11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í C-deild Alþingistíðinda. (727)

57. mál, girðingar

Ólafur Briem:

Á þgskj. 320 er gert ráð fyrir því, að menn megi girða alveg ótakmarkað og leyfislaust yfir vegi. Þetta er breyting á vegalögunum, og — að því er eg álít — til ins verra. Það hefir verið borið fyrir, að enn sem komið er hafi eigi verið neitað um slíkt leyfi, en það er þó ekki rétt. Eg þekki fleiri dæmi til þess, að synjað hefir verið um slík leyfi, og því er það ekki á rökum bygt, sem sumir háttv. þm. hafa sagt, að þetta sé tóm skriffinska. Ástæðan til þess, að þan hefir fremur sjaldan komið fyrir að stjórnarráðið eða sýslunefndir hafa synjað um þessi leyfi, er sú, að sjaldan hefir verið sótt um þau nema einmitt þar, sem ástæður hafa mælt með því að þau yrðu veitt. Það hefir oft komið fyrir, að hlutaðeigendur hafa séð sér hag við að leggja girðingar yfir vegi, en þó ekki sótt um leyfi til þess, af því þeir hafa séð það, að girðingarnar með þeirri tilhögun yrðu almenningi til mikils óhagræðis og mundi því ekki fást leyfi til að tálma þannig umferð vegfarenda.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) skaut því fram, að það kæmi ekki til nokkurra mála, að menn sæktu eftir að girða yfir fjölfarna vegi. En hvaða trygging er fyrir því? Ekki in allra minsta. Menn eru nú einu sinni svo gerðir, að þeir sleppa ekki sínum eigin hagsmunum, þó að hagsmunir almenninga séu í veði. Eg efa því alls ekki að margir mundu nota sér þetta, og gæti það viða komið sér afar-illa. Það hefir verið nefnt, að á flutningabrautunum fyrir auatan fjall væri hliðafjöldinn svo mikill að það væri til mikilla tálmunar. Og víða er því svo háttað í öðrum héruðum, þar sem margir hreppar eiga að sækja til sama kaupstaðar og stutt er á milli landamerkja, að hliðin yrðu svo þétt að það yrði frágangasök, ef engar skorður væru reistar við þessu. Fjarlægðin milli hliðanna yrði ekki mæld í mílum, heldur í faðmatali.

Háttv. þm. A.Sk. (Þ. J.) gat þess enn fremur, að sýslunefndum mætti treysta til að gæta hagsmuna manna í þessu efni. Hér er ekki ætlast til að þeirra leyfi þurfi. En eg er á því að sýslunefndum væri treystandi til að meta hagsmuni einstakra manna manna annaravegar og almennings nauðsyn hins vegar. Það er engin hætta á því, að sýslunefndir mundu beita rétti sínum í bága við hagsmuni manna. Það væri ef til vill þægilegra að vera engum tak mörkum háður í þessu efni. En það er alment, að lög séu sett til þess að vernda alþjóðarnauðsyn gagnvart einstaklings hagsmunum, og svo verður það að Vera í mörgum greinum.