13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í C-deild Alþingistíðinda. (839)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Einar Jónsson:

Mér er ókunnugt um það, hvað margir hafa slegið sig til riddara hér í deildinni í dag. en eg væri ánægður þótt þeir væru ekki svo margir að eg þyrfti að vaka yfir þeim í alla nótt. Mér finst að þeir ættu að láta sér nægja það, að hæstv. ráðh. hefir nú svo gersamlega hrakið allar aðfinningar þeirra bæði um friðinn, lánstraustið, gufuskipasamninginn og alla snaga, sem mótstöðumenn hans hafa ætlað sér að láta hatta sína hanga á í dag. Alt er hrakið, svo að eg þarf ekki að nefna það með einu orði. Það er sama um ræðu háttv. l. þm. Rvk. (L. H. B.) Það var bar kjósendaræða.

Mig furðar á því að nú skuli vera farið að tala um fánamálið, þar sem mótstöðumenn hæstv. ráðherra greinir einmitt á í því. Eg álít nú, í stuttu máli sagt, að þeir geri fánamálinu skaða, sem eru að burðast með siglingafánann. Það er þó ef til vill einhver von um árangur, ef frumv. meiri hlutans næði fram að ganga án þeirra breytinga, sem þeir vilja gera. En þetta er stórum óhyggilegt af þeim, að koma með þennan siglingafána og það enda þótt eg játi að vér vildum hann helzt. Þeir hljóta að skilja það, að það er ekki til nokkurs hlutar að bera slíkt upp fyrir konungi. Annars áttu þeir að þegja um það í þetta sinn, það er ekki vert að eyða næturtímanum í það að ætla sér að skipa konungi að samþykkja það sem allir vita að hann telur sér ekki fært að samþykkja vegna afstöðu land. anna Íslands og Danmerkur.

Eg skal ekki halda langa ræðu, en vildi að eins taka það fram, að öllu þessu sem talað hefir verið um þjóðræðis og þingræðis brot, er nú hnekt. Þingræðisbrot er það að ráðherra. Sitji, þegar hann er í minni hluta. í þinginu, og það er núverandi ráðherra ekki. Og hann beygir sig ekki fyrir öðru en vantrausti frá meiri hlutanum, eins og rétt er. Það fer betur á því, þegar svo stendur á eins og nú, að engin vissa er um eftirmanninn, en að setja einhverja hræðu upp í ráðherrasætið, eins og einu sinni var komist að orði; og flana eftir því því þó einhver kunni að vilja núverandi ráðherra ofan úr því, álít eg ekki þingræðisbót. Það á ekki að fara eftir ofsóknum minni hluta, sízt ef hann færir ekki betri rök fyrir máli sínu en þetta.

Eitt á eg eftir og það er háttv. þm. Sfjk. (V. G.). Mig furðaði á því þegar hann kallaði það kotungshátt að taka 1/2 mill. kr. lán. Þetta er af því að hann býr í landi, sem er auðugt og þekkir ekki ástand þjóðarinnar hér. Þetta er ekki lítið fé fyrir okkur. Mig furðaði líka á því, þegar hann sagði að lánskjörin myndi ekki verða eins góð í framtíðinni eins og hingað til, en álasar þó hæstv. ráðherra fyrir afskifti hans af þeim lánum, sem þegar hafa verið tekin. Þingið hefir ákveðið lána upphæðir og kjörin hvergi betri fánleg en fengist hafa.

Þá sagði hann, að meðferð sambandsmálsins hefði gert gagn inn á við, en ógagn út á við. Það er nú dálítið undarlegt, ef mál eru gagnleg á annari hliðinni, en ógagnleg á hinni. Eg skildi þetta ekki og vildi gjarnan fá skýringu á því, en helzt vildi eg að hún stæði ekki yfir í alla nótt. Það yrði þá að minsta kosti að vera eitthvað betra og kröftugra en það sem enn þá hefir verið borið á borð, ef eg yrði ánægður með heila vökunótt yfir þessu hjali.