvæði í þessa átt; honum er heimilt að láta skoða veðin á kostnað lántakanda. Er ætlast svo til hér, að þau séu skoðuð á 5 ára fresti, og er það ekki þungbær skattur fyrir lántakanda, t. d. borgaði eg fyrir slíka skoðun á mínu húsi, sem metið er á 27 þús. kr., að eins 3 kr. Eg skal taka það fram, að eg álít þessa ákvæðis sérstaklega þörf í kaupstöðum og verzlunarstöðum. Yfirleitt fara jarðir batnandi hér á landi. Til sveita mundi nægja, að t. d. hreppstjóri gæfi skýrslu um það, ef einhver jörð væri að komast í niðurníðslu; það væri þá helzt timburhúsin til sveita, sem viðhald kann að vera lakara á en í kaupstöðum.

Það kann að vera, að mönnum þyki eitthvað athugavert við orðalag frumv. og vilji því kjósa nefnd í málið eða vísa því til bankanefndarinnar. Eg hefi ekki neitt á móti því.