13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í C-deild Alþingistíðinda. (854)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Skúli Thoroddsen:

Það er ræða háttv. þm. V.-Ísf., sem knýr mig til að standa upp.

Eg varð öldungis hissa á ræðu hans. Hann sagði, að alt það sem borið hefði verið á hæstv. ráðherra, væri órökstutt ryk, til að slá í augu þjóðarinnar.

Það er undarlegt, að menn skuli binda sig svo fast við skoðanir ákveðins flokks, að þeir verði algerlega blindaðir. En væri hv. þingm. ekki alveg blindaður af megnaata flokksfylgi, þá hlyti hann þó að sjá, að hér hafa verið færð fram Ljós rök, og sannað hvert einasta atriði í aðfinslunum við ráðherrann.

Eg skal þá fyrst að eins minna á sambandamálið. Er það ekki hverju orði sannara, að hæstv. ráðherra hefði aldrei átt að láta hafa sig til þess að hafa »grútinn« á boðstólum?

Það eitt, að ráðherra gerist svo lítilþægur að sigla heim með jafnlítilsvirðandi tilboð, sem og hitt, að hann gerir þeim síðan svo hátt undir höfði, að hann boðar fjölda þingmanna á »prívat«-fund, rétt fyrir jólin, það eitt ætti að nægja til að sýna inum háttv. þm. V.- Ísf. (M. Ól.), að hér hefir sízt verið um of harða dóma í garð ráðherrans að ræða.

Jafnvel það eitt, að nánustu flokksbræður ráðherra tóku þessum málaleitunum hans jafndauflega sem þeir gerðu, hefði vissulega átt að vera eitt nægt til þess, að hann sæi, að í ráðherrasessinum átti hann þá alls ekki lengur heima.

Þegar hann tók við ráðherraembættinu í fyrra, þá lýsti hann yfir því, að sambandsmálið ætti að vera aðalverkefnið, aðalmálið, sem hann bæri fyrir brjósti, og ætlaði sér að fá til lykta leitt. En hann hefir nú sýnt sig þar, eins og kunnugt er orðið, — sýnt, að hann er eigi maðurinn, sem koma ætti nálægt því máli.

Ef við víkjum síðan að gufuskipamálinu, þá liggja þar fyrir ljósir og skýrir samningar, sem sýnir, hve afaróheppilega hæstv. ráðherra hefir tekist í því máli.

Það tjáir því ekki háttv. þm. V: Ísf. að segja, að hér ræði um það eitt, að slá ryki í augu almennings.

Eða þá »rökstudda dagskráin« í lotterímálinu. — Var hún eigi borin fram og samþykt? Taldi hún eigi aðgerðir ráðherrana »mjög aðfinsluverðar«? Hvað er þá hér, er órökstutt sé?

Þá ætla eg og, að það hafi nú sýnt sig fullglögglega, hvernig hæstv. ráðherra lítur á þingræðið, sbr. atburðina, sem gerst hafa hér í deildinni í sumar.

Hann lætur sem ekkert hafi í skorist, þó að jafnvel öll deildin snúist á móti þeim málum, sem hann ber fram, –sbr. meðferðina á launahækkunarfrumv.

Vér heyrðum það og á ræðu hæstv. ráðherra í dag, hvern skilning hann leggur nú í þingræðið, þar sem hann gefur nú í skyn, að þó meiri hluti neðri deildar snerist á móti honum — þ. e. gæfi honum enn skýrari vantraustyfirlýsingar, en þegar er orðið, mun hann eiga við — þá mundi hann samt sitja, þ. e. hann vill skjóta sér undir meiri hluta alls þingsins, — geta notið stuðnings inna konungkjörnu, enda þeir, sem reynst hafa honum öflugust stoðin, fyr og síðar, og án hverra mjög hæpið, ef ekki alóvíst, er að hann hefði nokkru sinni ráðherra orðið.

Hvað það stoðaði hann að þessu sinni, læt; eg alósagt. — En víst er, að eigi ræður hann meiri hluta á þingi, er á flokkaskipunina er lítið.

Annars hefir það einatt verið neðri deildin ein, sem hefir ráðið, er ráðherraskifti hafa orðið hér á landi, enda á það svo og að vera.

Neðri deild getur gert ráðherranum stjórnina alómögulega, ef henni svo sýnist, eða neytt hana til að gefa út bráðabirgðafjárlög, — sem og gert hluttöku hennar í löggjafarstarfinu að engu, eða sama sem engu, eins og átt hefir sér stað að þessu sinni.

Mér þótti það annars mjög undarlegt, er háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) taldi það þjóðinni skaða, ef ráðherra færi frá völdum. En hver er þá sú stéttin í landinu, er þess þyrfti að sakna? Einu mennirnir, sem stjórnin kennir til með, eru hæst launuðu embættismennirnir, og embættismannastéttin í Reykjavík yfirleitt, og engu líkara — er á stjórnarfrumvörpin er litið —, en hún ímyndi sér, að ekkert ami að neinni hinna stéttanna.

Í sjálfu sér, þá er þetta og eigi óskiljanlegt — þótt eðlilegt sé það nú að vísu síður —, eigi óskiljanlegt þegar til þess er litið, hver ráðherrann er, þ. e. þess er gætt, að hann er maður, sem sjálfur hefir æ verið almenningi að mun betur settur, eða lifað alt öðrum lífskjörum, en hann.

Vellíðaninni fylgir það - því miður — of oft, að menn gleyma því eða gera sér eigi svo ljóst sem skyldi, hvað amar að öðrum.

Það er kvölin ein, sem kvölina fær bezt skilið, þ.e. að svo miklu leyti, sem skilin verður.

Sú nauðsynin því og æ öllum brynni, að vér finnum til hver með öðrum, svo að úr því sé bætt, sem að kreppir.

Annars var það ræða háttv. þingm. V.-Ísf. (M. Ól ), sem knúði mig til að standa upp, og vil eg þá — gagnvart ræðu hans — endurtaka það aftur, að eg fæ ekki betur séð, en að allar ásakanirnar, sem bornar hafa verið á stjórnina séu, og hafi verið, svo fullkomlega rökstuddar, sem frekast eru föng á.

Og hvernig gat þá og öðruvís farið, en raunin er á orðin.

Muna menn eigi símskeytasendingarnar 1911, og símskeytalaunungina þá? Muna menn eigi, hvað um þingræðið varð þá?

Það sem þjóðinni ríður mest á, er það, að enginn leyfi sér, eða sé látinn komast fram með það, að vera ráðherra eða fara með ráðherravöldin, nema í fullu samræmi sé við þingræðisregluna.