12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í C-deild Alþingistíðinda. (797)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Jón Ólafsson! Herra forseti! Eg er vel ánægður með ritsímalögin frá 1912. Það eru þörf lög og góð og þarfnast engrar breytingar. Eg sæi því ekki eftir, þótt þetta frumv. yrði felt. En hvað sem frumv. stjórnarinnar líður, þá er eg samdóma háttv. þm. Sfjk. (V. G.) í því, að það hefir orðið að hálfgerðu viðundri í Ed. Og eg er sannfærður um það, að ef Nd. fer með það á líkan hátt, þá verður það að algerðu viðundri. Eg býst við að flestir háttv. þm. hafi einhverja stúfa, sem þeir vilji koma að. Háttv. samþingismaður minn og eg höfum á prjónunum 4–5 tillögur í þessa átt, sem við munum bera fram, ef frv. á að ganga áfram í sömu átt og í Ed. Eg vildi óska — eg heyri að málið eigi að ganga til nefndar — að niðurstaðan verði sú, að engin breyting verði gerð á símalögunum, nema þá sú, að stjórnin megi, eftir samráði við símastjóra, flytja til milli flokkanna. Nefndin gæti í nefndarálitinu komið fram með tillögur í þessa átt, hvernig heppilegast mundi að flytja til, og gæti stjórnin haft það til hliðsjónar.

Hvað þetta símalán snertir, þá get eg ekki neitað því — jafnvel þótt sérstaklega standi á hér — að mér finst það óviðkunnanlegt og óþolandi, að fara að veðsetja hluta af landssjóðstekjunum. Og þá sérstaklega af því, að engin þörf er á þessu láni. Ef tekjum símans er varið til símaþarfa og lagningar nýrra síma, munu þær nægja bæði til viðhalda og aukningar símum, þar sem þess er þörf. Eg álít það yfir höfuð ráðleysu ina mestu, að fara að leggja síma um óbygðir, sent að eins getur orðið til byrði. Þó getur auðvitað staðið svo á, að símalagningar um einstaka ófærur og óbygðir séu nauðsynlegar, og efast eg ekki um, að landstjórnin leggi út í þær, þegar hún sér fært, en ekki fyr en efni leyfa. Það liggur ekkert á næstu árin. Þessar athugasemdir minar vona eg að væntanleg nefnd taki til íhugunar.

Frá Garðsauka til Víkur í Mýrdal er bráð nauðsyn á síma, sakir samgangnanna á sjó. Svo mun og þörf á að leggja síma norður Strandir um Norður-Múla- og Þingeyjarsýslur.

En alt annað þolir bið þar til símatekjurnar smám saman bera aukning símalagninga.