08.08.1913
Neðri deild: 29. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í C-deild Alþingistíðinda. (704)

33. mál, málaflutningsmenn við landsyfirréttinn í Reykjavík

Lárus H. Bjarnason:

Eg get ekki séð neina áttyllu fyrir hæstv. ráðherra til að leggjast á móti viðaukatill. á þgskj. 268, jafnsjálfsögð og hún er og í fullu samræmi við líkt bráðabirgðarákvæði í lagaskólalögunum frá 1904 og í lögunum frá 1911 um embættisgengi lagakandidata frá Khöfn: Þótt erfitt sé að sanna það, að stúdentar hafi gefið sig við laganámi meðfram í því trausti að geta alténd orðið yfirréttarmálaflutningsmenn, þá er það vafalaust, að þetta getur hafa haft áhrif á val þeirra.

Það er enginn vafi á því, að frumv. þetta gerir þeim erfiðari viðleitnina til að bjarga sér, því að það held eg að sé rangt hjá hæstv. ráðherra, að lagastúdentar geri sér nú von um embætti upp úr embættisprófi. Hitt er sennilegra, að þeir búist við að geta fremur haft ofan af fyrir sér með málaflutningi, þótt margir séu um hituna, altént þeir duglegu, og það geta þeir fremur, megi þeir flytja mál svo fyrir yfir- sem undirrétti.

Sé það rétt, að stjórninni beri ekki skylda til að veita heimild til málaflutnings í yfirdómi eftir núgildandi lögum, þá er það áreiðanlegt, að þessi litla viðaukatillaga gerir enga breytingu í því efni. Stjórnin getur alveg eins neitað um leyfið eftir sem áður.

Eg tek í sama streng og háttv. þm. Borgf. (gr. J.) — spái því, að frumv. eigi erfitt uppdráttar án þessarar Viðaukatillögu. Verði hún ekki samþykt, þá er eg sannfærður um, að frumvarpið verður felt, að minsta kosti mun eg þá greiða atkvæði móti því.