14.08.1913
Neðri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í C-deild Alþingistíðinda. (894)

80. mál, gjafasjóður Jóns Sigurðssonar

Framsögum. minni hl. (Guðmundur Eggerz):

Eg gleymdi áðan að minnast á eitt atriði, sem eg hefi tekið fram í áliti mínu, að ef á að breyta fyrirkomulagi sjóðsins, þá tel eg það réttast, að umboðslega leiðin sé farin. Mér hefir verið sagt, að menn hafi snúið sér til stjórnarráðsins með þetta mál, og að það hafi ekki viljað hafa neitt með það að sýsla. Og eg skil það mætavel, að stjórnarráðið kæri sig ekki um að breyta þessum reglum. — Annars skal eg taka það fram, að mér er þetta ekkert kappsmál, en þar sem talað er um vilja hins góða gefanda, þá efast eg um, að það hafi verið vilji hans, að verja vöxtum sjóðsins til þess að greiða einhverjum kaupmanni á Akureyri 900 krónur árlega. Eg býst við, að flestir verði mér sammála um það, að ekki sé ástæða til að búast við hallæri á næstu 20 árum. En á 20 árum nema vextir sjóðsins 30,000 kr. Og mér finst viðkunnanlegra að sjóðurinn eigi þessar 30,000 kr. eftir 20 ár, heldur en að hafa borgað þær til einhvers kaupmanna á Akureyri, hvort sem það væri tóbakssali eða kornvörukaupmaður.