11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í C-deild Alþingistíðinda. (770)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Flutningsm. (Lárus H. Bjarnason):

Eg ætla að eins að geta þess, að þetta frumv. er ekki annað en framþróun af lögunum, sem sett hafa verið á öðrum svæðum. Eftir lögunum um prestskosningar 1907 geta söfnuðurnir ráðið því, hvern prest þeir fá. Eldri kosningarlögunum var breytt til þess að vekja ábyrgðartilfinningu kjósenda, og held eg að það hafi ekki gefist illa, enda mundi reyndin verða lík hér.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) sagði, að mér bæri að sanna, að fyrirkomulag, það sem farið er fram á í frumv., sé betra en það sem nú er, þá er það að vísu rétt, ef metið er á lögfræðislegum mælikvarða. En eg ætla samt ekki að verða við þeim tilmælum háttv. þm., af því eg vil ekki tala um fjarverandi mann, en benda að eins á einróma ósk bæjarbúa, sem mun vera nokkur vottur um álit þeirra á því, hversu borgarstjórakosningin tókst 1908.