05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í C-deild Alþingistíðinda. (591)

58. mál, hvalveiðamenn

Framsögum. (Guðm. Eggerz):

Það virðist erfitt að koma hv. þm. V.-Ísf. (M.ÓI.) í skilning um, að þetta sé réttlátt frumvarp. Hann getur þó ekki mótmælt því, að hér er um að ræða miklar tekjur fyrir Íslendinga, ef hvalirnir eru friðaðir um tíma og svo aftur síðar meir íslendingum leyft að veiða þá. Og er hér ekki um neinar smáræðis upphæðir að gera, því enginn neitar því að útlendu hvalveiðamennirnir hafa tekið hér við land svo þúsundum króna, já, miljónum króna skiftir. Og hvað hafa þessir útlendingar svo gefið í staðinn ? Úldið hvalketitð! Menn hafa sagt hér, að þessir hvalveiðamenn væru svo myndarlegir og örlátir. Einir 2 þeirra hafa gefið nokkur hundruð kr. til einhverra almennings heilla. Það er alt og sumt.

Um skaðabótakröfurnar má háttv. þm. V.-Ísf (M. Ól.) trúa því sem eg segi, þó eg sé eini lögfræðingurinn í deildinni, sem hefi enn sem komið er talað um það mál. Eg hélt yfirleitt að eg væri búinn að koma háttv. þm. í skilning um, að útlendu hvalveiðimennirnir gætu enga skaðabótakröfu átt gegn landssjóði samkvæmt stjórnarskránni, þótt frumv. verði að lögum. En ef það er það, sem háttv. þingm. er svo hræddur um, að hann missi hvalaketið, þá vil eg hughreysta hann með því, að ef frumvarpið verður að lögum, skal eg annast um að háttv. þingmaðurinn fái svo mikla hlutdeild í fyrsta dauða hvalnum, sem rekur upp á Austfirði, að hann og öll hans ætt geti lifað á hvalketi fyrstu áratugina.