14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í C-deild Alþingistíðinda. (888)

68. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Pétur Jónsson:

Eg byst við að eg hallist að því, að greiða atkvæði með tillögum meiri hlutans. Ekki fyrir það, að þau ákvæði, sem meiri hlutinn leggur til að feld verði burt, hafi ekki minn samhug. T.d. ákvæðin í 1. gr. hafa fullkomlega minn samhug. Eg hefi séð, að ábúð á þeim jörðum, sem bygðar eru til eins árs í senn, er in athugaverðasta. En hvernig sem eg hefi brotið heilann um þetta atriði, hefi eg ekki getað séð, að meðan eignarréttinum er eins háttað og nú, sé hægt að kippa þessu í lag án þess að brjóta í bág við almennan hugsunarhátt manna. Eg er hræddur um, að þau ákvæði geti aldrei þrifist, sem hefla eignarfrelsi manna og særa réttarmeðvitund þeirra. Það er hart og nokkuð einhliða, að neyða jarðareiganda til að byggja jörð sína til svo og svo langs tíma, einkum þegar hann fær ekki samarétt í móti, sem sé tryggingu fyrir því, að leiguliðinn haldi uppi ábúð á jörðinni jafnlangan tíma. Eg er þessu máli talsvert kunnugur, því að eg hefi haft með höndum að byggja jarðir nú undanfarið. Það kemur oft fyrir, að jarðir falla í leiguverði í bili, 1–2 ár; t. d. vegna Ameríkuferða eða annars burtu flutnings úr vissu bygðarlagi, og geta þá á þeim tíma ekki bygst nema fyrir sáralitið- eftirgjald. Ef jarðeigandi mætti nú ekki byggja jörð sína nema til lán tíma, yrði hann annað hvort, að láta hana standa óbygða þennan tíma, eða byggja hana sér í stórskaða, því að venjulega líður ekki á löngu þangað til jarðirnar eru komnar í sæmilegt leiguverð á ný.

Eg get nefnt dæmi: Árið 1888 var eg á ferð um Húnavatnssýslu. Þá voru 14 jarðir í eyði í Víðidalnum og þar á meðal ein bezta jörðin í sveitinni. Ef jarðareigendurnir hefðu þá átt að byggis þessar jarðir til lífstíðar, eða þó að ekki hefði verið nema til 10 ára, hefði það verið þeim til mikils skaða, í stað þess að byggja þær tilbráðabirgða með lágu eftirgjaldi, sem þeir gátu svo hækkað þegar batnaði í ári. Mér er kunnugt, um, að ekki leið á löngu þangað til Víðidalurinn hafði reist sig við aftur.

Ef halda ætti ákvæðunum í 1. grein, að enga jörð mætti byggja skemur en til 10 ára í senn, ætti að binda það því skilyrði, að afgjald fengist eigi lægra en áður hefði verið, eða jafnhátt og það væri metið af tilkvöddum mönnum.

Þó væri þetta enn tilfinnanlegra, ef jarðeigendum væri gert að skyldu að eiga dýr hús á jörðum sínum. Eg játa reyndar, að það er hvorki heilt né hálft, sem jörðunum fylgir af húsum, og fyrirkomulagið er yfirleitt ilt eins og stendur. Trassfengnir leiguliðar borga að eins lágt afgjald af jörðum, en níða niður alt sem á jörðinni stendur. Góðir leiguliðar, sem gera sér að skyldu að hressa við jarðarhúsin, borga með því skatt fyrir það sem trassarnir hafa nítt niður. Allar endurbætur húsanna koma þannig niður á þeim góðu leiguliðum.

Úr þessu þyrfti vissulega að bæta. En hugsunarhátturinn er nú sá, að menn vilja hafa landskuldina sem lægsta, og þess vegna er hætt við, að sá landsdrottinn, sem húsaði vel jörð sína, fengi aldrei skaplega rentu af því fé, sem hann legði í það. Og það verður ekki heimtað af nokkrum manni, að hann leggi fram það »kapital« sem hann fær enga eða ekki nema hálfa rentu af. Í sveitunum er það svo, að menn vilja hafa landskuldina sem lægsta, og hæfilega mikið hærri landskuld fyrir þau gæði, að jörðin sé vel hirt og vel húsuð, er ófáanleg.

Meðan svo standa sakir, verða jarðeigendur illa haldnir af því að húsa vel jarðir sínar. Þess vegna skaut eg því fram, einu sinni hér á þingi, hvort ekki mundi heppilegra að leiguliðar ættu öll hús á þeim jörðum, er væru bygðar upp á lífstíð. Þetta yrði líkt og á sér stað um erðafestulöndin, því að þar eiga ábúendurnir að jafnaði öll mannvirki. Auðvitað yrði að tryggja leiguliðum það, að þegar þeir fara burt, þá fengju þeir verð fyrir öll nauðsynleg hús sín eftir mati úttektarmanna. Þetta yrði ekki svo ýkja stór breyting frá því sem nú er, þegar litið er til þess, hvað jarðeigendur eiga fá hús á þeim jörðum, sem lengi hafa verið í ábúð. Eg er ekki í neinum vafa um, að þetta leysi gátuna eins vel, ef ekki betur, en að landsdrotnar legði til nauðsynleg hús að öllu leyti. Og þetta mundi hafa annað í för með sér, sem líka er gott, leiguliðarnir mundu verða bundnari við jörðina og ekki þjóta þaðan eins títt í burt og nú á sér stað. Þegar leiguliðinn hefir fengið sanngjörn kjör við að búa, má honum ekki vera gert alt of auðvelt að kasta öllu frá sér, hvað lítill vindblær sem blæs á hann af kringumstæðunum. Það verður að láta hann finna til ábyrgðarinnar, sem á honum hvílir, af því að hafa fengið þessi kjör, líkt eina og ef hann ætti jörðina sjálfur.

Sökum þess, að ekki er auðvelt að sjá, hvor vegurinn er betri, og af því að eg álít, að ekki sé svo nákvæmlega búið um þetta ákvæði í frumvarpinu, sé eg mér ekki fært að fylgja frumv. að sinni.

Loks er eitt atriði í 5. gr., það að fyrning á húsum skuli ekki hvíla á leiguliða. Það hefir alt af verið svo, að fyrning hefir hvílt á leiguliða. Hann hefir sömuleiðis bygt upp húsin þó að landsdrottinn hafi kostað bygginguna að einhverju leyti, t. d. þegar hús hafa brunnið eða því um líkt. Þetta er sanngjarnt. Því að í fyrsta lagi er það undir því komið, hvernig byggingin er gerð, hver fyrningarhættan verður, og í öðru lagi er það fyrst og fremst á valdi leguliðans sjálfs, hvað fyrningin verður mikil árlega. Hún veltur á því, hvernig viðhaldið er og hver hirðingin er. T. d. ef oft er látið hitna í hlöðu, þá fúnar hún á fáum árum, eða ef ekki er hirt um að hafa stromp á henni. Eg tek þetta til dæmis. Það er því ekki sanngjarnt, að fyrningin sé á ábyrgð landsdrottins. Þetta er heldur ekki annað en reikningaspursmál, því að ef þessi skylda hvílir á leiguliðanum, geldur hann þeim mun lægra af húsunum í eftirgjald.