06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í C-deild Alþingistíðinda. (612)

57. mál, girðingar

Jón Ólafsson:

Eg stend aðallega upp til þess að segja fáein orð út af fyrri hlutanum af ræðu háttv. þm. Dal. (B. J.). Það var orðið stika, og þá sérstaklega »hundstika«, sem eg ætlaði að minnast á.

Eg er að vísu eigi svo fáfróður, að eg viti ekki, að í fornmálinu voru til orð svo sem hundviss, hundmargur o.fl. með merkingunni margvís, fjölmargur, og fleiri. En það er eins víst, að þessi merking er horfin úr málinu nú, að undanteknu orðinu »hundleiður« margleiður, því að menn segja enn t. d. að þeir sé »hundleiðir« á orðskrípum þm. Dal. (B.J.) yfir metramálsorðin. Má og vera að til sé enn önnur slík orð. En ef eg t. d. segði, að mér væri farið að leiðast hundgjamm (= sífelt gjamm) háttv. þingmannsins, er eg viss um að eg yrði dæmdur fyrir meiðyrði, og að það mundi alls ekki stoða mig ið minsta, þótt eg segði að eg hefði ekki meint annað en ið margítrekaða gjamm, sem auðvitað hefði verið alveg saklaust að segja.

Eg held því, að það sé ekki praktiskt að innleiða þessi orð. En það er heldur ekki af formlegum ástæðum hægt að greiða atkvæði með tillögu háttv. þm. Dal. (B. J.). Með lögum 16. Nóv. 1907 voru lögleidd heiti á metrakerfinu, og það eru þau einu heiti, sem löglegt er að nota. Í 3. gr. þessara laga stendur:

»Stjórnarráð Íslands getur ákveðið, hver íslenzk heiti megi nota jafnhliða útlendu heitunum og hverjar styttingar skuli hafa til að tákna frumeiningar þær og skiftinefni, sem talin eru í þessari lagagrein«.

Þessa heimild hefir þáverandi ráðherra misbrúkað. Segi eg honum það ekki til ámælis. Hann gaf út auglýsingu um, hvaða heiti skyldi nota, en hafði að eins leyfi til að ákveða, hver mætti nota.

Það dugir ekki að vera að innleiða nýjan hrærigraut, nema tekin séu þá jafnframt úr lögum þau ákvæði, sem koma í bág við hann. Auk þess er rangnefni að kalla sentimetra hundstiku. Hundstika hlýtur að þýða margar stikur, en ekki hluti úr stiku. Það er æðimargt sem er á móti þessari tillögu, en sérstaklega það, að hún fer fram á að innleiða ný heiti auk þeirra lögboðnu og lögleyfðu.